þriðjudagur, júlí 29, 2003

Inda segir nokkuð...

"Ég fór einnig í þetta flokkstjóra partý um helgina og stemmingin var bara fín...þetta lið kemur mér sífelt á óvart...aldrei datt mér í hug að þetta lið gæti sungið...en viti menn það gátu þau og gerðu það bara svona snildar vel! En ég held að innlifunin hjá Hauk hafi nú samt verið lang best og slegið mest í gegn."

... "hjá Hauki" hefði verið betra.
... "hjá Hagnaðinum" hefði verið best.

Takk samt.

Hagnaðurinn
Verslunarmannahelgin...

Ég var að setja inn könnun mér og öðrum til gagns og gamans. Hún er hérna hægra megin. Can´t miss it.... og koma svo.... kjósa.

Hagnaðurinn
Bíógagnrýni...

Hagnaðurinn brá sér í bíó fyrir skömmu. Sá Basic. Var ekki alveg viss hvað mér fannst þegar ég gekk út úr bíóinu. En núna er ég viss. Þetta var pretty ömurleg mynd. Ég gær lýsti ég myndinni sem "margslunginni'.

Vissulega var hún margslungin... margslungnar holur í handriti til dæmis. Það fer soldið í taugarnar mínar. Þessar fínustu sem liggja í iljunum og sparka þegar holurnar birtast. Andskotinn hafi það.

Basic er soldið eins og Wild Things. Mynd sem ætlar aldrei að enda og hver fléttan slær þá síðustu út í heimskulegheitum. En Wild Things hafði til brunns að bera nokkur álitleg atriði, ef þið skiljið hvað ég meina... svalir svalir svo bragðgóðar og frískandi

Niðurstaða: Ég mæli með því að þið farið ekki á þessa mynd í bíó. Hins vegar mæli ég með því að þið takið hana á vídjó. Ha, af hverju? Jú, stundum verðum við að horfa á slæmar myndir til að læra að meta þær góðu. Þetta er vissulega slæm mynd, en hún er aldrei leiðinleg.

Ég veit ekki hvert ég er að fara með þetta og hætti því bara hér.

Hagnaðurinn

mánudagur, júlí 28, 2003

Við Íslendingar eigum nú að vera svo hugaðir og kjarkaðir og fífldjarfir en svo þegar kemur að stóru stundunum látum við jakkafatamenn á glansskóm rúlla yfir okkur og glotta framan í okkur í kvöldfréttunum - þeir eru of uppteknir við laxveiðar til að geta svarað spurningum fréttamanna.

Stöndum nú saman og höfum 1. ágúst næstkomandi bensínlausan - þ.e, enginn verslar bensín!!! Fáið lánaðan sláttuvéla brúsann hjá nágrannanum ef tankurinn er galtómur!

1. ágúst 2003 - Dagurinn sem íslenska þjóðin reis upp á afturlappirnar og mótmælti aftanítökum olíufursta landsins. Lang besta leiðin til að dreifa fagnaðarerindi sem þessu er að senda barasta á alla sem þið hafið í contact listanum í Outlook, eða
sambærilegum forritum - með ósk um að viðkomandi dreifi bréfinu áfram!

Keðjubréfar kveðja!


Ég fékk þennan póst áðan.
Hvaða snillingi datt í hug að hafa föstudaginn fyrir Verslunarmannahelgi bensínlausan? Það hefði mátt velja alla aðra daga ársins.

Sumt er skrítið.

Hagnaðurinn
Netleikur...

Ligg ég hér veikur heima núna. Mér til skemmtunar fór ég að spila þennan
leik. Disorderly heitir hann. Mæli með því að fólk spili hann því þetta er alger snilld.

Góða skemmtun.

Hagnaðurinn

sunnudagur, júlí 27, 2003

Hæ...

Ég mæli með því að þið hlustið á þetta. Ansi skemmtilegt. Hlustið frá upphafi til enda.

Hagnaðurinn
Mér brá í gær....

... og brá mér því útá lífið eins og áður hefur komið fram. Stemningin í útskriftinni var töluverð og magnaðist eftir því sem leið á kvöldið. Sérstaklega var hún orðin góð undir lokin þegar flestir gesta hlógu sig máttlausa... hrín hrín

... fórum niðrí bæ eftir partýið. Spókuðum okkur á Hverfisbarnum og Sólon. Miklu skemmtilegra á Hverfis. Það var helvíti mikið af fólki í bænum... um 5000 manns taldi ég.... ég taldi...

... Nú styttist í að skólinn hefjist. Ætla ég því núna að fara að lesa Þjóðhagfræði á þessum syngjandi sunnudegi. Hver er að hugsa hagfræði?

... í gær var ég beðinn um að taka fram knattspyrnuskóna aftur og koma í Þrótt. Ég held ég hafi sagt: 'Kannski á næsta ári'. Pæling. Geiri El. er fínn þjálfari. Einnig er mikið af hressum strákum í Þrótti.

Jæja, hef þetta ekki lengra.

Hagnaðurinn

laugardagur, júlí 26, 2003

Útskrift...

Á eftir er ég að fara í aðra útskriftarveislu hjá Camillu og Óla. Aðra já... var nefnilega staddur í Myrtle Beach þegar þau útskrifuðust. Á ég að vera að óska þeim aftur til hamingju? Það væri eins og að koma í afmæli og segja 'til hamingju með afmælið' og hitta svo sama mann 2 mánuðum seinna niðrí bæ og segja aftur 'til hamingju með afmælið'. Ég verð að finna eitthvað útúr þessu. Koma á óvart.

Óvart.

Hagnaðurinn
Gettó-get-together...

Það var samkoma í gær hjá Meistaranum að Meistaravöllum. Mætt var helsta liðið úr gettóum Reykjavíkur; Fellum og Hólum. "Þetta er töff crávd" sagði Viðar. Menn voru í misjöfnum fíling. Sumir í glasi og aðrir í þrasi en öll vorum við í söngfíling.... 'Carte di mare' og þessi lög öll. (Viljandi villa).

Ein ákvörðun var tekin í gær og kom reyndar hugmyndin frá sjálfum mér. Það var sem sagt tekin ákvörðun um að síðasta 'íþróttamót' sumarsins verði í karaókí. Ákaflega slæm hugmynd sem kom fram í ölæði. Nú er það sannað að menn hafa negatíva greindarvísitölu þegar þeir eru fullur og þetta var bara eitt af þessum mómentum. Ég vill sem sagt áfrýja þessari ákvörðun til hæstaréttar.... málið er nefnilega það að ég hef lagt míkrófóninn á hilluna. Ég gleymdi því bara í gær.

Annars fór ég í golf áðan. Grindavík þriðja skiptið í röð. Harpa kom með og spilaði hún stórkostlegt golf. Ég var einnig að standa mig. Alltaf að verða betri og betri þó vissulega sé ég enginn snilli. En þetta er drullugaman.

Eru þá allir Íslendingar komnir með blogg?

Hagnaðurinn


föstudagur, júlí 25, 2003

Jæja... föstudagskvöld

Ýmislegt um að vera. Langar fyrst að geta þess að ég var að setja inn myndir úr vinnunni. Já, það er svona helvíti gaman í vinnunni að ég varð að taka myndir.

... Það var flokksstjóramót í Trivial Pursuit í gær. Ég og Daði unnum með yfirburðum... það kom ekki á óvart.
Langar af því tilefni að rifja upp íþróttamót sumarsins:
1) Pool.... vann það
2) Keila... vann það
3) Píla... runner up
4) Trivial... vann það

Sem sagt 3 gull og 1 silfur. Koparinn er sáttur. Hvenær fæ ég bikarinn?

Farinn í partý. Svo annað partý á morgun. Nóg að gera sem sagt.

Lifið heil.

Hagnaðurinn

fimmtudagur, júlí 24, 2003

Ferðasaga... Formáli:

Þessi ferðasaga er um ferð eina til Benidorm á vegum Sumarferða. Við (þegar ég segi ‘við’ þá er ég að tala um mig, Hagnaðinn, Hörpu, ástkonu mína, Jón Inga Jóningason og Klöru Hauksdóttur) fórum þann 10. júlí 2003 og vorum við Harpa í eina viku. Jón og Klara verða viku lengur.

Saga þessi gæti dregist á langinn og mæli ég með því að prenta þetta út og taka með sér á klósettið þegar gera á númer 2. Hvað er leiðinlegra en að lesa um innihaldið í tannkremstúbu? Og koma svo.... rembast...

Góða skemmtun...
Dagur 1: Fimmtudagur

Fyrsti og síðasti dagurinn í ferðalagi eru oftast ekkert voðalega skemmtilegir. Hér var engin undantekning á ferðinni. Mér leiðist nefnilega óskaplega að fljúga. Hvort er verra: Ókyrrð í lofti eða grenjandi barn í fjóra tíma? Ég lenti í því seinna og það var algjör martröð.... just bring on the ókyrrð, eins og kaninn segir.

Við komumst þó klakklaust á leiðarenda í Alicante og fengum þar bílaleigubíl af gerðinni Fólksvagn Polo. Fín kerra taldi ég. Kom svo útá hraðbraut þar sem það var 120 km/h hámarkshraði. Ég hélt mig á hægri reininni, og horfði á bílana dúndra framhjá mér á 160 km hraða. Langar þó að geta að umferðarmenning Spánverja á hraðbrautum er til fyrirmyndar, en inní bæ er annað uppá teningnum... kem að því betur á eftir.

Innrituðum okkur inná Gran Hotel Bali um klukkan 21:00 að staðartíma. Fyrstu kynni voru afar góð. Hótelið leit mjög vel út, var vellyktandi og til mikillar fyrirmyndar. Þrumuðum töskunum inná herbergi, hvergi gefið eftir, og beint niður í matsal. Við ætluðum svo sannarlega að fá okkur miðjarðarhafs-hanastél og kjöt sem myndi bráðna uppí okkur eins og smjer í örbylgjuofni. En nei, þetta voru vonbrigði töluverð. Bara þokkalega stórt hlaðborð á Múlakaffi standard. En bjórinn með matnum var góður og reyndist ekki vera sá síðasti í þessari ferð.

Með óbragð í munni en þó glott útí annað tókum við stefnuna á ströndina. Hvergi hikað. Komum fyrst við á mjög lítilli strönd; kannski 350 metrar að lengd. ‘Þetta hlýtur að vera Costa Blanca ströndin’, sagði einhver. Ég vona að það hafi ekki verið ég því seinna komumst við að því að Costa Blanca ströndin er eitthvað annað og miklu meira.... svipað og vera staddur á Hverfisgötunni og segja: ‘Þetta hlýtur að vera Reykjavík’.

Stoppuðum svo stutt á einum bar á Poniente ströndinni þar sem tvær enskar snætur (fleirtala fyrir snót) afgreiddu okkur. Hér talar fólk ensku, hugsaði ég. Reyndist það þó vera hugarburður einn. Þetta kvöld var svo farið snemma í háttinn því það átti aldeilis að grilla sig daginn eftir.

Þetta var fyrsti dagurinn. Endilega lesið áfram. Margt skemmtilegt framundan
Dagur 2: Föstudagur

Þennan dag var vaknað klukkan 8:00 stundvíslega. Skutlað sér niður lyftuna frá níundu hæð og beint í morgunmat. Hann var ágætur. Mér finnst gott að fá mér bakaðar baunir, beikon og egg í morgunmat og skola því niður með svalandi ávaxtasafa. Einnig var fleira á boðsstólum en ég fékk mér eiginlega alltaf það sama.

Grillbekkirnir við sundlaugarbakkann voru orðnir vel heitir eftir morgunmat og því kjöraðstæður til að verða brúnn, og það fljótt. En vá, það var alltof heitt til að liggja flatur eins og skata. Skötur eru heldur enginn herramannsmatur. Því var skellt sér í skó og gengið niður að markaði einum þarna skammt frá.

Mér finnst gaman á mörkuðum. Sérstaklega er eftirminnilegur einn markaður sem ég fór á í Amsterdam haustið sem Fram komst uppí Úrvalsdeild síðast. Minnir að það hafi verið 1996; fyrsta árið mitt í meistaraflokki. Já, maður er jaxl. Eða bara brotin augntönn. Þessi markaður var hálfgert prump; og þá er ég ekki að tala um alvöru prump.... meira svona puufff. Bara samansafn af sólgleraugum, úrum og öðru drasli. Ég held þó að ég hafi keypt mér alvöru Ray Ban gleraugu á 6 evrur. Múha ha ha ha.

Að loknu markaðsrölti var farið í stórmarkað þarna skammt frá og verslunarmiðstöð. Stórmarkaðurinn heitir Carrefour og veit ég ekkert hvað það þýðir. Þetta var svona Wal-Mart/Mikligarður Spánverja. Fullt af allskonar drasli sem enginn vill en kaupir samt. Við héldum okkur þó aðallega í drykkjarvörudeildinni. Þar voru versluð heil ósköp. Það var bara svo ódýrt... réðum ekkert við okkur.

