fimmtudagur, júlí 31, 2008

... og nokkrar til viðbótar

Markús frændi í Svíþjóð er í heimsókn á landinu. Fyrir helgi var farið að horfa á Brúðubílinn í Árbæjarsafni, og grill á eftir.

Hér eru 4 myndir:
1) Heiða nágrannastelpa, Monsan og Þórey Hildur frænka.
2) Lísa frænka.
3) Lísa frænka grallari.
4) Lísa, Þórey, Monsa og Lína frænka.




Posted by Picasa

Myndablogg...

Ég fæ reglulega kvartanir vegna myndaleysis á síðu konunnar. Hér reyni ég að bæta aðeins úr því.

Hér eru 4 myndir frá því á Apavatni um helgina:
1) Ég og Monsan í pottinum.
2) Ég, Monsan og Dagur Tjörvi í hoppudýnunni.
3) Monsan að skottast.
4) Monsan í prakkaragír.




Posted by Picasa

Fore... - golfblogg, bestu bloggin

Ég fór í golf á þriðjudaginn á Kjöl í Mosfellsbæ. Það gekk bara ágætlega fram á innáhöggið á 9. holunni. Nóg um það.

Á 6. holunni - par 3, 140 metrar - sló ég rétt vinstra megin við green-ið (þar sem maður púttar, Arna). Þegar ég er að undirbúa mig að slá með 60° fleygjárninu mínu yfir glompuna (sandur) heyri ég FORE og á sama tíma flýgur bolti beint yfir mig, á fleygiferð, og ég held að hann hafi verið svona 5 cm frá mér.

Þarna var að verki ungur maður á 5. teig (teigur er það sem maður tekur upphafshögg) en 5. brautin liggur að hluta til meðfram 6. brautinni.

Ábending til allra kylfina: Öskrið hátt og snjallt FORE þegar minnsti möguleiki er á að bolti sé á leiðinni í fólk. Ekki horfa á eftir boltanum og hugsa "ætli hann drífi, er hann á leiðinni í hausinn á honum, sleppur hann ekki".

Hefði þessi bolti farið í hausinn á mér væri ég líklega höfuðkúpubrotinn.

Hliðarsaga: Þar sem við biðum á 4. teignum (20 mín bið) kom maður í hollinu á eftir - hokinn af reynslu - og sagði okkur sögu af manni sem var að pútta á 3. green-inu og fékk bolta í augað þegar maður á 4. teignum sló slæmt högg. Sá sem varð fyrir högginu missti augað og tapaði málinu fyrir dómstólum.

Lærdómur: Golf er hættuleg íþrótt.

Efnisorð:

Hjólað í hita...

Ég var í fríi í gær eftir hádegi, hitabylgju frí.

Og það var hjólað.

Skellti mér fyrst útá nes og til baka. Hafgolan var eilítið köld, en samt fín. Svo ákvað ég að prófa að hjóla Heiðmörkina, frá Seljahverfi að Norðlingaholti. Sjá kort.

Þetta er frekar leiðinleg leið á heildina litið. Fyrst liggur leiðin uppá Rjúpnahæð, meðfram Vífilsstaðavatni, upp hjá Maríuhellum og svo bein leið á malbiki milli Urriðavallar og Heiðmarkar. Eftir það tekur við möl og brekkur. Það er ekkert spes að hjóla á möl í 26 stiga hita.

Heildar vegalengd ca. 60 km.
Orkunotkun, mikil.

Efnisorð:

þriðjudagur, júlí 29, 2008

Clint...

4th Annual Clint Invitational Golfmótið verður haldið þann 6. september næstkomandi.

Boðskort verða send út fljótlega.

Efnisorð:

laugardagur, júlí 26, 2008

Tvennt

1) Randy Pausch er dáinn. Ég bloggaði tvisvar um þennan kappa, hér og hér. Heillandi persóna.

2) Sasha THE MACHINE Vujacic er að gera 3 ára samning við Lakers. Það gleður.

Later

Efnisorð: , ,

föstudagur, júlí 25, 2008

Hitt og þetta...

Tíminn flýgur!

***************

Ég skellti mér á "bestu mynd allra tíma" í vikunni, The Dark Knight. Þetta er djöfulli góð mynd sem nauðsynlegt er að sjá í bíó. Meðmæli. Einkunn: 9,3.

***************

Á morgun liggur leiðin að Apavatni í einhvern monster bústað sem pabbi og mamma eru með á leigu. Búist er við hátt í 30 manns og almennu stuði. Tvær nætur þar.

***************

Í kvöld er svo grillpartý þar sem meðlimir Clint og konur koma saman. Gæti orðið áhugavert. Þetta verður haldið í sumarbústað í Heiðmörk, í göngufjarlægð fyrir mig.

***************

Að vísu var planið alltaf að hjóla í fyrramálið að Apavatni, ca 90 km leið. En mjög stífur mótvindur mun að öllum líkindum stoppa það, því meður.

Efnisorð: , ,

föstudagur, júlí 18, 2008

Þorlákur sigraður, golfblogg-bestu bloggin

Í gærkvöldi fór ég og spilaði golfvöllinn í Þorlákshöfn (erfiðasta golfvöll í heimi) ásamt góðum mönnum; Ólafi Ginobili, Agga Agzilla og Bigga Burger. Leikur hófst skömmu eftir 19 í rjómablíðu og logni en lauk rétt fyrir miðnætti í smá blæstri og það var farið að snögg-kólna.

Leikinn var klassískur golf-leikur. Ég/Biggi vs Óli/Aggi. Einn punktur fyrir besta skor, einn fyrir samanlagt og einn fyrir fugl. Enginn fugl sást á hringnum þrátt fyrir nokkur pútt úr góðum færum.

Ég var að spila vel í gær.
Ég var að vísu að slá frekar illa af teig með 3-trénu, en járnaspilið var nokkuð gott, og það sem öllu máli skiptir, stutta spilið er on fire. Ég var því að scramble fyrir þokkalegu skori.

Tölfræði:
Fyrri 9: 44
Seinni 9: 47
Samtals: 91 högg
* 4 pör
* 11 skollar
* 2 skrambar
* 1 triple (erfiðustu vallarins, sem nota bene er ekki Snákurinn)

Ég var að rifja þetta upp í gær - nafnið Snákurinn - var það ekki e-ð sem ég fann uppá? Ég var nefnilega að heyra að þetta sé orðið þekkt nafn, og líklega eina brautin á landinu sem er skírð eftir dýri.

Efnisorð:

fimmtudagur, júlí 17, 2008

Svínakjöt...

Ég var staddur í Slakka um síðustu helgi. Slakki er agnarsmár dýragarður í Biskupstungum.

Þar eru m.a. svín, eða réttara sagt grísir.

Þegar okkur bar að garði var matmálstími, brauð í skál. En grísirnir voru æstir og brauðið fór á hreyfingu og endaði í skítnum; skít grísanna. Það stoppaði þá ekki. Þeir bara átu það sem kom uppí munninn.

Síðan ég sá þetta hef ég verið að velta fyrir mér að hætta að borða svínakjöt, viðbjóðurinn var slíkur. Ég sé því fram á að hætta að borða hamborgarhrygg, grilla svínakjöt, borða skinku, pylsur og hugsanlega e-ð fleira.

Nema að maður gerist bara grænmetisæta. Þetta er allavega subbulegt áróðursmyndband.

Efnisorð:

sunnudagur, júlí 13, 2008

Úlfur...

Ég var í sumarbústað um helgina með Adda, Ingibjörgu og Franklín. Frábær ferð í alla staði; góður félagsskapur, vel gert við sig í mat og drykk, spilað golf, sprellað með krökkunum og almennt stuð.

Og það var farið í pictonary!


Ég er ömurlegur teiknari, ég viðurkenni það. Þar eru dýr minn veikasti hlekkur. Nánast öll dýr hjá mér verða eins.

Þegar ég fékk verkefnið að teikna Úlf á 30 sek, þá fékk ég smá fiðring í magann. Ég byrjaði á bakinu og gerði svo andlitið og beint í lappirnar, allt í einu pennastriki. Eftir 2 fætur dó ég úr hlátri. Hvaða skepna er þetta eiginlega sem ég er að teikna? En ég kláraði. Svo þegar tíminn var búinn og í ljós kom að þetta var úlfur, þá náttúrulega sprakk allt. Myndir. Haukur 29 ára og allur pakkinn.

Ég er enn hlægjandi.

Kristín María var líklega með besta giskið þegar ég spurði hana í morgun hvaða dýr þetta væri.

Skjaldbaka, sagði hún.


Ps. Þetta er slæmur úlfur, en ég hef teiknað verri hest.
Posted by Picasa

miðvikudagur, júlí 09, 2008

Golfblogg, bestu bloggin, æfingablogg

Þetta er búið að vera lélegt golf-season. Ég er búinn að spila asnalega illa, slá stutt og skakkt, slæsa með öllum trékylfum, og bara almennt í ruglinu.

Því var gert nokkuð sem ég hef ekki gert áður. Síðustu þrjár golfferðir hafa verið stuttar. Básar-Grafarholti!


Núna eftir ca 200 bolta er sveiflan að komast í betra horf. Sjöan er aftur orðin 130+ metra högg, 3-tréð um 200 metrar, til að nefna dæmi. En það sem er merkilegast; ég er farinn að húkka boltann meira en slæsa. Ég golfferli mínum hef ég aldrei húkkað einn einasta bolta, þar til núna.

Ég hef einnig æft stutta spilið mikið (á minn mælikvarða). Svona í kringum green högg. Áður var ég alltaf að skalla boltann eða berja í jörðina. Núna er ég eiginlega alveg hættur því. Þetta telur allt.

Um helgina verður stóra prófraunin. Ný sveifla, nýtt hugarfar, sömu kylfur, sömu föt.

Flúðir - hér kem ég.

Efnisorð:

þriðjudagur, júlí 08, 2008

Myndband...

Helvíti gott fótbolta-myndband.

Guð hjálpi þér, styrki þig og styðji

Ég er ekki trúaður maður, er ekki í þjóðkirkjunni og leiðist trúmál mjög. Það er því alltaf gaman þegar ég hnerra.

"Guð hjálpi þér" segir fólk.
Ég held að í samskiptum fólks teljist kurteisi að segja þetta við mann.

En er það svo?

Er ekki verið að segja mér að ég sé sýktur Svarta Dauða?
Að ég sé sýktur og fólk vilji forðast mig?

Maður spyr sig.

Efnisorð:

sunnudagur, júlí 06, 2008

Reykjavíkurhringurinn...

Reykjavík er stór borg, en ekki stórborg. Einhvern tímann sá ég mynd þar sem búið var að skeita saman korti af Reykjavík og París. Reyndust borgirnar svipað stórar, þrátt fyrir að í París búi milljónir manna. Fáránlegt.

Í dag hjólaði ég Reykjavíkurhringinn, þrátt fyrir að hafa verið dauður í löppunum þegar ég vaknaði í morgun. Ég mýktist eftir því sem leið á daginn og var orðinn skítsæmilegur eftir hádegið.

Hringurinn var alls um 40 km skv borgarvefsjánni.
Alls tók þetta 1 klst og 50 mín. Það gerir tæplega 22 km/klst, sem er ágætt innanbæjar.

Leiðin: Norðlingaholt - Suðurlandsvegur - Vesturlandsvegur - upp að Egilshöll - meðfram Korpu (beygði við 3. grín, erfið par 3), út Grafarvoginn, Bryggjuhverfið, Geirsnef, Sæbraut, Mýrargata, Nesvegur?, Ægissíða, Skerjafjörður, Fossvogur, Stekkjarbakki, Seljahringur, Breiðholtsbraut, Norðlingaholt.

Jómfrúarkaflar:
a) Grafarvogur frá Egilshöll. Skemmtileg leið, öll á hjólreiðastíg. Aðstæður til fyrirmyndar.
b) Skerjafjörður frá Ægissíðu að Nauthólsvík. Frábær stígur; 9,5.

Þetta er hugguleg upphitunarleið fyrir þá sem eru að spá í næsta skref fyrir ofan, s.s. Hvalfjörðinn, Laugarvatn, Nesjavallarhringinn, etc. Sjálfur stefni ég á Laugarvatn eftir rúmar 2 vikur, ef veður leyfir.

Efnisorð: ,

laugardagur, júlí 05, 2008

Hvalfjörðurinn...

Ég og Gústi bróðir hjóluðum Hvalfjörðinn í dag, eins og við höfðum planað. Aðrir sem sýndu áhuga gugnuðu.

Við tókum strætó (rútu) frá Mosó klukkan 08:45 í morgun uppá Akranes (hugmynd fengin frá Dr. Gunna). Þaðan fórum við svo klukkan 09:25. Veðrið var ágætt, 13 stiga hiti ca, skýjað allan tímann og norðvestan andvari. Það var því smá meðvindur inn fjörðinn, en mótvindur til baka.

Nokkrar mælingar, frá miðbæ Akraness:
Göngin: 10 km
Gatnamót þar sem við beygjum inní Hvalfjörðinn: 23 km (mun lengra en ég hélt)
Ferstikla: 36 km
Botnsdalur: 50 km
Laxá í Kjós: 70 km
Göng austan megin (fjörður kláraður): 85 km
Heim að bíl í Mosó: 104 km

104 km voru það, en áður hafði ég mest hjólað tæpa 40 km. Það tók um 4:20 að hjóla þetta, en alls 5 tíma ferð með stoppum, sem voru þrjú. Meðalhraði um 23 km/klst, en lækkaði eftir því sem leið á.

Þetta var vægast sagt geðveikislega erfitt. Í Botnsdal (50 km) var ég orðinn virkilega þreyttur í löppunum. Úthaldið var í góðu lagi, en mig verkjaði í lappirnar og rassinn. Síðan bættust við bak-óþægindi. En það var ekki aftur snúið. Það var aldrei option að gefast upp. Það voru nokkrar viðurstyggilegar brekkur á leiðinni út fjörðinn, og þá sérstaklega ein sem var á milli Hvammsvíkur og Kjósar minnir mig. Þar fór ég niðrí annan gír, en slíkt hefur ekki gerst í áraraðir.

Ánægjan að komast til byggða - heimabæ Sigurrósar - var mikil.

Lærdómur:
* Ég ofmat hjóla-úthald mitt.
* Í minningunni var alltaf talað um Hvalfjörðinn sem langan og ljótan fjörð, en eftir göngin virðist vera talið að þetta sé fallegur fjörður. Ég gat ekki séð það. Það virtist vera huggulegt upp í Botnsdal og í Kjósinni, en flest annað var lítt spennandi.
* Aðstaða til hjólreiða á þjóðvegi 1 á skalanum 1-10 er svona 2. Vegaxlir eru í molum eða ekki til staðar.
* Það er styttra að fara norðanmegin við Akrafjallað en sunnanmegin. Munurinn að Hvalfirðinum er 8 km.
* Fjallahjól með monster-dekkjum eru ekki sniðug í langferðir.
* Og margt fleira....

Myndir:
1) Við gatnamótin inní Hvalfjörð.
2) Ég fyrir ofan hvalstöðina, draugabæ. 43 km komnir.
3) Gústi fær sér að drekka í pásu 2, eftir um 65 km.
4) Ég í Kjósinni. Ber mig vel, þrátt fyrir allt.





Efnisorð: ,

fimmtudagur, júlí 03, 2008

Leikskólalög...

Monsa litla er byrjuð á leikskóla. Þar eru tvö lög mjög mikilvæg:

Allur matur
Á að fara
Upp í munn
Og ofan í maga
Heyrið það, heyrið svo
Svo ekki gauli garnirnar






Frekar slöpp gæði á fyrra myndbandinu, en seinna er ágætt. Er enn að læra á símann minn...
Hér er svo eitt personal favorite; höfuð herðar og beint í hókí póki (hey)!

miðvikudagur, júlí 02, 2008

33,7 km

Í tilefni af fyrirhugaðri Hvalfjarðar-hjólaferð (sem allir alvöru menn mæta í) var farið í upphitunartúr í kvöld.

Það rigndi um kvöldmatarleytið en stytti fljótlega upp. Það viðraði því vel til hjólreiða, nánast logn, ágætlega hlýtt, þurrt loft og tært.

Eins og sést á myndinni var þetta fjölbreyttur og skemmtilegur túr.

Leiðin: Norðlingaholt - Elliðaárdalur, Miklabraut, Snorrabraut, Laugarvegur, Túngata, Hringbraut, Neshringurinn, Ægissíða, Suðurgata, Sæbraut, Reykjanesbraut, Elliðaárdalur, Norðlingaholt.

Alls 33,7 km, eða ca jafn langt og til Hveragerðis héðan úr Norðlingaholtinu (lengra fyrir miðbæjarrottur, já og bara flesta aðra). En bara tæplega hálfur Hvalfjörðurinn.

Erfitt já.
Gaman já.

Þarnæst á dagskrá: Hjóla Reykjavíkur-hringinn. Fljótt á litið virðist hann var svona 40 km+ (Grafarvogurinn er stór).

Efnisorð: ,

Reykjavík - Akranes - Reykjavík

Veðurspáin fyrir helgina er stórkostleg: heitt, sól og lítill vindur.

Mig langar til að taka strætó (Leið 27) uppá Akranes - Dr. Gunni style - og hjóla í bæinn. Þetta er slatti langt, sjálfsagt um 80 km með öllu, en gæti verið gaman.

Stóra spurningin er því þessi: Hverjir þora, hverjir eru klárir í þetta?
Laugardagsmorgunn klukkan 8/9.


Efnisorð: