fimmtudagur, september 26, 2002

Vírus hefur ráðist á Hagnaðinn...

Já, ég er orðinn eitthvað veikur nú, hér á fimmtudegi. Það er ákaflega óhressandi, sérstaklega þar sem það eru 2 dagar í bikarúrslitaleik. Ég treysti á mína innri stríðsmenn að ráðast á vírusinn og eyða honum. Þá ætti ég að hressast.

Hagnaðurinn

þriðjudagur, september 24, 2002

Og hann reis á hinum sautjánda degi...

... Mínir kæru lesendur nær og fjær! Lítið hefur verið um blogg hér að undanförnu og mun ég hér reyna að bæta fyrir það og flytja tíðindi af mér og mínum.

Fyrst lítillega af atvinnumálum. Þannig er að enn starfa ég á velli allra landsmanna, Laugardalsvelli. Ég hef fengið orð í eyra fyrir það og háðsglósur. Menn segja að maður með háskólapróf í viðskiptafræði eigi að vera að gera eitthvað allt annað. Það er alveg hárrétt og lítið við því að segja.... því segi ég sem minnst. En góðir hlutir gerast víst hægt. Svo má eiginlega líka segja að þetta er betur borgað heldur en atvinnuleysisbætur, eða segðu, bara ekki neitt. Staðan var bara orðin þannig að ég var ekki búinn að fá launatjekka í rúmlega ár, og það var bara eiginlega orðið of mikið. Þannig að þegar öllu er á botninn hvolft þá er ég bara nokkuð sáttur að hafa eitthvað að gera. En hvað er ég að gera? Þetta er í rauninni ekki ósvipað og að horfa á málningu þorna.... ég horfi á gras vaxa. Já, þetta fær maður fyrir þriggja ára háskólanám !!!

... En Hagnaðurinn er alltaf með eitthvað í spilunum og reynir að hafa allar klær úti. Ég fór í viðtal á mánudaginn fyrir starf skattrannsóknarmanns hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins. Það gæti verið nokkuð spennandi djobb. Eitthvað á annað hundrað manns sóttu um, en við komumst held ég 5 í viðtal; þannig að það er nokkuð hressandi að vita. Ég tel að það séu um 20% líkur á að ég fái starfið.... ef ég fæ það ekki, þá bara spenni ég klærnar. Ég er líka búinn að vera að sækja um víða annars staðar, en málið er bara að það eru svo margir sem eru að berjast um þessar fáu stöður sem eru í boði... þannig að þetta er erfið barátta, en ekki ómöguleg... ekkert er Hagnaðinum ómögulegt!!!

Hvað annað er nýtt? Jú, við Framarar héngum uppi enn eitt árið. Það er bara hressandi. Svo erum við í bikarúrslitum á laugardaginn. Við munum víst chilla á Hótel Örk nóttina áður. Fram er nefnilega svo ríkt félag að það getur leyft sér hvað sem það vill. Gott ef við mætum ekki í þyrlu á leikinn!

Svo fögnuðum við Harpa 3 ½ árs afmæli sambands okkar á mánudaginn. Ég gaf henni bambussprota í tilefni dagsins. Það á að vera voða flott í dag á klakanum. Hún hló bara að mér. En þetta er eitthvað svaka hamingju-happa bambus, já og hann endist betur en rósir. Ég gaf Hörpu eins sinni kaktus og lifir hann enn góðu lífi.

Ég vill helst ekki nefna veðrið. Því geri ég það ekki.

Gert er ráð fyrir að við Harpa flytum í kjallarann hjá henni í kringum 20. október. Það er tæpur mánuður í það. Við ætlum að mála og eitthvað blablabla. Já, og svo verður stellið að fá sinn stað. Ef þú ert strákur og skilur ekki neitt um stell, þá ráðlegg ég þér að halda þig frá þeim málum.

Gott í bili
Hagnaðurinn

News and Olds...

This is the special English section of my lovely diary. I’ve been planning to tell ya’ll about what’s happening in my life, but I’m not too sure if there is anyone who actually reads this… so if you are reading this now and would like me to write some more, then please send me an email to haukurhauks@hotmail.com.

Anyway, here is the latest in my life.
I recently started working at the national sports stadium, where my club team Fram plays. It’s a shitty job, but it is a job… and I get money for showing up. I basically do nothing. I watch the grass grow and keep the place clean. Sounds like fun, eh!!! The demand for business majors is not very high. There are like 150 people that apply for every job that is advertised. I’ve made it to a few interviews, but that’s all…. I went to an interview last Monday for a job as an IRS investigator. That would be a great title. There were just five of us who made in to the interview (over a hundred applied). And if my stats don’t fail me, I think there is a 20% chance that I will get the job, and no standard deviation.

This is the first time that I’m at home this time of the year, and it kind of sucks. The weather is shitty, and it’s getting colder and darker every single day. I just wish I was somewhere else. Florida would be good!!!

I’m still with Harpa. We celebrated our 3 ½ year anniversary last Monday. We are still living at home, but we plan to move to her house about a month from today. We can live in her basement for free… not too bad for someone who has a stinking job.

Soccer is going fine. We made it to the cup final, and the game will be played on Saturday. Tommy, if we win you can maybe get some bonuses, you played against Keflavik under 23, K.R., and Keflavik, didn’t you? I read on the internet that Coastal soccer team is doing great. Must be the excellent coaching staff...!!!

I think that’s all for now.
Hauks

laugardagur, september 14, 2002

Var að sækja um nokkur störf sem eru auglýst hjá Mannafli.

Viðskiptafræðingur óskast einhvers staðar. Ég er viðskiptafræðingur og mig vantar vinnu!!!

Ríkisendurskoðun vantar líka starfsmann. Af hverju ekki Hagnaðinn?

Reikningagerð og umsjón hljómar kannski ekkert voðalega spennandi en það er betra en að vinna niðrá Laugardalsvelli!!!

Var líka að skoða sunnudags-Moggann og þar eru nokkrar stöður sem ég geri ráð fyrir að sækja um. Meira um það á morgun eða hinn.

Hagnaðurinn kveður að sinni.

Það hlaut bara að koma að update-i.

Já, ýmislegt hefur gerst í lífi Hagnaðarins á undanförnum dögum. Lítum á það helsta. Á þriðjudaginn var leikur um kvöldið. Það var einhver svaka undirbúningur, eins og um landsleik var að ræða... þó aðeins hafi verið undanúrslitaleikur í bikarkeppninni. Í hádeginu var farið á Ask á Suðurlandsbraut. Það var ágætt. Svo var farið í einhver heimskulegan leik og að því loknu chillað á Grand Hótel fram að leik sem hófst klukkan 19:30... og þá að leiknum:

Við vorum sem sagt að spila við Eyjamenn. Þeir geta ekki neitt nema tudda á náunganum. Samt komust þeir í eitt-núll á móti okkur. Í seinni hálfleik náðum við að setja tvö mörk á þá og vinna. Eitthvað voru menn að segja mér að mikið hafi verið gert úr innkomu minni í leikinn... ég var sko varamaður!!! Ég veit eiginlega bara ekkert hvað verið er að tala um. Það er ekki eins og Maradona hafi mætt á svæðið. Ég klobbaði engan, skoraði ekki, og lagði ekki upp mark. (tókuði eftir því að klobbin kom fyrst... það er mikilvægt). Mér fannst þetta í rauninni eins og hver annar leikur hjá mér. Svo var ég valinn maður leiksins í DV... þrátt fyrir að hafa spilað einhvern hálftíma. Hagnaðurinn er alveg gáttaður. Allavega, þá erum við komnir í úrslit og sá leikur verður síðar.

Svo kom ég heim eftir leikinn og var bara kominn með vinnu!!! Já, vinnu skrifaði ég... ef vinnu ætti að kalla. Ég er sem sagt kominn með vinnu niðrá Laugardalsvelli við að gera eiginlega ekki neitt. Ég er búinn að vinna þrjá daga, og það voru víst erfiðu dagarnir. Þeir voru það eiginlega ekki. Ég held ég geti haft þessa vinnu í einhvern mánuð ef ég vill. Vonandi verð ég kominn með eitthvað annað fyrir það. Til dæmis...

... starf sem skattrannsóknarmaður sem ég sótti um í vikunni. Það er enginn smá titill. IRS Investigator.... hvernig hljómar það eiginlega. Umsóknarfresturinn rann út í gær. Vonandi fæ ég allavega að mæta í viðtal og heilla þetta lið uppúr skónum. Já, og by the way, starfið sem ég sótti um hjá Dóminós... fæ ekki einu sinni viðtal... en mér var þakkaður sýndur áhugi. Ég ætla að snúa mínum viðskiptum annað héðan í frá.


Hagnaðurinn

mánudagur, september 09, 2002

Umferðarmenning landsmanna hefur verið mér hugleikin...

... að undanförnu og ævintýri mín halda áfram. Núna áðan var ég að keyra heim að æfingu og það kemur Benz og svínar svona líka fyrir mig (ekkert stefnuljós). Skipti ég um akgrein og renni mér upp að hliða hans grimmur á svip. Kemur þá í ljós að maðurinn er í símanum... og já, er að borða ís !!! Þetta var enginn annar en Herbert Guðmundsson... helvítis hálviti. Hann fær titilinn Asni Vikunnar. Spurning um að fara að vekja Hryðkó til lífsins... hef ég heyrt að þar séu menn sem svífast einskis.

Hagnaðurinn hlífir engum...

sunnudagur, september 08, 2002

Vikuviðtalið

Þetta er viðtal sem birtist í tímaritinu Vikan. Spurningarnar hafa margoft birst, en svörin ekki. Gjörið svo vel: Hagnaðurinn í Viku-viðtali.

Hvað ætlar þú að gera í vetur?
Ég á ekki von á að neitt stórkostlegt breytist í lífi mínu. Ég mun halda áfram að borða Kókópuffs á morgnana, svo verð ég vonandi kominn með vinnu þar sem ég mun vinna. Svo væri ekkert leiðinlegt að sötra bjór í nýju íbúðinni í góðum fíling um helgar. Ég geri ráð fyrir að fara að sofa uppúr miðnætti að staðaldri. Kannski ætla ég að æfa fótbolta, svo kemur vel til greina að stofna hljómsveit.

Hvað gerir þú í frístundum?
Ég geri bara svona allskonar. Eins og er þá æfi ég fótbolta og sæki um vinnur. Hvorugt gengur vel... þess vegna kemur til greina að snúa sér að öðru. Eyði oftast kvöldinu með kærustunni. Ræðum við heimsins málefni, já og slúður. Stundum tökum við myndbandsspólu og horfum á. Svo eyði ég talsverðum tíma fyrir framan skjái, þ.e. tölvuskjá og sjónvarpsskjá... Skjáir gefa lífinu lit.

Hver er uppáhaldsbókin þín?
Ég hef ekkert á móti bókum en les þær sjaldan mér til skemmtunar... það tekur bara svo langan tíma. Helst les ég skólabækur og tímarit, þá helst Lifandi Vísindi, Stuff, Maxim, Slam, FHM, og fleiri. Las samt nýlega “Hámarksárangur” eftir Brian Tracy, sem og “Ríki Pabbi, Fátæki Pabbi” eftir Robert Kiyosaki. Báðar bækurnar voru mjög góðar.

Hver er uppáhaldskvikmyndin þín?
Segjum bara “The Usual Suspects”. Hún var helvíti góð. Margar myndir koma til greina og þessi bara kom uppí hugann. Hún var hreint afbragð.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?
Grillaður humar með hvítlaukssósu.

Hvert er uppáhaldskaffihúsið þitt?
Í fyrsta lagi þá drekk ég ekki kaffi, hef aldrei gert, en mun líklega byrja fljótlega. Fer sjaldan á kaffihús til að spjalla eða hitta fólk bara til að hitta fólk. Mér er mjög illa við fólk.

Hvert er uppáhaldssjónvarpsefnið þitt?
Gaman þykir mér að horfa á NBA körfuknattleik, og þá sérstaklega L.A. Lakers. Einnig er gaman að horfa á góða fótboltakappa sýna listir sínar. Annars er svo sem ekkert í sjónvarpinu “sem ég get bara ekki misst af”. Þetta er hvort sem er allt endursýnt fyrr eða síðar. Sérstaklega ef það er á Skjá Einum.

Hvar kaupir þú helst föt?
Ég hef keypt talsvert uppá síðkastið í Banananana Republic og Gap... skemmtileg tilviljun að Gap á einmitt Bananananana. Svo versla ég bara einhvers staðar þar sem góð (flott) föt eru á viðráðanlegu verði.

Hvernig tónlist hlustar þú á?
Núna er ég að hlusta á “Amnesiac” með Radiohead. Skemmtileg plata, sérstaklega þegar það er haft í huga að síðustu 3 lög disksins eru með Sveittum Gangavörðum. Sigurrós eru einnig mikið spilaðir og bara allur fjandinn. Samt ekki FM tónlist. Ég hef mikla andúð á slikri músík.

Hvernig myndir þú lýsa góðu laugardagskvöldi?
Ekki eins og kvöldinu í kvöld, það er ljóst. Það þyrfti bara að troða einhverju hressandi í grímuna á sér, vera í góðum félagsskap, fá sér nokkra, og syngja svo karaoke.

Hvað fer mest í taugarnar á þér?
Óstundvísi, smjatt, hægir bílstjórar, drasl, atvinnuleysi, illa stillt umferðarljós og fleira.

Sefur þú í náttfötum?
Viðar fékk einu sinni raflost.

Hvað er það skemmtilegasta sem þú hefur gert?
Allskonar ferðalög eru jafnan hressandi. Tónleikar með músíkböndum geta verið skemmtilegir. Hryðjuverkastarfssemi getur lífgað uppá andann (ætli einhver ritskoði þetta?). Svo var náttúrulega stórkostlegt þegar ég og Harpa keyptum loksins stellið (e. The stell).

Hvert er mesta prakkarastrik sem þú hefur gert?
Er eitthvað sem toppar morðhótanir?

Hvað er það neyðarlegasta sem þú hefur gert?
Að horfa á sjálfan mig syngja karaoke. Ég er þá virkilega svona lélegur!!!

Ef þú mættir fara í ókeypis ferðalag, hvert myndir þú fara og með hverjum?
Ég myndi fara til Barcelona með Hörpu. Ég var búinn að lofa að bjóða henni fyrir langa löngu, en hef bara ekki efni á því eins og er.

Stundar þú líkamsrækt að staðaldri?
Já, á hverjum degi. Ég bý í húsi sem er á tveimur hæðum og geng ég stigann daglega.

Ef þú mættir breyra einhverjum afmörkuðum þætti í þjóðfélaginu, hverju myndir þú vilja breyta?
Lögleiða öll eiturlyf. Það leysir allann vanda.

Hvaða einstaklinga lítur þú mest upp til?
Flestra bara. Ég er ekki hávaxinn maður.

Trúir þú á eitthvað?
Margur er knár þótt hann sé smár.

Átt þú þér eitthvert lífsmottó?
Já, ég ætla einhvern tímann að vinna í lottó.

Hagnaðurinn

laugardagur, september 07, 2002

Innri togstreita gerir vart við sig...

... málið er það að ég hef verið að lesa bloggið hjá fólki... bara einhverjum hálvitum útí bæ eiginlega, og það er eins og allir viti allt betur og eru að kvarta og vilja breyta þjóðfélaginu blablabla... svona kúka ádeila í gangi!!! Ég var búinn að ákveða að falla ekki niðrá þetta plan, og bara svona vera rólegur á því og flytja fréttir af sjálfum mér... einhvers konar dagbók... en hingað og ekki lengra... nú er mælirinn fullur!!! Ha, einhver Eminem hlaupinn í bölvaðan Hagnaðinn? Skoðum málið...

... Nú er það tíðrætt í þjóðfélaginu að fólk keyri bíla. Sumir keyra bara venjulega, sumir keyra hratt, sumir keyra fullir, aðrir án ökuréttinda, svo eru líka sumir sem keyra á. En það er eiginlega aldrei talað um þá sem keyra of hægt. Það er þetta fólk sem fer í taugarnar á mér. Ég er búinn að lenda í tveimur atvikum í dag þar sem ég næstum brjálaðist. Ég!.. þessi rólyndis maður.

... Fyrst var ég að keyra uppí Hvalfjörð... var að fara að tína ber (blá). Ég var sem sagt á þjóðvegi, og þar er 90 km. hámarkshraði. Þar var einhver fyrir framan mig, á jeppa, og hann keyrði á 60! Svona menn eru hættulegir og þá á að úrbeina. Kom svo í ljós loksins þegar ég fékk tækifæri til að taka fram úr honum að þetta var fyrrverandi handboltaþjálfari Hörpu. Fari hann í rass og rófu.
... Seinna atvikið var fyrir svona 20 mínútum. Það var hérna í Jaðarselinu, rétt hjá þar sem ég bý. Þar er hámarkshraðinn 50 km./klst. Konan fyrir framan mig var að keyra á 10, ég endurtek 10. Ég tók fram úr henni þegar ég fékk tækifæri til... konufjandinn var að tala í símann!

... Svo eru það nýbúarnir. Þrisvar hef ég lent í því að vera fyrir aftan bíl sem skipti um akgrein án þess að gefa stefnuljós. Í öllum tilvikum var um að ræða konur af asískum ættum. Ekki það að ég hafi eitthvað á móti Asíufólki, þvert á móti, heldur er ég andvígur fólki sem kann ekki að keyra.

Takk fyrir lesturinn. Vonandi höfðuð þið bæði gagn og gaman af honum.
Elskum náungann.
Hagnaðurinn

ATH. Þær skoðanir sem hér koma fram eru mínar og tengjast á engan hátt ríkisstjórn Íslands.

föstudagur, september 06, 2002

Oh, ég er svo jákvæður...

... þrátt fyrir að ekki sé mikill hagnaður núna. Ég er sem sagt búinn að fara í tvö viðtöl í dag. Annað var hjá Mannafli niðrá Smiðjuvegi. Þar var ég spurður spjörunum úr... gott að ég kom vel klæddur. Konan sem talaði við mig vildi meina að atvinnuástandið væri ekki gott fyrir fólk með mína menntun. Helvítis bull. Hver hefur ekki not fyrir Hagnaðinn. Þetta er bara tómt andskotans bull. Turn Frustration Into Fascination... einmitt það sem ég er að gera núna.

... Svo var ég áðan í viðtali hjá G.J. Fjármálaráðgjöf. Málið var eiginlega samt bara að þeir eru ekki að leita að starfsmanni eins og er. Þeir vildu meira svona spjalla bara... og við spjölluðum heilmikið. Sé svo sem ekki eftir heimsókninni en atvinna var engin... og því hagnaður í lágmarki. Þá verður bara að halda áfram og leita á önnur mið því öllum vitum við að þeir fiska sem róa.

Hagnaðurinn er að komast í helgarfíling.

ps. Ég trúi ekki að ég hafi misst af Fram Open út af þessum viðtölum... reyndar gat ég ekki séð þetta fyrir fram, en svona er nú lífið... ekki eintómur dans á rósum
Ég er svo mikill þjófur....

... ég er búinn að vera alveg á fullu hér undanfarna daga að stela tónlist af Internetinu með hinu umdeilda forriti Kazaa... shit hvað ég er busy mar !!! ... Já, eitthvað verður maður að gera þegar engin er vinnan. Kíkjum á hvað ég er búinn að vera að ná í.

1) Coldplay – A Rush of Blood to the Head. Já, þetta er nýja platan frá strákunum í Coldplay. Þetta eru hressir strákar frá eyjum Bretlands sem svíkja engan... þ.e. strákarnir svíkja engann, eyjan er annað mál. Ég er ekki mikið búinn að hlusta á þennan disk, fyrir utan nokkur lög, en þau lofa virkilega góðu. Gamla platan, Parachutes, var náttúrulega meistaraverk, og fá lög er skemmtilegra að syngja í karaoke en lagið “Yellow” eða Gulur, og það verður spennandi að sjá hvort hér liggi slíkur gullmoli.

2) Dave Matthews Band – Busted Stuff. Mér hefur þótt það skrítið að Dave Matthews hafi aldrei orðið vinsæll hér á landi. Ég kynntist músík hans fyrst þegar ég fór til Bandaríkjanna og ég held bara að ég eigi alla diskana hans núna. Allavega, þá er þetta nýji diskurinn hans. Þessi diskur lofar mjög góðu, nema hvað að nokkur af lögunum sem ég downloadaði voru eitthvað skrítin. Vil ég kenna þeim sem ég downloadaði frá um það mál. Helvítis fólk, getur það ekki skírt lögin réttum nöfnum... Ansans.

3) Eminem – The Eminem Show. Mér finnst hann helvíti sniðugur litli hvíti kallinn. Já, kannski er það rétt sem fólk segir... Besti golfarinn er svartur og besti rapparinn er hvítur !!! Hvernig ætli það sé eiginlega að vera svona reiður. Nú hélt ég að félagi minn, Baldur Knútsson, væri stundum reiður, en það er bara kellingavæl í samanburði við það sem fram kemur á þessum diski. Já, Eminem, dreptu bara mömmu þína, hún á það eflaust skilið. Shit.

4) Eva Cassidy – Songbird. Þetta er hugljúfur diskur mjög. Ég sá að einhver mælti með honum einhvers staðar sem mikilli snilld sem hlusta má á við hin ýmsu tækifæri. Og þar sem lífið er eitt stórt tækifæri, þá geri ég ráð fyrir að það megi hlusta á diskinn í gegnum lífið. Þetta eru sem sagt svona ljúfar ballöður, og að ég held allt lög eftir aðra. Ég veit ekki hvort þessi kona sé svört, hvít, gul, eða fjólublá. Það sem ég veit er að hún syngur eins og engill. Eru englar til?

5) John Mayer – Room for Squares. Já, ég held bara að þetta hafi verið diskurinn sem kom hvað mest á óvart. Ég heyrði fyrsta lagið af þessum disk, “No Such Things”, fyrr í sumar og fannst það bara hressandi. Þess vegna ákvað ég bara að ná í restina af disknum. Þessi gæi er örugglega Ameríkani, eða bara Kani, og hann syngur eiginlega alveg eins og Dave, fyrrnefndur, Matthews, en samt ekki alveg eins.

6) Massive Attack – Mezzanine. Þetta er nú gamall og góður diskur. Ég náði í þennan disk fyrir mína ástkæru Hörpu, henni finnst nefnilega lagið “Teardrop” svo gott; ekki hressandi, bara gott... svona þegar haustlægðirnar byrja að koma, og það fer að hvessa og rigna frá hlið... þá er gott að leggjast uppí rúm og hlusta á þetta. Meira hef ég eiginlega ekki að segja, nema hvað að Massive Attack eru að fara að gefa út nýjan disk, eða diska, man ekki alveg... þetta stóð í Mogganum.

7) Norah Jones – Come Away With Me. Ég er ekki stoltur að segja frá því en ég heyrði (las) fyrst um þennan disk í hinu virta vikuriti “Vikan”. Hljómaði sem ágætis haust-diskur, og náði því í hann. Svo var ég bara að lesa Moggann í góðum fíling, og þar sé ég að þessi diskur er bara kominn númer 2 á lista yfir mest seldu plöturnar. Þetta er svona létt djass eitthvað, ekki ósvipað Eva Cassidy... á maður að skrifa Evu Cassidy? Ég veit það ekki. Norah er aðeins 22 ára gömul, ári yngri en ég.

8) Oasis – Heathen Chemistry. Drengirnir í Oasis standa alltaf fyrir sínu. Finnst samt eins og ég þurfi að kaupa þennan disk, því ég á alla hina. Svona skrifaður diskur passar ekki alveg inní diska-safnið. Þetta er ágætis diskur, þarf samt að hlusta á hann aðeins meira... hef ekki gert það því annar diskur hefur eiginlega bara átt spilarann... og það er ...

9) The Flaming Lips – Yoshimi Battles the Pink Robots. Sko, ég las um þennan disk í nýjasta tölublaði Undirtóna. Þar fékk hann 5 stjörnur. Það þýðir að hann sé skyldueign. Ok, hugsaði ég, það fá ekki margir 5 stjörnur, svo þetta hlýtur að vera góður skítur. Og það kom á daginn. Þetta er algert eðal stöff, eiginlega ekki alveg hægt að útskýra hvernig músík þetta er, en hlustun er sögu ríkari. Undirtónar vildu meina að þetta væri svona OK Computer diskur ... ég veit það ekki. En ég segi að ef það er einn af þessum níu diskum sem þið ættuð að kaupa eða stela, þá er það vafalaust þessi.

Haukur Hagnaður
You gotta love Sigurros

okay, it's time for more details on ( ), the new sigur rós album. the album is divided in half: the first half is the "quiet" half, composed of 4 sweet and fragile songs, while the second half is the "heavy" half, composed of 4 bleaker, more melancholic and intense songs. after the first 4 songs, there is a brief period of silence to signify this division. as has been mentioned before, the songs on the album have no official names but being the analytical nerds that we are, we're of course aware of the band's working titles for these songs, so we can construct a tracklisting for you. you can download live clips of the songs on the downloads page so you can see which song is which and to get a general idea of how the album is constructed. the duration of the album's tracks varies from 6:33 to 12:54 mins. so without further ado, here is the official tracklisting of ( ):
1. vaka / 2. fyrsta / 3. samskeyti / 4. njósnavélin / (break) / 5. álafoss / 6. e-bow / 7. the death song / 8. the pop song


... If someone´s interested in buying this CD, then I can create it.... live version only.

Haukur

miðvikudagur, september 04, 2002

Það er einhver leti að hellast yfir mig hér...

... og ég er ekki nógu duglegur að uppfæra. Hef ég fengið orð í eyra frá meira en einum aðila... vilja sumir meina að það sé ómissandi þáttur að lesa það sem ég hef að segja morgun hvern.

Ég er vanur að skrifa lítillega um bíómyndir, og horfði ég á eina slíka í gær. Það var myndim The Score með Robert D. Niro, Edward Norton og fleirum feitum í aðalhlutverkum. Þetta var bara ágætis mynd... svona létt og skemmtileg afþreying bara... allavega skömminni skárri en viðbjóðurinn sem nefnist Crossroads, þar sem Spritney Bears fer ekki á kostum.

Jæja, hef ég líka sótt um tvær stöður í dag. Önnur var auglýst inná heimasíðu Abendi. Þetta er tímabundin staða í 3-4 vikur við einhvers konar gagnainnslátt. Allt í lagi að sækja um svo sem, þó vissulega hljómi þetta ekki spennandi. Ætla bara að fá að vita hvað er í boði.

Seinna starfið hljómar svona:
Stórt framleiðslufyrirtæki óskar eftir að ráða fólk í sölu og markaðssetningu. Starfssvið er uppbygging og viðhald viðskiptasambanda, vörukynningar, bein sala og tilboðs- og samningagerð. Viðkomandi þarf að vera jákvæður, hafa reynslu af sölustörfum, hafa góða samskiptahæfileika, vera þjónustulipur og geta unnið sjálfstætt. Viðkomandi verður að hafa góða ensku kunnáttu, önnur tungumál væri gott að hafa en eru ekki skilyrði.

Svo er ég að fara í tvö viðtöl seinna í vikunni, nánar tiltekið á morgun og hinn og mun ég láta vita hvernig þau fara.

Hagnaðurinn kveður í bili.

ps. Ég á von á að rita annan pistil hér seinna í dag. Ég er kominn á ról aftur.

mánudagur, september 02, 2002

Hæ hæ

Var að sækja um þjónustustarf sem er auglýst inná heimasíðu Liðsauka.

Sótti einnig um afgreiðslustarf í tískuvöruversluninni Zara. Ákaflega spennandi, ha ? Bara að vera með, sko.

Þetta er það nýjasta. Spennandi, humm.