fimmtudagur, febrúar 26, 2009

Vinna...

1. febrúar varð ég formlega atvinnulaus.
1. mars mun ég formlega byrja í fæðingarorlofi - það mun vara í 6 mánuði, að öðru óbreyttu.

Lögum samkvæmt má ég ekki vinna á meðan ég er í fæðingarorlofi - þó ég vilji það - og það er smá problem, því það eru örugglega ágætis líkur á að maður geti fengið e-ð að gera dag og dag, helgi og helgi á þessu tímabili. Ég er með höfuðið í bleyti.

En á morgun hef ég tekið að mér agnarsmátt sérverkefni og á laugardaginn mun ég vinna í leynilegu sérverkefni.

Annars er býsna rólegt í atvinnumálum þessa dagana, eins og allir vita. Það er þó auglýst eitt og eitt starf sem hljóma ágætlega en það eru náttúrulega 2000 manns að sækja um hvert starf. Reyndar var mér boðið starf um daginn, en það hentaði ekki alveg fyrir mig. En auðvitað vonar maður það besta, þrátt fyrir offramboð á neikvæðum fréttum.

Efnisorð:

Hjólreiðar...

Ég gerði við hjólið mitt í gær. Það var búið að vera sprungið annað dekkið á því í marga mánuði. Það tók 10 mínútur að laga það.

Í dag var svo hjólað. Prófa gripinn. Það var skítakuldi af austri. Fínt niðrí bæ, erfiðara heim.

Ég fór hefðbundna leið: Elliðaárdalur - Suðurlandsbraut - Laugarvegur - Austurvöllur - Hringbraut - Miklarbraut - Elliðaárdalur. Þetta eru rétt tæpir 25 km.


Tónlist:
No Line on the Horizon með U2. Fyrsta hlustun lofar góðu. Einnig hlustaði ég á disk með lögunum úr fyrstu 6 þáttunum af seríu 2 með Flight of the Conchords. Frábært. Djöfull eru þeir fyndnir og skemmtilegir.
Sönnun A. Nettur Magnolia fílingur hérna.
Sönnun B.
Sönnun C.
Frekari sannanir síðar.

Á ferð minni stoppaði ég í Icefin í Nóatúni. Þar skoðaði ég Micro Dry nærföt. Málið er í skoðun. Gæti verið gott að eiga svona í kuldanum.

Hugsanlega var þetta fyrsti áfanginn í undirbúningi á hringferð í kringum landið. Hver veit? En eitt veit ég - ég var gjörsamlega dauður þegar ég kom heim.

Efnisorð: , , ,

Ganga... (3)

Ég held ég gangi heim, held ég gangi heim.

Á þriðjudaginn datt mér í hug að gangi heim frá leikskólanum hennar Kristínar Maríu (Hálsabrogg) - með smá twisti.

Gönguleið: Hálsaborg - Flúðasel (þar sem maður var vanur að teika gömlu ellefuna) - Kambasel - Jöklasel - Jaðarsel - Útvarpsstöðvarvegur - Kleifakór - Kambavegur - Kóravegur - Þingmannaleið (?) - Dalaþing - Elliðahvammsvegur - kringum Elliðavatn - heim.

Vegalengd: 9, 4 skv. korti. Segjum 10 km.


Tími: Um 90 mínútur.

Tónlist: Viva la Vida með Coldplay. Ég fíla Coldplay. Fyrsta platan þeirra er ein af mínum uppáhalds all time. Þessi er líka mjög góð. Þeir kunna þetta strákarnir.

