þriðjudagur, janúar 29, 2008

Rambo IV

Í kvöld fór ég á sérstaka Landsbanka-forsýningu á Rambo IV sem ég og vinnufélagi minn plögguðum. Myndin verður svo frumsýnd 8. febrúar skilst mér.

Stallone leikur, leikstýrir og skrifar. Einnig leika Ryan Chappelle og Rita úr Dexter stór hlutverk, auk þess sem byssur og hnífar eru mikilvægir þátttakendur. Trailers.



Rambo er náttúrulega Rambo; hann á stað í hjarta hvers karlmanns. Hann er tilfinningamaður og hugsuður, en fyrst og fremst er hann drápsvél og þessi mynd fókuserar á þann hæfileika. Þeir sem vilja huga að persónu Rambo geta horft á myndir 1-3. Hér er mikilvægt að staldra við og líta á tölfræði.

Það er athyglisvert að í fyrstu myndinni drepur Rambo bara einn mann en síðan þá hefur verið góður stígandi og í þessari mynd drepur hann 83. Ég tel reyndar að sá sem taldi þetta hafi farið á klósettið í lokaatriði myndarinnar. Hann hefur kannski ekki gert sér grein fyrir því hversu stutt myndin er og ákveðið að skjótast fyrir lokauppgjörið.

Það var stemning í salnum og fagnað við hvert tækifæri, t.d. tilkomumiklar aftökur. Stundum er gaman í stemningsbíói. Enda voru allir sem ég talaði við himinlifandi (fyrir utan einn). Hann taldi reyndar að Rambo væri hugsanlega að fara hringinn.

Live for nothing, or die for something.

When you're pushed, killing's as easy as breathing.


Einkunn: Fullt hús.

Efnisorð:

sunnudagur, janúar 27, 2008

Bíóblogg...

Ég er búinn að sjá 4 myndir núna á síðustu viku. Myndir úr öllum áttum. Þær eru:

a) Íslenski Draumurinn (2000). Klassa mynd. Eldist vel, þrátt fyrir að vera ekki svo gömul. Líklega var þessi mynd upphafið að góðærinu, sem hugsanlega sér fyrir endann á að sinni. Menn hafa séð að víst Tóti gat næstum meikað það með Opal sígarettur frá Búlgaríu, að þá væri allt hægt. Þórhalldur Sverrisson var frábær.

b) The Kite Runner (2007). Frábær saga um lífshlaup ungs drengs í Afganistan. Mér fannst bókin afbragð og myndin fín. Reyndar er þetta kannski soldil kellingamynd, en ég horfði. Gott stöff og fínt mótvægi við formúlumyndir Hollywood.

c) No Country for Old Men (2007). Þessi mynd leiðir óskarsverðlaunatilnefningar í ár + 8,7 á imdb. Það segir allt sem segja þarf. Instant meistaraverk.

d) The Man from Earth (2007). Hérna hoppaði ég í djúpu laugina, en drukknaði ekki. Þessi mynd var áhugaverð. Hún fjallar um mann sem segir vinum sínum frá því að hann hafi verið á lífi í 14.000 ár; hann eldist ekkert. Skemmtilegar pælingar í stuttri og hnitmiðaðri mynd. Hún er tekin í einu herbergi, nokkrar manneskjur og spjall. Meðmæli.

Efnisorð:

laugardagur, janúar 26, 2008

FH 2 - Strumparnir 2

Nú er hálfleikur í leik Liverpool og Havant & Waterlooville á Anfield. Staðan er 2-2. Hreint út sagt viðbjóðsleg spilamennska hjá Liverpool.

Við erum að tala um utandeildarlið, og ekki einu sinni neitt sérstakt utandeildarlið. Þetta er svipað og Strumparnir, með fulla virðingu fyrir þeim (ég spilaði einu sinni með þeim), myndu mæti í Kaplakrika og halda jöfnu í hálfleik, og jafnvel eiga skilið að vera yfir.

Hvernig sem þessi leikur endar, þá er þetta niðurlæging fyrir alla 11 aulana sem voru inná vellinum

Efnisorð:

fimmtudagur, janúar 24, 2008

Operation Deserter Storm PT.2

miðvikudagur, janúar 23, 2008

Bobby Fisher

Ætli það sé möguleiki að Bobby Fisher sé ekkert dauður?

Þetta er allt hið grunsamlegasta mál. Konan hans var ekki stödd á landinu. Furðulegt. Svo er afvegaleitt fjölmiðlafólk með fáránlegri hugmynd um að grafa hann á Þingvöllum, og á meðan er hann grafinn einhvers staðar að viðstaddri innstu mafíu og án þess að kóngur né prestur sé látinn vita.

Það er samsærislykt af þessu máli.
Bobby lifir og er núna á leið í skipi til Bandaríkjanna.
Hvað hann gerir þar veit enginn, en gyðingar í New York mættu fara að vara sig.

Efnisorð:

Operations Deserter Storm...

Part 1.
Þetta er must see.
Ísland - stríðið í Írak - Stefán Pálsson - Magnús Ver Magnússon og fleira.

Efnisorð:

mánudagur, janúar 21, 2008

Símaskráin...

"Einn karlmaður er skráður húsmóðir hjá okkur..."

Ætli það sé maður Sóleyjar Tómasdóttur? Og hún er þá húsbóndinn á heimilinu.

Ætli megi vera fleira en eitt? Ég gæti t.d. verið fyrrverandi blaðburðadrengur, verkamaður, rauðhærður og knattspyrnumaður. Ég ætla að láta reyna á þetta að ári liðnu.

Efnisorð: , ,

NFL...

Patriots vinna Chargers. Slæmt.
Giant vinna Packers. Verra.

Thank Goodness for the Bruins.

Efnisorð:

föstudagur, janúar 18, 2008

Í frjálsu falli...

Britney Spears hefur náð nýjum botni.

Maður veltir fyrir sér: Þegar botninum er náð, er þá hægt að byrja að grafa? Ætli það sé fylgni á milli falls Britney og Úrvalsvísitölunnar?

Efnisorð: ,

miðvikudagur, janúar 16, 2008

Ritgerðir...

Harpa skilar BS ritgerðinni sinni á morgun. Lýkur þá loksins ritgerðarvinnu sem hefur verið meira og minna í gangi síðasta árið. Fyrst ég í nokkra mánuði og svo hún (og Sigga). Ekki gleyma Siggu.

Það er hundleiðinlegt að skrifa ritgerðir - sérstaklega langar lokaritgerðir. Einhverra hluta vegna dreg ég í efa að nokkur maður nennir að lesa svona ritgerðir, nema leiðbeinandinn sem verður að gefa einkunn. Þá kann ég betur við ameríska kerfið, en þar eru ekki lokaritgerðir að því ég best veit. Meira svona praktískt lokaverkefni sem tengist mikilvægu námskeiði. Phúúú á lokaritgerðir.

Það verður fagnað á föstudaginn. Út að borða, nokkrir drykkir og næturpössun. Ég hlakka mikið til að sjá Sigríði í glasi því það hef ég aldrei séð að mig minnir, þrátt fyrir að hafa þekkt hana í bráðum 10 ár.

Til hamingju stelpur.

Efnisorð: ,

Pabbadagur...

Pabbadagar fyrrverandi leikmanna Fram eru reglulegir viðburðir. Á laugardaginn var þriðji dagurinn í seríunni. Í félagsskapnum eru ég, Addi Jóns, Andri Fannar, Kiddi Yo og Baldur Knúts + börn og makar að sjálfsögðu. Það er alltaf að fjölga í hópnum og líklegir inn á næstu misserum eru menn eins og Daði, Viðar, Bjarni Þór, Freyr Karls og fleiri.

Eftir nokkuð gott stuð með börnunum yfir daginn þá var hist um kvöldið hérna heima hjá mér í Norðlingaholtinu. Við fengum mat frá Austurlandahraðlestinni (fínn matur en samt ekkert súper) og fengum okkur svo einn eða tvo.

Svo var ákveðið að spila. Fyrir valinu varð nýja Party & Co. Strákar á móti stelpum!

Fínt spil sem reynir á leikhæfileika, hugsanaflutning, hummm (ég átti að humma lagið Heyr mína bæn með Ellý Vilhjálms, og strákarnir áttu að giska hvaða lag þetta var = vonlaust) og fleira. Hjá stelpunum reyndi hins vegar mest á svindlhæfileika.

Svindl A: Nefnd voru 3 orð og áttu tvær stelpur að skrifa SAMA orðið á blað sem tengdist þessum orðum. Önnur skrifaði orðið interrail en hin orðið eurotrail. Interrail stelpan les upp sitt orð, en þá kemur stelpan við hliðiná eurotrail stelpunni og segir "þú ert með það sama, þú ert líka með interrail." Þær voru staðnar að verki.

Svindl B: Spilið er í járnum og hvoru liðinu vantar einn "kall". Stelpa kastar tening og fær slæmt kast, en hagræðir þá teningnum til að lenda á réttu spjaldi. Staðin að verki. Hefst þá mikil reikistefna sem endar með því að við veljum spjald fyrir stelpurnar - að okkar mati slæmt spjald. Aldeilis ekki. Spjaldið sem við veljum gerir þeim kleift að taka einn af okkar köllum og þær vinna því spilið. Hér hefði verið eðlilegt að segja "nei nei, við ætlum ekki að vinna á svona svindli" en svo var ekki. Þær fögnuðu sigri en hafa verið með hiksta síðan.

Svona gerir fólk ekki!

Efnisorð: ,

Helgar...

Ég fór í afar skemmtilegt 35 ára afmæli á föstudaginn var. Já, ég er kominn í þennan aldur - að eiga 35 ára vini. Kona Gamla, Gamla, átti afmæli. Ég var í góðum gír framan af afmælinu, sötrandi mojito og bjór og étandi sushi og súkkulaðihúðuð jarðaber. Svona á lífið að vera. En svo brá ég mér á efri hæðina og þá fyrst byrjaði partíið.

Þar var PS3 tölva og leikurinn Rock Band. Gítar, trommur, söngur. Það vildi enginn vera á bassanum. Eftir smá byrjunarerfiðleika (first timer) þá fór allt á fullt af við kláruðum hvert lagið á fætur öðru. Foo Fighters, Rolling Stones, skipti ekki máli. Djöfull var þetta gaman og það sem meira er, þá var ég jafnvígur og trommurnar og gítarinn. Míkrófóninn snerti ég hins vegar ekki. Það gerði glæponinn hins vegar og hefði betur sleppt því.

Þetta kostar einhverja $160 í US and A, en mér skilst að þetta fáist ekki á Íslandi. En ef þú átt svona og ert til í tónleika, hafðu þá samband.

Efnisorð:

þriðjudagur, janúar 15, 2008

Staðan...

Efnisorð:

fimmtudagur, janúar 10, 2008

Þrítugur...

10. janúar 2009 ber uppá laugardag. Þá verð ég þrítugur.

Við skulum samt ekki fara of langt framúr okkur.
Í dag, eða nákvæmlega núna klukkan 12:30, er ég 29 ára gamall.

Af því tilefni hækka hlutabréfamarkaðir eftir blóðbað síðustu daga.

Efnisorð:

mánudagur, janúar 07, 2008

Á tánum...

Ólafur Þórisson er á tánum.

Hann spyr réttu spurninganna.

Efnisorð:

laugardagur, janúar 05, 2008

Þúsund Bjartar Sólir

Ég var að ljúka við að lesa aðra skáldsögu Khaled Hosseini, Þúsund Bjartar Sólir. Áður hafði hann skrifað Flugdrekahlauparann, en hana las ég síðasta sumar og gaf henni 99 stjörnur af 100 mögulegum.

Auglýsingarnar fyrir jólin sögðu að þessi bók væri betri. Gat það verið?

Bækurnar eru líkar að ýmsu leiti. Þær gerast báðar í Afganistan og spanna frá ca 1970-2000+. Flugdrekahlauparinn fjallar um stráka/menn en Þúsund Bjartar er aðallega um konur í Afganistan. Og ég get sagt ykkur það að konur í Afganistan hafa það ekki gott, ef marka má þessa skáldsögu, þó ég hafi lifað mig það mikið inní bókina að ég hafði á tilfinningunni að þetta væri sönn saga. En svo er víst ekki.

Þetta er yfirgengilega sorgleg bók. Svo sorgleg að ég spurði sjálfan mig reglulega hvers vegna í ósköpunum ég væri eiginlega að lesa þetta. Það er einfalt svar við því. Stundum þarf maður að sjá e-ð vont til að meta það sem er gott. Maður þarf að sjá og lesa um mannvonsku til að átta sig á því hvað maður hefur það gott (þrátt fyrir 6 djúpar lægðir í desember). Maður þarf að horfa á vondar bíómyndir til að læra að meta þær góðu.

Ég mæli með þessari bók. Hún er ekki betri en Flugdrekahlauparinn, heldur er hún jafngóð. Bíómynd væntanleg fyrir þá sem nenna ekki að lesa.

99/100*

Efnisorð:

fimmtudagur, janúar 03, 2008

Nýtt ár, ný tækifæri

... og ég er hættur að eyða tíma mínum í að horfa á Liverpool spila knattspyrnu.

Efnisorð: