fimmtudagur, júlí 24, 2003

Dagur 2: Föstudagur

Þennan dag var vaknað klukkan 8:00 stundvíslega. Skutlað sér niður lyftuna frá níundu hæð og beint í morgunmat. Hann var ágætur. Mér finnst gott að fá mér bakaðar baunir, beikon og egg í morgunmat og skola því niður með svalandi ávaxtasafa. Einnig var fleira á boðsstólum en ég fékk mér eiginlega alltaf það sama.

Grillbekkirnir við sundlaugarbakkann voru orðnir vel heitir eftir morgunmat og því kjöraðstæður til að verða brúnn, og það fljótt. En vá, það var alltof heitt til að liggja flatur eins og skata. Skötur eru heldur enginn herramannsmatur. Því var skellt sér í skó og gengið niður að markaði einum þarna skammt frá.

Mér finnst gaman á mörkuðum. Sérstaklega er eftirminnilegur einn markaður sem ég fór á í Amsterdam haustið sem Fram komst uppí Úrvalsdeild síðast. Minnir að það hafi verið 1996; fyrsta árið mitt í meistaraflokki. Já, maður er jaxl. Eða bara brotin augntönn. Þessi markaður var hálfgert prump; og þá er ég ekki að tala um alvöru prump.... meira svona puufff. Bara samansafn af sólgleraugum, úrum og öðru drasli. Ég held þó að ég hafi keypt mér alvöru Ray Ban gleraugu á 6 evrur. Múha ha ha ha.

Að loknu markaðsrölti var farið í stórmarkað þarna skammt frá og verslunarmiðstöð. Stórmarkaðurinn heitir Carrefour og veit ég ekkert hvað það þýðir. Þetta var svona Wal-Mart/Mikligarður Spánverja. Fullt af allskonar drasli sem enginn vill en kaupir samt. Við héldum okkur þó aðallega í drykkjarvörudeildinni. Þar voru versluð heil ósköp. Það var bara svo ódýrt... réðum ekkert við okkur.

Verslunarmiðstöðin var bara ágæt. Þó ansi mikið að kvenfataverslunum (ég er að reyna að vanda mál mitt, takiði ekki eftir því?). Það var eitthvað verslað þarna. Þó hef ég séð Hörpu í meiri ham áður. Það voru allsstaðar útssölur í gangi og var það gott. Þarna var Zara (eða Þaða eins og Spánverjinn segir) og eitthvað fleira. Eyðum ekki fleiri orðum í það.

Hádegisverður á einhverjum stað sem heitir McDonald´s. Fínn staður. Mæli með honum, sérstaklega að fá sér ‘Maxi’ því þá færðu geisladisk með.

Að loknu 2 tíma sólbaði var ákveðið að gefa kvöld-hlaðborðinu annan séns. Reyndust það vera mistök. Var þetta bara sama sullið og kvöldið áður og mæli ég ekki með þessu. Þetta var síðasta hádegis/kvöldmáltíðin sem við fengum okkur þarna. Væntingar... gamlárskvöld!

Gamli bærinn er eins og nafnið gefur til kynna elsti hluti Benidorm. Benidorm er eiginlega eins og hjarta í laginu, með tveimur ströndum (Poniente og Levante) og gamli bærinn er í miðjunni og skilur strendurnar að. Um kvöldið tókum við leigubíl niðrí gamla bæ. Skoðuðum okkur þar um og tókum svo röltið niðrá Levante því það er partý-ströndin. Tjekkuðum við á nokkrum stöðum; KU og KM virtust vera heitir og einnig Penelope. Vorum við samt ekki alveg í stuði að tjútta við leiðinlegt Júrópopp. Sátum bara og drukkum og létum vera að hrista á okkur rassgatið. Það er fínt.

Eitt er skemmtilegt við barstemninguna þarna. Fólk er nefnilega veitt inná staðina. ‘Viljiði frítt staup eða hanastél?’ spyr vel-útlítandi fólk mann útá götu með bjagaðri ensku. ‘Sjör’ segi ég. Held við höfum verið veidd inná einhverja fjóra staði þetta kvöldið og var ölvun mikil.

... Já, ölvunin var töluverð. Jón Ingi og Klara lentu líka illa í því. Það var gæi útá götu með þrjár hálfar kartöflur og eina rauða kúlu og ruglaði henni svona fram og aftur og ef maður gat giskað rétt á hvar hún endaði þá vann maður tífalt til baka það sem maður lagði undir. (Leggðu undir 5 evrur og þú getur unnið 50). Hljómar vel! Jón lagði undir 50 evrur og ætlaði að vinna 500. Hann fór tómhentur heim. ‘Hann er höstler... na na na na na’. Þið þekkið lagið.

Kvöldið var svo endað aðeins inní landi þar sem Englendingar réðu ríkjum. Prófuðum stað sem heitir Lennon. Hann var skelfilegur. Kvöldið fjaraði svo út með KFC og almennri vitleysu. Mér var boðið ‘hashish’ tvisvar.

Þetta var dagur númer tvö. Hvað gerist á morgun?