Verslunarmiðstöðin var bara ágæt. Þó ansi mikið að kvenfataverslunum (ég er að reyna að vanda mál mitt, takiði ekki eftir því?). Það var eitthvað verslað þarna. Þó hef ég séð Hörpu í meiri ham áður. Það voru allsstaðar útssölur í gangi og var það gott. Þarna var Zara (eða Þaða eins og Spánverjinn segir) og eitthvað fleira. Eyðum ekki fleiri orðum í það.

Hádegisverður á einhverjum stað sem heitir McDonald´s. Fínn staður. Mæli með honum, sérstaklega að fá sér ‘Maxi’ því þá færðu geisladisk með.

Að loknu 2 tíma sólbaði var ákveðið að gefa kvöld-hlaðborðinu annan séns. Reyndust það vera mistök. Var þetta bara sama sullið og kvöldið áður og mæli ég ekki með þessu. Þetta var síðasta hádegis/kvöldmáltíðin sem við fengum okkur þarna. Væntingar... gamlárskvöld!

Gamli bærinn er eins og nafnið gefur til kynna elsti hluti Benidorm. Benidorm er eiginlega eins og hjarta í laginu, með tveimur ströndum (Poniente og Levante) og gamli bærinn er í miðjunni og skilur strendurnar að. Um kvöldið tókum við leigubíl niðrí gamla bæ. Skoðuðum okkur þar um og tókum svo röltið niðrá Levante því það er partý-ströndin. Tjekkuðum við á nokkrum stöðum; KU og KM virtust vera heitir og einnig Penelope. Vorum við samt ekki alveg í stuði að tjútta við leiðinlegt Júrópopp. Sátum bara og drukkum og létum vera að hrista á okkur rassgatið. Það er fínt.

Eitt er skemmtilegt við barstemninguna þarna. Fólk er nefnilega veitt inná staðina. ‘Viljiði frítt staup eða hanastél?’ spyr vel-útlítandi fólk mann útá götu með bjagaðri ensku. ‘Sjör’ segi ég. Held við höfum verið veidd inná einhverja fjóra staði þetta kvöldið og var ölvun mikil.

... Já, ölvunin var töluverð. Jón Ingi og Klara lentu líka illa í því. Það var gæi útá götu með þrjár hálfar kartöflur og eina rauða kúlu og ruglaði henni svona fram og aftur og ef maður gat giskað rétt á hvar hún endaði þá vann maður tífalt til baka það sem maður lagði undir. (Leggðu undir 5 evrur og þú getur unnið 50). Hljómar vel! Jón lagði undir 50 evrur og ætlaði að vinna 500. Hann fór tómhentur heim. ‘Hann er höstler... na na na na na’. Þið þekkið lagið.

Kvöldið var svo endað aðeins inní landi þar sem Englendingar réðu ríkjum. Prófuðum stað sem heitir Lennon. Hann var skelfilegur. Kvöldið fjaraði svo út með KFC og almennri vitleysu. Mér var boðið ‘hashish’ tvisvar.

Þetta var dagur númer tvö. Hvað gerist á morgun?
Dagur 3: Laugardagur

Vaknað klukkan 9:30. Smá þynnka. Samt ekki svo slæmt. ‘Maður verður ekki jafn þunnur í útlöndum’. Skóflað í sig feitmeti og Red Bull. Núna átti sko að versla og það ekkert smá. Höfðum við heyrt að í Alicante væri ‘Nike Factory Store’ sem væri einhver stórkostlegasta verslun á jarðríki.

Eftir smá hremmingar hjá Hagnaðinum á þjóðvegum Spánar enduðum við loksins í þessari verslun. Jón og Klara voru búin að taka út ógrynni fjár og ætluðu að versla brjálæðislega. Harpa líka... sumt breytist ekki. En þvílík gríðarleg vonbrigði. Ég átti von á þriggja hæða vöruhúsi þar sem allt var nánast gefins. En nei, þetta var einhver pínu verslun og verð ekkert hagstætt. Við keyptum samt öll eitthvað. Við bara urðum!!

Lá leiðin síðan aftur í Verlsunarmiðstöðina sem áður sagði frá. Ég fjárfesti þar í buxum og bol. Fín kaup. Átum síðan á stað sem heitir ‘Ribs and Rock’. Fékk mér samt ekki Ribs í þetta skiptið. Kjúklingaborgari varð fyrir valinu. Hvergi hikað þó maður hafi heyrt salmonellu sögur frá Ragtoin. Greyi drengurinn. Það hefur ekki verið góð flugferð.

Eftir 2 ½ tíma sólbað við kjöraðstæður og 38 stiga hita var brugðið sér til Albir. Albir er lítill staður í um 15 mínútna fjarlægð frá Benidorm. Rosalega krúttlegur staður og tilvalinn fyrir rómantíska kvöldgöngu þar sem maður getur spókað sig og skoðað í sölubása sem nota bene selja bara drasl. Borðuðum svo á stað sem systir Hörpu sætu mælti með.

Staður sá heitir ‘Country Ribs’... annar staður dagsins með ‘Ribs’ í nafninu. Núna fékk ég mér þessi líka fínu svínarif og svolgraði þeim niður með ískölum bjór. Afar karlmannlegt. Harpa fékk sér piparsteik og rauðvín. Nammi namm. Fínn staður og óhætt að mæla með honum.

Um kvöldið var svo aftur farið á Levante ströndina. Eftir barrölt og almenna drykkju var aftur drifið sig uppá hótel... en það var allavega hugmyndin. Það var nefnilega ekki hægt að drífa sig. Við komumst að því eftir að hafa stoppað nokkra leigubíla á götu úti að maður verður að vera í sérstakri leigubílröð til að mega fara inní hann. Frústrerandi.

Ástæðan fyrir þessari brottför okkar úr bænum var sú að Raul og Raula voru að fara að strippa uppá hóteli í næturklúbbnum þar. Við rétt misstum af gellunni, mér og Jóni til mikillar gremju. Stelpurnar fengu þó eitthvað fyrir sinn snúð. Raul sýndi stórkostlega takta við undirleik strákanna í Backstreet Boys. Snemma í showinu var Klara dregin uppá svið og látin sitja í stól. Hjálpaði hún Raul úr fötunum. Hún slapp þó fljótlega. Núna var Raul kominn á nærbuxurnar og Harpa var dregin upp á svið. Hjálpaði hún honum úr brókunum og að launum fékk hún liminn á honum í kinnina undir slæðu. Þær voru afar drukknar og höfðu gaman af. Þær höfðu þó ekki jafn gaman af þessu daginn eftir né þegar myndirnar komu úr framköllun. ‘Jájá, loka þessum strippstöðum’ segja konur landsins.

Þetta var dagur númer 3. Lesið áfram. Hver veit nema ‘Gente di Mare’ komi við sögu á degi fjögur.
Dagur 4: Sunnudagur

Við Harpa sváfum yfir okkur þennan morguninn þrátt fyrir plön um að vakna voðalega snemma. Það gekk einfaldlega ekki eftir. Misstum við því af morgunmat. En eitthvað verður maður að troða í grímuna á sér þegar maður vaknar svo við fundum lítið bakarí/kaffihús hinum megin við götuna. Ágætt að fá sér bara rúnstykki og ávaxtasafa. Veit einhver hvaðan orðið rúnstykki er komið?

Við létum sólina baka okkur í um 1 ½ klukkustund og brugðum okkur svo í bíltúr. Áfangastaðurinn að þessu sinni var Altea, en það er einmitt lítið þorp skammt norðan við Albir, í um 20 mínútna fjarlægð. Keyrðum við í gegnum aðalhluta bæjarins og tókum stefnuna á Altea Hills, en eins og nafnið gefur til kynna er það uppí fjalli. Það var einstaklega skemmtilegt að keyra þarna upp. Vegirnir voru ofboðslega brattir og nánast um þverhnípi að ræða. Þarna bjó greinilega sterkefnað fólk sem einhver staðar hefur hagnast verulega eða kannski erft fullt af peningum. Útsýnið þaðan var glæsilegt; hefði ekki vilja missa af þessu.

Þetta síðdegi var ýmislegt gert og ekkert merkilegt. Borðað á McDonald´s. Filmur í framköllun í Carrefour. Smá legið við sundlaugina. Göngutúr og ísferð niðrá strönd.

Við hliðina á okkur Hörpu á níundu hæð Gran Hotel Bali voru íslensk hjón í 3 vikna ferðalagi. Höfðu þau verið þarna í 2 vikur þegar við mættum. Ræddum við svolítið við þau þegar við þurftum ráðleggingar. Þetta kvöld óskaði ég eftir ráðleggingu með matsölustað í göngufæri frá hótelinu. Konan taldi upp nokkra staði og eftir smá umræður var ákveðið að fara á stað sem heitir ‘Di Mare’. Þetta átti að vera ‘frábær ítalskur staður þar sem allt er gott á matseðlinum’. Gott og vel; prófum kvikindið.

Það var einfaldur matseðill... pizzur og pasta. Við fengum okkur öll pizzu. Þær áttu eftir að koma svolítið á óvart. Pizzurnar voru afar þunnur og endarnir hálf brenndir. Sveppirnir voru úr dós. Mér finnst það alltaf vera ókostur. Sveppir eiga að vera ferskir á pizzu. Mér fannst þetta bara vera allt í lagi. Aðrir voru mér algjörlega ósammála. ‘Þetta er það versta sem ég hef fengið í þessari ferð, og þá er hlaðborðið á hótelinu talið með’ sagði einhver. Full harkaleg ummæli myndi ég segja. Mæli þó ekki með þessum stað.

Við Harpa brugðum okkur niður í garð á hótelinu um kvöldið. Í garðinum er alltaf eitthvað um að vera á kvöldin. Þó er aðallega dagskrá fyrir eldra liðið. Þarna mættu flamingódansarar, vondir söngvarar og alls konar pakk. Einnig var tekinn smá línudans. Okkur fannst þetta ekkert voðalega gaman. Samt fínt að vera úti seint um kvöld á stullunum og sörta bjór, drekka “Sex on the Beach” og rauðvín. Já, það þarf lítið til að gleðja lítinn Hagnað og frú.

Fleira var ekki gert á degi fjögur. Dagur fimm var líklega besti dagur ferðarinnar. Lesið áfram af ferðum Hagnaðarins
Dagur 5: Mánudagur

Í dag er tívolídagur. Múha ha ha ha. Það er alltaf gaman að fara í tívolí.

Í um 10 mínútna fjarlægð frá hótelinu er ‘Terra Mitica’, sem er tívolí staðarins. Þetta er stórt tívolí með allskonar tækjum og dóti sem hér verða gerð ítarleg skil. Tívolíið liggur ofan við bæinn upp við fjallið og það er svona risastórt skili sem stendur á: ‘Terra Mitica, a Paramount Park’. Svolítill Hollywood fílingur á skiltinu. Það kostaði einhverjar 30 evrur inní garðinn. Fínt verð.

Garðurinn skiptist í nokkur lönd; Egyptaland, Grikkland, Rómaveldi og fleira. Virtist það samt ekki skipta neinu máli nema uppá lúkkið. Það sem öllu máli skiptir eru rædin.

Við fórum í tvo rússíbana. Annar þeirra var úr timbri. Hann var soldið langur en það var ekkert almennilegt kick í honum; engir hringir og enginn læti. Fínn hraði samt og skarpar beygjur. Klara ákvað að beila á honum þessum. Hinn baninn var geggjaður. Maður hekk eiginlega í brautinni, frekar en að sitja á henni (vonandi skiljiði hvað ég meina). Það býður uppá marga skemmtilega möguleika. Til dæmis verða hringirnir skemmtilegri þar sem maður fer utanvert á hringinn. Einnig voru svaka skrúfur, lykkjur og bara brjálæði. Ég vil taka fram að Harpa sýndi mikið hugrekki við að skella sér í þetta tryllitæki. Til hamingju.

Einnig voru þarna tvær vatnsrennibrautir. Þær voru ósköp keimlíkar. Maður er bara í einhverjum bát og byrjar að fara upp svona teina. Svo rennur maður niður bratta brekku og lendir í svaka gusugangi og verður gegnblautur. Þetta er helvíti gaman. Einnig er nauðsynlegt að fara í þessi tæki með reglulega millibili því það kælir mann niður í hitanum. Stelpunum fannst þetta samt miklu skemmtilegra en mér og Jóni.

Vert er að minnast á eitt tæki til viðbótar. Það var svona frjálst-fall tæki. Maður fór uppí töluverða hæð (áttaði sig eiginlega ekki á því hvað þetta var hátt fyrr en maður var kominn upp... kannski svona 40 metrar), stoppaði þar í smástund og svo bara búmmm. Ansi gott fyrir magann að leyfa honum aðeins að ferðast uppí háls. Hefði samt verið mjög slæmt að fara í þetta tæki beint eftir viðbjóðslega “kjötfars”hamborgarannn sem við splæstum á okkur þarna. Héldum að við hefðum bara lent á slæmum borgara en svona almennt virðist kjötfars vera notað í spaníóla borgarana.

Við brenndum okkur öll illa í garðinum þennan daginn. Ég fékk skemmtilegt wife-beater far, og almennt var fólk að brenna sig. Sólin getur verið ansi lúmsk þegar maður stendur lengi kyrr í röð. Sérstaklega er hún lúmsk þegar maður ber ekki á sig sólarvörn. Allavega, frábær garður í alla staði. Vorum þarna frá klukkan 10:30-17:00 og skemmtum okkur eins og konungar og jú drottningar.

Eftir sturtu sem hreinlega refsaði öxlunum var farið enn og aftur í gamla bæinn. Þetta skiptið keyrði ég. Það reyndust vera agaleg mistök. Það er fínt að keyra útá þjóðvegi en þegar maður er kominn inní bæ er allt önnur saga. Þarna eru þröngar götur, fólk hikar ekki við að troða sér inní svakalega þröng stæði, og þeir sem finna ekki stæði stoppa bara útá götu og skilja bílinn eftir! Þá eru Spánverjarnir ekkert gefnir fyrir að virða stöðvunarskyldur og rauð ljós stoppa menn ekkert endilega. Ef þið ætlið í gamla bæinn, takið þá leigubíl... það kostar bara 5 evrur.

Með garnirnar ýlfrandi eins og sæhestur fundum við veitingastað eftir langa leit. Við vorum að leita að einhverju fínu en fundum bara ekki neitt. Svo loksins vorum við veidd inná einn stað. Þetta var ítalskur staður sem var með matseðil á íslensku. Staðurinn heitir ‘Mama Mio’. Mér finnst ekkert sérstaklega gaman að vera veiddur inná veitingastað en það slapp í þetta skiptið. Maturinn reyndist bara vera hinn ágætasti; ólgandi lasagna svolgrað niður með bjór.

Eftir mat var svo kíkt í búðir í gamla bænum. Þarna er ekki mikið um flottar búðir og eiginlega bara samansafn af einhverju túrista drasli. Ég náði þó að kaupa mér ágætis skó og Harpa fann sér eitthvað í Zöru. Hefði Harpa ekki keypt sér eitthvað þarna hefði þetta verið sögulegur dagur. Þetta hefði nefnilega verið önnur búðaferðin í röð sem hún kaupir ekki neitt. Hún lét það ekki gerast í þetta skiptið en það mátti ekki miklu muna því við rétt náðum inní Zöru fyrir lokun.

Fleira markvert var ekki gert þennan daginn. Verslun og rómans á morgun. Lesið því áfram.
Dagur 6: Þriðjudagur

Eftir bruna gærdagsins í tívolíinu var ákveðið að nota þennan dag til að versla. Mér finnst leiðinlegt að versla en geri mér samt grein fyrir því að það er nauðsynlegt af og til... samt ekki alltaf. Í dag ætluðum við að fara til Alicante í nýja verslunarmiðstöð. Það var og gert.

Verslunarmiðstöðin heitir ‘Plaza Del Mar’. Þokkalega stór en samt enginn risi. Nóg af verslunum þarna fyrir kvenfólk og útsölur í fullum gangi. Ég keypti mér ýmislegt og það sama gerði Harpa. Einnig keyptum við hluti fyrir fólk. Borðuðum á mexíkóskum veitingastað. Kjúklingurinn var soldið tæpur þarna. Ekkert meira um það að segja. Kominn heim um 16:30.

Við Harpa tókum smá sólbað þegar við komum heim og svo var bara þrumað aftur til Altea um kvöldið. Núna átti að fara á einhvern fínan veitingastað. Við fórum á lítið torg uppá smá hæð þar sem kirkja staðarins var. Fórum þar á stað sem heitir ‘Des Artilles’. Þau þrjú skófluðu í sig önd en ég fékk mér brot af því besta. Rennt niður með víni hússins. Eðalmáltíð. Einnig var stemningin þarna góð. Við mættum ekkert fyrr en um níu-leytið. Það er eðlilegur tími fyrir Spánverja að fara út að éta. Við náðum fínu borði úti við torgið og það var einhver gæi að spila á gítar á meðan við átum. Voða kósý. Hann tók aðallega Eric Clapton lög. Var samt ekkert góður.

Kvöldið var svo í rólegri kantinum. Slappað af niðrí garði með glas í hendi til miðnættis.

Þetta var umfjöllun mín um dag númer 6. Síðasti heili dagurinn á morgun. Mun ég blotna á morgun?
Dagur 7: Miðvikudagur

Fyrr í ferðinni, á degi þrjú eða fjögur, fengum við stöðumælasekt. Hún hljóðaði uppá tæpar 30 evrur. Ég talaði við fólkið í móttökunni um hvað ég ætti að gera. ‘Don´t pay it’, sagði yfirmaðurinn mér. Klikkhaus hugsaði ég. Ráðlagði mig því við fararstjóra Sumarferða sem heitir Einvarður. Hann sagði mér að borga þetta í næsta banka.

Því byrjuðum við daginn að fara í næsta banka. Hann hét ‘Banco Popular’. Skemmtilegt nafn finnst mér. Spurning um að stofna Vinsældabanka á Íslandi. Einhverra hluta vegna var ekki hægt að borga í þessum banka svo við gerðum upp okkar mál í C.A.M.; einhverjum öðrum banka (eins og öllum sé ekki skítsama).

Hvað sem því líður, þá var vatnsleikjagarðaferð í dag. Jibbí. Gaman gaman. Garðurinn sem sækja átti heim heitir svo mikið sem ‘Aqualandia’. Ákaflega lýsandi nafn. Garðurinn er staddur við Levante ströndina. Kostar 17 evrur inn. Svo þarf reyndar að punga út alls konar kostnaði þegar inn er komið. Eitt af því er geymsluhólf . Við fengum okkur eitt slíkt í þetta skiptið. Við Harpa fórum nefnilega einu sinni í Wet ´N Wild í Orlando og þar var stolið fullt af drasli frá okkur; m.a. nokkrum filmum með myndum úr Disneyland og Universal Studios.

Garðurinn var bara nokkuð skemmtilegur. Líklega var þetta skemmtilegasti svona garður sem ég hef farið í. Reyndar ekki mikil samkeppni. Tækin voru hefðbundin. Það var töluvert um svona þar sem maður rennur sér niður eitthvað á slöngu. Lítill hraði er í slíkum tækjum og spennan því ekki mikil. Eitt hér ‘Blackhole’ og var það bara fínt. Einnig voru fín tæki þar sem brattinn var töluverður og hraðinn sæmilegur.