Athuganir:
  • Það er kominn bílskúr í Jöklaselið sem ég vissi ekki af.
  • Útvarpsstöðvarvegur er í niðurníslu, enda búið að loka honum að hluta.
  • Það virðist vera búið í ca. 90% af húsunum í Kórahverfinu. Í Þingahverfinu er hlutfallið örugglega undir 50%. En í Þingahverfinu er nokkuð um tilbúnar hallir.
  • Hvaða ár hrundu stóru möstrin/sendarnir á Vatnsenda-hæðinni? Ég man að það var brjálað veður.
  • Ég sá tvær villtar kanínur sem horfðu á mig sposkar, tvær endur flúðu þegar ég nálgaðist, kona sat á hesti.

Efnisorð: , ,

Ganga... (2)

Um daginn gerði ég tilraun:
Hversu langan tíma tekur að ganga frá miðbæ Reykjavíkur og heim?

Gönguleið: Austurvöllur, Laugarvegur, Rauðarárstígur, yfir Miklatún, Miklabraut, Elliðaárdalur. Klassísk leið.

Vegalengd: 10, 8 km skv beinni mælingu, en sjálfsagt nær 12 km. með beygjum og öllu.


Tími (splits):
Austurvöllur: 13:40
Kringlan: 14:06
Stífla við Höfðabakka: 14:46
Heim: 15:16
Samtals: 96 mínútur.

Síðast þegar ég tók leigubíl úr miðbænum og heim kostaði hann tæpar 4000 krónur. Í dag kostar hann sjálfsagt rúmar 4000 krónur. Ekki það að ég ætli að leggja það í vana minn að ganga heim úr miðbænum, en gæti verið pæling fyrir einhverja.

Tónlist á leiðinni:
Fyrst hlustaði ég á Oracular Spectacular með MGMT. Ég er mjög hrifinn af þeirri plötu. Hressti mjög. Síðan tók við platan Dear Science með Tv on the radio. Ég var ekki alveg jafn hrifinn af þeirri plötu svona við fyrstu hlustun en hún verður áfram í ipoddnum. Skemmtilegt reyndar að fyrsta lagið á plötunni heitir Halfway Home, sem er mikil tilviljun, því þegar það var í gangi var ég eiginlega akkúrat hálfnaður heim.

Ég mun halda áfram að gera tilraunir.

Efnisorð: , ,

Keila

Ég skellti mér í keilu um síðustu helgi ásamt 8 ára frænda mínum. Ég hafði ekki farið í keilu í langan langan tíma. Mér var brugðið þegar ég mætti í Keiluhöllina.

Það var diskókeila í gangi, og 55 mínútur kostuðu hvorki meira né minna en 4600 krónur!


Venjan var að borga fyrir leikinn, og leikurinn var þeim mun ódýrari eftir því sem maður spilaði fleiri. Það var eðlilegt system finnst mér. En með einokun að vopni er hægt að gera ýmislegt. En eitt veit ég eftir þessa ferð; ég mun ekki láta bjóða mér þetta aftur.

Keila er líka þannig leikur - maður vill bara vera tiltölulega rólegur, einbeita sér að hverju skoti og hafa það gott. Jafnvel grípa einhvern mat eða e-ð. En ekki með þessu fyrirkomulagi. Nú er keila orðinn stressandi og þar af leiðandi ekki jafn skemmtileg. Þar að auka eru bilanir/vesen ótrúlega algeng á þessum brautum sem stelur mínútum. Þetta er bara vont og ég mótmæli.

Annars var Keiluhöllin mun hörku kreppu-tilboð í gangi einhvern tímann um jólin minnir mig, sem ég að vísu nýtti ekki, en það væri gaman að sjá slíkt tilboð aftur.

Áfram keila.
Púúúú á einokun.

Efnisorð:

mánudagur, febrúar 23, 2009

Njósnavélin órafmögnuð

Efnisorð: ,

miðvikudagur, febrúar 11, 2009

Ganga...

Á föstudaginn í síðustu viku fékk ég þá hugmynd að ganga í kringum Elliðavatn. Það var fallegt veður, lyngt, sól og 3 stiga frost.

