mánudagur, maí 18, 2009

Hjólablogg, góð blogg

Á þessum árstíma hafa golfbloggin-bestu bloggin verið að detta inn. En það er leiðinlegt að segja frá því að ég hef ekki enn spilað golfhring á þessu ári. Ástæðurnar eru aðallega tvær: í fyrsta lagi tilheyri ég ekki lengur golfklúbbi Landsbankans né nokkrum öðrum golfklúbbi, og í öðru lagi hefur orðið fjölgun á heimilinu. En það er allt í góðu - ég mun spila golf í sumar, en verð selectívari á veður og þess háttar. Það verða fáir en góðir hringir í sumar.

Þess í stað hef ég einbeitt mér að hjólreiðum, eins og komið hefur fram á síðunni. Um helgina tók ég tvær ca. 30 km ferðir, en í dag bætti ég um betur og fór 46 km, sem er season high.


  • Ferðin í dag átti ekki að vera neitt sérlega löng. Ég var þreyttur eftir 60 km um helgina og var auk þess nett rjóður í framan, sem mun reyndar breytast í fallega brúnku mjög fljótlega.
  • Ég var í Iniesta treyjunni minni til heiðurs Barcelona, en titillinn var tryggður um helgina, og var einnig með asnalegt buff. Hvar fæ ég svart buff undir 2000 kr? Þá ákvað ég að hjóla án Bauer-sólgleraugna, til að fá jafnari brúnku í andlitið.
  • Fyrsta stopp var í Erninum í Skeifunni. Hraðamælirinn minn var bilaður (réði greinilega ekki við hraðann) og því var kippt í lag, nýr settur á og brunað af stað. Klassa strákar í Erninum.
  • Næsta stopp var svo í Íhlutum Skipholti. Straumbreytirinn sem ég keypti þar var farinn að suða. Ekkert mál - fékk nýjan eins og skot.
  • Svo var tekið Laugarann, stoppað á Austurvelli fyrir prótein-bar og orkudrykk, og svo haldið áfram. Power komið í kroppinn og því ákveðið að taka smá keppnis-hring.
  • Leiðin lá útá Nes, Ægissíðan, Nauthólsvík, gegnum Kópavoginn, Arnarnes, og bara alla leið að bryggjuhverfinu í Hafnarfirði.
  • Svo var aftur stoppað í Góu. Keypti smá lakkrís. Gott að eiga þegar það koma gestir.
  • Síðan var bara meðfram Reykjanesbrautinni, upp að Vífilsstaðavatni (flottur staður) og upp "brekku dauðans", en þar mætti ég einmitt sjálfum Jack Bauer, a.k.a. Biggington. Hann var á bíl.
  • Svo var haldið heim á leið í gegnum hringtorgavitleysuna.
  • Meðalhraðinn var rétt um 25 km/klst, sem er fínt tempó fyrir mig.
Lesendur, er einhver klár í að joina í hring fljótlega? Bara e-ð létt.

Efnisorð:

mánudagur, maí 11, 2009

Draumur...

Ég lagði mig aðeins í dag, og dreymdi draum. Þegar ég vaknaði mundi ég hann alveg ótrúlega vel - sem er öllu algengara með svona stutta blunda (i).

Nema hvað.
Draumurinn endaði þannig að ég er að hjóla vestur eftir Miklubraut, beygi inn til vinstri í Lönguhlíðina og tek svo hægri beygju inn Mávahlíðina (önnur beygja í raun, en þriðja beygja skv draumi). Ég er á leiðinni að ná í tengdamóður mína. Hún ætlar að koma að hjóla með mér niðrí Laugardal. Ég stoppa við annað húsið til hægri, fer niðrí kjallara og þar er hún að bíða eftir mér. Ég vakna.

Þetta var merkilega skýr draumur, svo ég spyr Hörpu seinni partinn hvort foreldrar hennar hafi einhvern tímann búið í Hlíðunum. Jú, það passaði, svo ég hringi í tengdamóður mína. Jú, þau bjuggu í Mávahlíð 4 (annað húsið) í kjallara.

Hefði einhver spurt mig í gær hvar Mávahlíð væri hefði ég ekki getað svarað því. Ég vissi ekki að þau hefðu búið í Mávahlíð, hvað þá númer 4 og í kjallara. Skömmu eftir að ég vaknaði hefði ég getað lýst íbúðinni nokkuð nákvæmlega að innan.

Hvernig gat þetta gerst?

Efnisorð: , ,

fimmtudagur, maí 07, 2009

Herbalife!

Fyrir um 2 vikum fékk ég email frá fyrrum vinnufélaga í Landsbankanum þar sem hún spurði hvort ég vildi ekki vinna mér inn aukapening þar sem ég réði vinnutímanum og bla bla. Fyrsta sem mér datt í hug var Herbalife, og ég er/var mjög fordómafullur gagnvart svona dóti. Ég hringdi í hana og jú, þetta var Herbalife. Hún bauð mér á kynningu um kvöldið og ég sagðist ætla að sjá til. Ég hugsaði málið, talaði við nokkra aðila og ákvað svo að skella mér, enda hefði ég engu að tapa, nema þá bara þessum klukkutíma. Mér leið soldið eins og ég væri að fara í messu hjá Krossinum, þetta var svo ekki ég.

Kynningin var ágæt.
Það var smakk; te, prótein súkkulaði, sjeikar. Það var kynnt hvernig viðskiptamódelið virkar, ef maður skyldi hafa áhuga á því. Þarna voru svona 10 manns, nokkrir eins og ég, en einnig nokkrir sölumenn og það lið var alveg á því að þetta væri málið. Meðal þeirra var einn strákur jafngamall mér, fyrrum mótherji í fótbolta. Hann náði að sannfæra mig um að prófa að kaupa mér.

Og ég gerði það, eða réttara sagt við Harpa. Við tókum startpakka, sem samanstendur af jarðaberjasjeik, próteini, vítamínum og trefjum. Ég keypti aukalega te og súkkulaði. Núna erum við búin að smjatta á þessu í 2 vikur. Við erum að vísu að gera þetta á mismunandi forsendum. Harpa er að reyna að létta sig og ég er meira að reyna að fá betri næringu og aukna orku. Hvort tveggja er að ganga vel. Þetta er að virka eins og það er sagt að þetta eigi að virka.

Ég á ekki von á öðru en að kaupa mér meira þegar núverandi pakki klárast, en hvort ég ætli útí sölu á þessu er enn ekki ákveðið.

Hvað segja lesendur?
Hefur fólk skoðun á þessu? - ég er allavega búinn að grafa mína fordóma.

Efnisorð:

Námskeið...

Á morgun, fimmtudaginn 7. maí, verður haldinn kynningarfundur á FRÍU sumarnámskeiði í stofnun fyrirtækja.

Fundurinn hefst kl. 17:00 og verður í stofu 235 (2. hæð), Háskólanum í Reykjavík, Ofanleiti 2.

Námskeiðið verður kennt á mánudögum og fimmtudögum frá 16:15 til 20:00. Kennsla hefst 18. maí og spannar námskeiðið 13 vikur.
Námskeiðið stendur þér og hverjum þeim sem hefur áhuga á að skapa sér tækifæri til boða að kostnaðarlausu.

Á fundinum verða meginviðfangsefni námskeiðsins kynnt og spurningum svarað. Einnig verður opið fyrir skráningu á staðnum.

Frekari upplýsingar um námskeiðið og skráning fer fram á stofnun@gmail.com

Framtíðin er í þínum höndum!

Ég ætla að taka þátt - kemst að vísu ekki á þennan fund á morgun - er þetta er skemmtilegt framtak.

Efnisorð: ,