Eitt var það tæki sem ég fór ekki í. Má segja að ég hafi ekki þorað. Ég tek því eins og karlmenni. Það kallast eitthvað og er eiginlega bara 90 gráður niður á dúndrandi hraða. Jón Ingi fór í það og sagði að það væri geggjað. Ég fylgdist bara með sposkur á svip. Langaði mikið en lagði ekki í það. Samt sé ég ekkert eftir því að hafa farið. Ég er jú á lífi í dag.

Við vorum þarna til klukkan svona 16:00. Slöppuðum bara af seinni hlutann í svona öldugangs-sundlaug. Það er ákaflega notarlegt að slappa af þar á slöngu. Langaði bara að sofna.Aqualandia: Mæli með því.

Dagskrá kvöldsins var hefðbundin. Kaupa það sem átti eftir að kaupa, framkalla filmur og éta. Prófaði núna rifin á ‘Rock and Ribs’. Þau ollu mér ekki vonbrigðum.

Fer þessari ferðasögu þá að ljúka. Flogið heim daginn eftir eldsnemma um morguninn og komið til Reykjavíkur um hádegi.

Í heildina frábær ferð. Það var mikið gert og mikið gaman. Þakka ég fyrir lesturinn.

Góðar stundir.

Hagnaðurinn

miðvikudagur, júlí 23, 2003

Surprise....

Hæ allir. Gamla síðan mín var orðin ógeðslega ljót og þreytt og leiðinleg svo ég ákvað að breyta aðeins til. Þetta er afraksturinn.

Búinn að setja inn fullt af nýjum linkum, það er komnar inn myndir og ég veit ekki hvað og hvað. Vonandi fellur þetta í kramið. Ef ekki, þá megið þið hoppa uppí rassgatið á ykkur.

Vegna anna við að búa til 2 bloggsíður í kvöld hefur enginn tími gefist fyrir ferðasöguskrif, því verður það að bíða enn um sinn. En þetta hlýtur að fara að klárast.

Ble í bili.

Hagnaðurinn
Halló gott fólk...

Var rétt í þessu að aðstoða Hörpu í að búa til blogg fyrir hana. Hér getið þið séð afraksturinn. Endilega kíkið á þetta. Þetta er sannkallað meistaraverk. Svo ætlar hún að vera duglegri en ég að setja inn myndir. Sjáum hvernig það fer.

Lifið heil.

Hagnaðurinn

þriðjudagur, júlí 22, 2003

Bíómyndir...

Ég brá mér í bíó á sunnudaginn ásamt Daníeli Traustasyni, a.k.a. President. Sáum eðalræmuna Pirates of the Caribbean. Johnny Depp fór á kostum og Orlando Bloom úr Lord of the Rings var sætur. Þetta er skemmtileg ævintýramynd sem er keyrð áfram af fullum krafti allan tímann og bara partý. 80/100*.

Sá svo aðra snilldarmynd í sjónvarpinu áðan. Það var myndin Zoolander. Mér finnst þetta ein af fyndnari gamanmyndum sem ég hef séð. Ben Stiller er óborganlegur sem Derek Zoolander og Owen Wilson er æðislegur sem Hansel. Ef þið hafið ekki séð hana þessa þá er bara að drífa sig útá leigu.

Ferðasaga almost ready. Klára vonandi í kvöld.

Rómantískar stundir.

Hagnaðurinn

sunnudagur, júlí 20, 2003

Partý, Götubolti og Golf

Ég hélt smá partý á föstudaginn hér að Hagnaðarsetrinu. Mættir voru flokksstjórar þeir sem vinna með mér. Þetta voru Meistarinn, Heiða, Bjarni Þór, Sandra, Pétur og Viðar. Fín stemning myndaðist. Við sungum Gente di Mare og fleiri góð lög og sumir drukku áfengi. Svo fórum við Heiða í bæinn ásamt Bjarna sem skutlaði okkur. Hitti ég Hörpu á Hverfis og fórum við fljótlega heim. Ágætt kvöld.

Götuboltamót fór fram á Ingólfstorgi um helgina. Komst mitt lið í úrslitin á laugardaginn. Þá var ég afar þunnur og með harðsperrur. Vorum við að spila frá klukkan 13-20. Gékk bara helvíti vel og lentum við í öðru sæti og fengum 72.000 krónur fyrir. Fín laun fyrir að spila fótbolta og hreinn Hagnaður. Hefði samt verið gaman að vinna utanlandsferð og 100.000 kall. Kannski á næsta ári....

Fór svo í golf í dag með Sigurði Óla, a.k.a. Gráa Eldingin. Spilað var í Grindavík. Fínn völlur þar. Þetta var spennandi keppni sem lauk með því að hann vann mig með 8 holum gegn 6. Ég tek hann næst.

Þetta voru fréttir helgarinnar.

Ferðasaga að verða ready.

Góðar stundir.

Hagnaðurinn

föstudagur, júlí 18, 2003

Partý og fótbolti....

Hagnaðurinn er víst að fara að spila í knattspyrnumóti á Ingólfstorgi klukkan sex í kvöld og frameftir. Gæti orðið áhugavert. Allir að koma og hvetja 'Hverfisbækistöð 4' liðið.

Svo hef ég einnig tekið að mér að halda flokksstjórapartý í kvöld hér í Hagnaðarsetrinu. Múha.

Back to work.

Hagnaðurinn

fimmtudagur, júlí 17, 2003

Er að rita ferðasögu...

Hvort viljiði fá dag fyrir dag smátt of smátt eða allt í einu?

Fékk mér annars camenbert í kvöldmat. Allt tómt hér.

Hagnaðurinn
Kominn heim....

Ferðasaga fljótlega. Annars bara að fara á Fram-KA í kvöld.

Stay tuned.

Hagnaðurinn

sunnudagur, júlí 13, 2003

laugardagur, júlí 12, 2003

Saelt veri folkid...

Hagnadurinn her a Spani. Stemningin i algleymingi. 38 stiga hiti og sol.

Buinn ad gera fullt og drekka sma. Senjoritur og Raular utum allt. Afengid vellur. Kem med meiri sogur seinna. Farinn eitthvad ad eta.

Christian Slater.

Hagnadurinn

miðvikudagur, júlí 09, 2003

Sælt veri fólkið.

Svona er veðrið á Spáni næstu daga. Langaði bara að vekja athygli á þessu. Sumt er athyglinnar virði.

Fer í fyrramálið. Ekkert orðinn spenntur enn samt. Er kannski orðinn svona veraldarvanur... hlýt að verða hress í fyrramálið.

Býst við að bloggið muni liggja niðri næstu vikuna, en hver veit. Keep cumming. Kannski maður droppi inná internet cafe.

Svo er verið að tala um gott partý þegar maður kemur heim. Meira um það síðar.

Skemmtið ykkur vel í rigningunni elskurnar mínar.

Góða ferð.
Hagnaðurinn

þriðjudagur, júlí 08, 2003

Gleymdi einu...

... ég tók mig til og endurskipulagði fataskápinn minn í gær. Fann ég þarf margt forvitnilegt. Meðal annars var þar bolur sem á stendur: 'Ég er ekki rauðhærður, ég er koparbrúnhærður'. Þetta færðu félagar mínir mér þegar ég var 24 ára 10. janúar síðastliðinn. Kannski ég fari að ganga um í þessum bol. Reyndar stendur aftan á honum: 'Hann er víst rauðhærður'. En það sést ekki ef ég er í renndri peysu, já eða jakka.

... Já, það er gaman að skipuleggja sig. Skipulagning er allt sem skiptir máli til að lifa góðu lífi. Ég verð skipulagðari með hverjum deginum. Ég á fullt af möppum frá skólaárunum mínum... allt skipulagt. Mun kannski aldrei nota þetta, en hver veit? Skora ég hér með á fólk að skipuleggja sig. Gott er til dæmis að byrja á ísskápnum; hann er auðveldur.

Fataskápurinn er aðeins meira mál; ég flokka til dæmis boli eftir því hvort þeir séu með kraga og einnig eftir lit. Sérstök list er að skipuleggja skólamöppur og er það aðeins fyrir lengra komna. Einnig getur bókhald vafist fyrir mörgum en hver heldur svo sem bókhald, hmmmmm..??? Ekki gerðu Enron það!!! Og hvað þá Arthur Andersen.

Ætla ekki að hafa þetta lengra.

Farið nú og ráðist á ísskápinn.

Góðar stundir.

Hagnaðurinn
Var heima í dag... veikur...

... ætla að reyna að harka af mér á morgun. Ótrúlegt hvernig maður verður alltíeinu veikur. Um daginn var ég bleikur.

... annars er lítið um að vera. Reyndar fótboltaleikur á morgun: Þróttur-Fram á heimavelli Framara. Ætla maður drulli sér ekki á það þrátt fyrir óendanleg leiðindi hjá Frömurum í sumar.

... skorað er á fólk að koma með orð sem rímar við 'tungl'. Það þarf að vera orð sem er til. Gangi ykkur vel. Bannað að hafa samband við Bólu-Hjálmar... hann er á túr.

... ekki er svo hægt að segja að það séu bjartir tímar framundan í sumar eftir Spánarferð. Ræddi við dósent einn uppí HÍ um daginn. Þarf ég víst að rifja upp einhverja stærðfræði og tölfræði og þjóðhagfræði áður en skólinn byrjar 1. sept. Sem sagt nóg að gera um helgar og á kvöldin annað en að vera þunnur og segja gunnur.

Svona er þetta bara.
Kúkum í hádeginu.

Hagnaðurinn

mánudagur, júlí 07, 2003

OX... farðu svo að halda kjafti !!!
Héðan og þaðan...

Kobe Bryant
Kobe kóngur er víst kominn í smá vandræði. Svo sem ekki alvarlegt held ég. Einhver krakkhóra er búin að kæra hann fyrir kynferðislegt áreiti. Vill örugglega bara peningana hans. Þetta reddast.

Fram - Valur
Múha hvað þetta var leiðinlegt í gær. Bæði liðin voru lélegri aðilinn. Þó líklega annað öllu verra. En það var gaman að sjá þegar Ingvar Óla var skotinn af færi. Var þessi leyniskytta með hljóðdeyfi?

Laugardagurinn
Fór á eitthvað skrall eftir að hafa verið í fertugsammæli hjá systur Hörpu. Fórum við Harpa ásamt 3 Ameríkönum í bæinn. Svo sem ósköp næs. Þeir blæddu á okkur hægri vinstri. En mikið rosalega getur maður orðið rulluf. Ég held hreinlega að maður sé stundum með neikvæða greindarvísitölu þegar maður fær sér í glas.

Golfíþróttin
Brá mér í golf í Grindavík á sunnudaginn.... heavy þunnur ... Unnur. Þokkalegur völlur alveg. Veðrið var reyndar ekki gott. Alltaf sama helvítis rokið útá landi. En ég var að spila vel í fyrsta sinn í langan tíma. Það er gleðilegt.

Spánn
Mikið er gott að vera að fara að flýja þessa rigningu. Spánn bara á fimmtudag í viku. Það er ákaflega hressandi og við verðum að muna að hressleikinn er mjög mikilvægur í nútímasamfélagi. Án hressleikans væri enginn hressleiki (Speki dagsins var í boði negatívrar greindarvísitölu).

Ljósabekkir
Fór í ljós áðan. Það er heitt. Ér sko að undirbúa mig fyrir sólina sem er framundan. Hagnaðurinn er soldið klár. Mikið er gott að vera ekki rauðhærður núna... því þeir ku brenna svo í sólinni. Aumingja Daði og félagar!!!

Bloggið lifir and so does the Hagnaður

Hressar stundir.

Hagnaðurinn

laugardagur, júlí 05, 2003

Ég heiti ekki Stebbi, en ég er plebbi...

Lífið er ekki fullkomið, það sannaðist í daq. Í dag fór ég og skoðaði Gullfoss og Geysi, fékk mér pulsu í Úthlíð, tjekkaði svo aðeins á Þingvöllum og brunaði svo í bæinn. Lífið er yndislegt. G+G er alveg eins og síðast og ekki hafa Þingvellir breyst mikið. Þá var pulsan í Úthlíða afar vond... alltof lítið sinnep.

En hvað lærði ég af ferðinni?
1) Það eru ca. 120 km frá heimili mínu að Geysi.
2) Frá Geysi eru 10 km. í Gullfoss.
3) Túristum finnst þessir staðir stórkostlegir.
4) Hestar líta við þegar flautað er á þá.
5) Vegurinn frá Laugavatni til Þingvalla er afar slæmur, bugðóttur og ójafn. Blindhæðir margar.
6) Sá golfvöll við Laugavatn. Var ekki fjarskafagur.
7) Bílar verða skítugir við að keyra útá landi.
8) Kindur eru heimskar.
9) Það kemur úði frá Gullfossi.
10) Ekki láta einhvern gabba mig í svona á næsta ári.


En hvað lærði ég af að læra eitthvað af ferðinni? Jú, ég lærði það að það má læra af því að ferðast um Ísland.

Ísland. Sækjum það heim.

Hagnaðurinn

föstudagur, júlí 04, 2003

Plön breytast víst...

Jájájá.... ekkert verður úr tjaldútilegu um helgina. Veit ekki alveg hvort það er gott eða vont. Líklega er það bara alveg þokkalegt.

... Ástæðan er sú að systir Hörpu verður fertug á morgun. Það er alveg slatti af árum. Ef hún hefði verið uppi fyrir nokkrum öldum ætti hún að vera fallin frá vegna aldurs. En ekki í dag... í dag verða konur 80-ogeitthvað ára að meðaltali. Það er slatti meðaltal. Óska ég henni hér með til hamingju, þó ekki eigi hún ammæli fyrr en á morgun.

... Ætla samt að reyna að bregða mér austur fyrir fjall á morgun. Hvaða fjall er þetta annars í 'austur fyrir fjall'? Ekki er þetta Hellisheiðin, er það? Það er nebblega heiði en ekki fjall. Hvar eru annars mörkin á milli? Margar spurningar hér, og líklega er Ox sá eini sem gerir tilraun til að svara því aðrir lesendur þessarar síðu eru vitleysingar. Eða hvað?

Veit ekki alveg hvað ég ætla að gera fyrir austan fjallið. Vonandi spila ég bara golf og drekk bjór. Aðeins ef við lifðum í fullkomnum heimi. Líklegra er að ég skoði Gullfoss og Geysi, fái mér pulsu í sveitasjoppu og dáist að náttúru landsins. Enda svo þreyttur í borg óttans með gyllinæð og brjóstsviða.

Shit hvað ég er hress.......múhahahahaha

Hagnaðurinn

The man who went up a hill and came down a mountain.
Af Lakers...

Það væri ekki leiðinlegt ef þessi díll færi í gegn. Þá förum við kannski að vinna Nærbuxnaliðið frá NY með helmings... eða núlli bara!!!

Hagnaðurinn

Alltaf í stuði með tuði

fimmtudagur, júlí 03, 2003

Af plönum helgarinnar...

Helst er það að frétta af plönum helgarinnar að þau eru afar takmörkuð. En eitt er víst... landsbyggðin verður sótt heim. Suðurland? Vesturland? Erfitt að segja. Líklegast mun veðurspáin ráða miklu um áfangastað.

En eitt er víst... Golfkylfurnar verða með í för ... já, og líklega tjald og matur.

En hvað er fólk svona að heyra? Hvert liggur straumurinn. Ég er búinn að vera að taka púlsinn á unga fólkinu og það virðist vera sem svo að alls staðar sé lokað fyrir drykkjufólk. Skiptir mig fjölskyldumanninn svo sem litlu máli. Ox, hvað segir þú? Þú ert nú manna duglegastur að commenta hér.

Múha.

Hagnaðurinn

miðvikudagur, júlí 02, 2003

Af Daða Guðmundssyni...

Já, Hnakkinn er hress og flottur. Talaði við hann í dag og hann er bara orðinn mjög sáttur við nýja lúkkið.... reyndar svo sáttur að hann mun líklega komast í Séð og Heyrt, það skemmtilega blað, í næstu viku. Hvernig lýst fólki á það?

Svo er kallinn orðinn svo sáttur að hann er farinn að segja að Hanni í Írafár og Beckham séu bara hallærislegir og ekki nógu töff. Það er uppi á sumum tippið.... jú, og toppurinn víst líka.

Hvað er annars gott í músík í dag? Hvað er besta singalong lag sem þið vitið um? Núna er 'Tiny Dancer' með Elton John úr Almost Famous ansi heitt. Vitiði um eitthvað betra?

Mikið blogg í kvöld. Skuldaði.
Ávallt Hagnaður.

Hagnaðurinn
Af íþróttum...

Fór í golf um helgina ásamt Gráa Viðbjóðinum. Spilað var í Vogum í Vatnsleysu. Veðurfréttamenn landsins höfðu spáð sólskini. Jibbí. En nei, það rigndi allan tímann. Helvítis djöfulsins andskotans helvítis... með Skúla-röddu. Þeir skilja sem skilja.

Anyway, þokkalegur völlur þannig séð, en helvítis kríurnar man. Ég þoli ekki kríur. Mun aldrei spila þarna aftur. Sorry. Kríurnar eða ég? Út með haglarann. Gátum ekki einu sinni spilað síðustu holuna vegna árása. Þetta er ekki boðlegt í skemmtilegustu íþrótt í heimi. Eru kríur í þythokkí?

Þetta voru fréttir af íþróttum.

Góðar stundir.

Hagnaðurinn
Af málefnum...

Ýmislegt í gangi. Fór meðal annars í pool í gær í lágmúlanum. Þokkalegur staður... kom samt heim angandi af sígarettum. Óþolandi andskoti. Spilaði með Gráu Eldingunni og President. Hressir strákar. Tók þá í smá kennslustund. President var ekki ánægður og kallaði mig bara rauðhærðan... já, svona er þetta þegar menn eru komnir í þrot með argument.

Hringdi líka á tjaldsvæðið á Þjórsárdal í dag. Átti að leika pabba stelpna í hópnum mínum ... er ég virkilega orðinn svona gamall? Þar var mér sagt að tjaldsvæðið yrði aðeins opið fyrir fjölskyldufólk um helgina. Ég spurði á móti: 'Þarf að vera krakki til að það sé fjölskylda?' Maðurinn með járnröddina gat ekki svarað því. Hver er skilgreiningin á fjölskylda?

Þetta voru fréttir af málefnum.

Góðar stundir.

Hagnaðurinn
Af knattspyrnu...

Fór á Fram-Haukar í bikarnum í gær. Það var ekki góð skemmtun. Þvílík endemis leiðindi. Og lélegheit. Andri Fannar var reyndar á bekknum og þegar svo er þá er bitleysið fram á við ekkert. Bara eins og að reyna að skera símaskrá með lykli... það gengur bara ekki. Ég var að pæla í því á tímabili að fara í "Hver er maðurinn?" með sessunautum mínum. Geri það samt ekki.

Valur svo á sunnudag. Á maður að nenna að mæta? Veit það ekki. Jú, Jói Hreiðars er svo sætur. Svo er alltaf gaman þegar dómarar beita Hagnaðarreglunni. Gott að hafa reglu skírða í koparbrúnt höfuðið á sér.

Stundir.

Hagnaðurinn...