mánudagur, janúar 26, 2009

Innovit...

Núna er ég búinn að vera atvinnulaus í 2 mánuði, en samt er búið að vera nóg að gera meirihlutann af tímanum; ég er búinn að starfa sem þjónn, reka DVD-markað, halda frábær jól og afmæli og tekið til á heimilinu, geymslunni, tölvunni og kollinum --- en núna fer að koma tími þar sem er hætta á að ég detti í leti, aðgerðarleysi og rugl.

Ég er því búinn að vera að skoða möguleika með hugsanleg hlutastörf hér og þar (ég er með mjög opinn huga í þeim efnum) og/eða sækja einhver námskeið.

Það var því hressandi að sjá að Innovit eru að fara að halda seríu námskeiða. Þetta hljómar mjög spennandi og áhugavert, og ég er búinn að skrá mig.

Einnig sótti ég fund hjá Hugmyndaráðuneytinu núna á laugardaginn. Þetta var þriðji fundur félagsins, haldinn í kjallaranum hjá Domo, og um 50 manns mættu. Í þetta skiptið var verið að fjalla um hvernig hugmynd verður einhverju meira (í víðum skilningi) og fleira og fleira. Þarna voru meðal annars framkvæmdastjórar hjá CCP og Gogoyoko. Þetta er sem sagt fólk sem vill hittast og ræða lausnir en ekki eingöngu nöldra og tuða. Meira svona.

Svo kemur bara framhaldið í ljós.

Efnisorð:

sunnudagur, janúar 25, 2009

Pizzasteinn

Ég fékk pizzastein í afmælisgjöf núna á dögunum. Mjög góð gjöf sem á örugglega eftir að koma sér vel.

Ég prófaði steininn núna í vikunni (tvisvar reyndar).
Það er smá trikk að elda á þessu. Fyrst fer nefnilega steinninn inní ofninn og hann er hitaður. Svo þarf að koma pítsunni á heitan steininn, sem er smá vandamál þegar maður á ekki pítsu spaða.

Myndir:
1) Steinninn, glænýr og hreinn, tilbúinn í ofninn.
2) Pítsa með skinku, sveppum og kóríander á helminginn. Takið eftir að það er ekki ostur ofan á pítsunni. Ég setti nefnilega pítsuna á bökunarpappírinn, slatta af hveiti á milli, og svo þegar ég tók steininn út úr ofninn var slide-að pítsunni með hraði ofan á funheitan steininn og svo bætt ostinum ofan á. Þetta var smá vesen en tókst ágætlega.
3) Pítsan komin úr ofninum, ögn ofbökuð. Þetta hefði reyndar verið fínt ef þetta væri ekki á steini, en botninn varð pínulítið of stökkur.
4) Hér sjáum við undir pítsuna - mjög crispy, en aðeins og þykkur botn fyrir minn smekk. Annars bragðgóð pítsa.







Tilraun tvö tókst betur.
Þá gerði ég ostapítsu (mozzarella, camenbert, jalepeno-ostur), hafði botninn aðeins þynnri og breytti um stillingu á ofninum.
Ég mun halda áfram að gera tilraunir þangað til ég er sáttur - í framhaldi verður fólki boðið í mat og smökkun.
Posted by Picasa

Púsl...

Ég fékk 1000 stykkja púsl frá dótturinni í jólagjöf, sem vakti töluverða ánægju mína.

Þetta er svokallað Wasgij púsl, en í þeim púslum veit maður ekki hvað maður er að púsla, heldur getur einungis ráðið í myndina á kassanum sem sýnir bakhlið fólksins að hluta.

Myndir:
1) Púslið að kvöldi aðfangadags.
2) Púsli lokið - við erum stödd á veðreiðum og hestur borðar ávexti úr hatti konu einnar.
3) Púsl og kassi.



Vangaveltur:
a) Er gaman að púsla? Já.
b) Er það tímafrekt? Já.
c) Mæli ég með púsli? Tjah, ekki hvern sem er, og ég myndi ekki fara í meira en 1000 stykki, allavega ekki til að byrja með.
d) Eru trikk? Já, það eru alltaf trikk í öllu.
e) Mun ég blogga aftur um púsl í komandi framtíð? Nei, það er ólíklegt.

Góðar stundir.
Posted by Picasa

fimmtudagur, janúar 22, 2009

Bækur

Ég er búinn að lesa slatta að undanförnu.

1) Ég fékk Síðasta Fyrirlesturinn í jólagjöf. Ég hafði áður horft á síðasta fyrirlesturinn á netinu, og kynnt mér þennan gaur aðeins, séð viðtöl og þætti. Það var því fátt nýtt í bókinni. Ágætis jákvæðnislesning samt. Lífið og dauðinn.

2) Einnig las ég bókina Áður en ég dey. Önnur bók um dauðann, en öðruvísi. Mun sorglegri en samt ágætlega hressandi. Mjög góð bók.

3) Blikkkóngarnir. Þessa fékk ég í afmælisgjöf. Skuggalega beitt og skemmtileg bók um menn sem búa í húsum úr blikki. Meðmæli.

Næst á dagskrá eru svo Stríðsmenn Salamis.

Efnisorð:

miðvikudagur, janúar 21, 2009

Labb

Ég fór í leiðangur í dag - markmiðið var að skoða nýtt hjól til að fjárfesta í.

Ákveðið var að ganga úr Norðlingaholtinu niður í Skeifu - sem er nýjung - og hlusta á ferska músík á leiðinni. Ég var vel búinn. Harpa spáði því að gangan tæki um 90 mínútur, ég var viss um að þetta tæki minni tíma, þó ég vissi ekki hversu langt þetta væri í kílómetrum.

Eins og myndin sýnir (klikkið fyrir stærri útgáfu) þá eru þetta 6,81 km ca. Gangan tók 57 mínútur sem er sæmilegur meðalhraði í hálku. Á ekkert að sanda göngustíga borgarinnar, ha Óskar Bergsson? Á leið minni mætti ég einum gangandi manni, hann var illa til fara og angaði af áfengi og tóbaksreyk. Einnig mætti ég manni á hjóli, en hann var greinilega vanur og hjólaði rösklega í hálkunni.


Á leiðinni var hlustað á tónlistina úr myndinni Slumdog Millionaire. Afbragðs soundtrack þar á ferðinni sem hressir mjög.

Stoppað var í GÁP, Erninum og Markinu. Ekki fannst hjól að þessu sinni, en von er á sendingu með götuhjólum snemma í marsmánuði. Í dag er götuhjóla skortur í landinu.

Úr Markinu í Ármúla lá svo leiðin uppí Kringluna þar sem ég hitti frúnna og við eyddum inneignarnótum hjá fyrirtækjum sem við teljum að gætu farið á hausinn fljótlega.

Fín gönguferð - vægi mikið - veður gott - mínusstig fyrir hálku.

Efnisorð: ,

mánudagur, janúar 19, 2009

Fokkings fokking fokk

Kalt mat:
Liverpool eru búnir að kasta frá sér titilvoninni enn eitt árið eftir ömurlegt jafntefli gegn Everton á heimavelli. Vissulega er liðið með jafn mörg stig og Manu á toppnum, en þeir eiga leik til góða. En það er ekki stóra málið; spilamennskan er bara kjánalega léleg og sóknarleikurinn hugmyndasnauður.

Hauskúpur kvöldins: Skrtel og Keane.

Það er á svona kvöldum að maður þakkar fyrir að halda með Barcelona og Lakers líka. Svo við tölum ekki um Napolí.

Efnisorð:

Hringvegurinn

Mér var að detta í hug að hjóla hringveginn í sumar - hugmynd sem er framkvæmanleg, en auðvitað ekki svo auðveld.


Þetta eru 1339 km.
Ef maður tæki 100 km á dag, þá væru þetta 2 vikur. Mér skilst að Íslandsmetið sé ein vika, en það er náttúrulega bara geðveiki. 100 km á dag er alveg raunhæft ef maður er í fínu formi, en svo eru auðvitað ýmis atriði sem þyrfti að meta.

Hjólar maður með tjald eða tekur maður bændagistingu?
Hversu stór factor er veðrið?
Getur maður skilið konuna eftir heima með 2 börn?
Verð ég kominn með vinnu?

Eitt er þó víst, svona ferð yrði erfið og skemmtileg um leið. Skoðum þetta þegar líður á sumarið.

Efnisorð:

mánudagur, janúar 12, 2009

30

Það voru sálræn tímamót í gær þegar ég varð þrítugur. Tíminn flýgur áfram. Mér finnst eins og ég sé örstutt síðan ég hélt uppá tvítugsafmælið mitt í Fram-heimilinu gamla. Það var hörku partý (Jú-das).

En þetta var góður dagur. Ég bauð fjölskyldunni í mat (Suðræna Selfoss Súpu, uppskrift væntanleg) og fór svo á Sjávarkjallarann um kvöldið. Það er helvíti fínn staður. Örugglega í top-5 á Íslandi myndi ég halda. Frekari hátíðarhöld verða fljótlega.

Ég fékk mikið af hamingjuóskum sem skiptast ca. svona:
Facebook skilaboð (85%).
SMS (10%)
Símtöl (5%).
Ekki það að ég ætli að kvarta eða vera með nöldur, en mér finnst frekar súr þróun. Ég kann allavega ennþá betur að meta símtalið.

Efnisorð:

fimmtudagur, janúar 01, 2009

Slumdog Millionaire...

Í ágúst 2007 las ég bókina Viltu vinna milljarð, og mér fannst hún alveg frábær. En núna er komin bíómynd, Slumdog Millionaire, og hún er betri en bókin, ólíkt t.d. Flugdrekahlauparanum (e. Kite Runner) þar sem bók var mun betri en mynd.

Klárlega besta mynd ársins 2008 - af þeim sem ég hef séð. Þetta er heillandi ástarsaga, saga um von og kærleika, sjálfsbjargarviðleitni og margt fleira.

Einkunn: Fullt hús.

Efnisorð:

Nýtt ár...

Gleðilegt nýtt ár kæru vinir.

Ég er svona 80% viss um að árið 2009 verði býsna gott ár með fullt af spennandi hlutum og óvæntum tækifærum.

Ég verð þrítugur eftir 9 daga, og svo er von á barni númer tvö eftir svona 40-80 daga. Annað er ekki á dagskrá svo vitað sé.

Efnisorð: