fimmtudagur, júlí 24, 2003

Dagur 7: Miðvikudagur

Fyrr í ferðinni, á degi þrjú eða fjögur, fengum við stöðumælasekt. Hún hljóðaði uppá tæpar 30 evrur. Ég talaði við fólkið í móttökunni um hvað ég ætti að gera. ‘Don´t pay it’, sagði yfirmaðurinn mér. Klikkhaus hugsaði ég. Ráðlagði mig því við fararstjóra Sumarferða sem heitir Einvarður. Hann sagði mér að borga þetta í næsta banka.

Því byrjuðum við daginn að fara í næsta banka. Hann hét ‘Banco Popular’. Skemmtilegt nafn finnst mér. Spurning um að stofna Vinsældabanka á Íslandi. Einhverra hluta vegna var ekki hægt að borga í þessum banka svo við gerðum upp okkar mál í C.A.M.; einhverjum öðrum banka (eins og öllum sé ekki skítsama).

Hvað sem því líður, þá var vatnsleikjagarðaferð í dag. Jibbí. Gaman gaman. Garðurinn sem sækja átti heim heitir svo mikið sem ‘Aqualandia’. Ákaflega lýsandi nafn. Garðurinn er staddur við Levante ströndina. Kostar 17 evrur inn. Svo þarf reyndar að punga út alls konar kostnaði þegar inn er komið. Eitt af því er geymsluhólf . Við fengum okkur eitt slíkt í þetta skiptið. Við Harpa fórum nefnilega einu sinni í Wet ´N Wild í Orlando og þar var stolið fullt af drasli frá okkur; m.a. nokkrum filmum með myndum úr Disneyland og Universal Studios.

Garðurinn var bara nokkuð skemmtilegur. Líklega var þetta skemmtilegasti svona garður sem ég hef farið í. Reyndar ekki mikil samkeppni. Tækin voru hefðbundin. Það var töluvert um svona þar sem maður rennur sér niður eitthvað á slöngu. Lítill hraði er í slíkum tækjum og spennan því ekki mikil. Eitt hér ‘Blackhole’ og var það bara fínt. Einnig voru fín tæki þar sem brattinn var töluverður og hraðinn sæmilegur.

Eitt var það tæki sem ég fór ekki í. Má segja að ég hafi ekki þorað. Ég tek því eins og karlmenni. Það kallast eitthvað og er eiginlega bara 90 gráður niður á dúndrandi hraða. Jón Ingi fór í það og sagði að það væri geggjað. Ég fylgdist bara með sposkur á svip. Langaði mikið en lagði ekki í það. Samt sé ég ekkert eftir því að hafa farið. Ég er jú á lífi í dag.

Við vorum þarna til klukkan svona 16:00. Slöppuðum bara af seinni hlutann í svona öldugangs-sundlaug. Það er ákaflega notarlegt að slappa af þar á slöngu. Langaði bara að sofna.Aqualandia: Mæli með því.

Dagskrá kvöldsins var hefðbundin. Kaupa það sem átti eftir að kaupa, framkalla filmur og éta. Prófaði núna rifin á ‘Rock and Ribs’. Þau ollu mér ekki vonbrigðum.

Fer þessari ferðasögu þá að ljúka. Flogið heim daginn eftir eldsnemma um morguninn og komið til Reykjavíkur um hádegi.

Í heildina frábær ferð. Það var mikið gert og mikið gaman. Þakka ég fyrir lesturinn.

Góðar stundir.

Hagnaðurinn