Þetta var mjög skemmtileg ganga. Gönguleiðir eru afskaplega vel merktar og svo eru fróðleiksmolar hér og þar um dýra- og plöntulíf. Á leið minni rakst ég kanínur, hesta og hund. Hundurinn gelti á mig eins og allir hundar gera.

Fljótlega breyttist áætlunin því ég mundi að það var ekki svo mikill detour að fara í gamlan yfirgefinn sumarbústað sem við félagarnir heimsóttum reglulega svona ca. árið 1990 - og höfðum áform um að gera upp bústaðinn og fleira. Ég tók því skarpa vinstri beygju, upp hlíðina.

Sú leið var ótroðin og nokkuð erfið yfirferðar, sem fékk mig einhverra hluta vegna til að hugsa um ljóðið The Road Not Taken. Það var á þessum slóðum, í þessari hlíð, sem við vorum eitt sinn eltir af lögreglunni, en það er önnur saga.

Ég fann bústaðinn strax og það var hörmung að sjá hann. Metnaðarfull vinna okkar á sínum tíma hafði ekki skilað miklu virtist vera. Ég tók myndir. Í kringum bústaðinn voru fótspor eftir dýr; hugsanlega ref.

Þegar þarna var komið sögu var ég að renna út á tíma, klukkan var 15:20 og ég var að fara í bíó í Smáralind klukkan 15:45 með Monsunum mínum. Ég tók því á 50/50 sprett/göngu að Salalaug þar sem ég hitti mæðgurnar.

Open Season 2 var ágæt, en gangan var betri.
Hátt í 10 km ganga.


Á mánudaginn fór ég svo í aðra göngu. Ég þurfti að komast útá pósthús í Hraunbænum og ákvað að labba, en tók smá twist.

Fyrst fór ég 70% umhverfis Rauðavatn, hið minna af The Great Lakes. Ég var með Ipod og var að hlusta á Fleet Foxes. Frábær plata. En þetta flækti málið aðeins, því eins og við vitum þá þarf fólk alltaf að heilsast um leið og það er komið út fyrir borgarmörkin (í þessu tilfelli norðan við Suðurlandsveginn, hinu megin við veginn hefði fólk ekki heilsast). Við Esju-göngumenn þekkjum þetta vel.

En ég er semt sagt að labba, með tónlist, og heyri ekkert nema tónlistina. Svo mæti ég manneskju sem mun líklega bjóða mér góðan dag. Ég þarf því að horfa í augun á manneskjunni og á varirnar til að meta hvort þetta sé "góðan daginn moment". Svo þarf ég einnig að passa mig að segja ekki "góðan daginn" of hátt. Þetta er tricky.

Þetta fékk mig einnig til að hugsa um atvik sem átti sér stað fyrir nokkrum vikum. Ég var í Kringlunni með Hörpu og KMH og ég mætti manni sem ég þekki svona aðeins, en samt ekki mikið, en ég fattaði ekki að hann væri þarna. Og við förum í rúllustigann rétt á undan honum án þess að ég taki eftir neinu óvenjulegu. Svo segir Harpa mér að hann hafi heilsað mér en ég ekki á móti, og þetta hafi litið út eins og ég væri að dissa gaurinn, sem var alls ekki meiningin. Ég tók mig því til og sendi þessu manni email og baðst afsökunar. Þetta var að naga mig.

Gangan var góð - það var enn betra veður en á föstudaginn og Fleet Foxes/Slumdog soundtrackið héldu mér í góðu stuði.

Ég dreif niður að stíflu, svo til baka og fór efri leiðina meðfram Fellahverfinu. Allt í allt rúmir 10 km.



Næsta ganga verður væntanlega að Reynisvatni og til baka.

Efnisorð: ,

sunnudagur, febrúar 08, 2009

Rif

Men´s Health tímaritið hefur tekið saman lista yfir óhollasta matinn í Bandaríkjunum.


Á þessum lista hef ég eingöngu smakkað BBQ-rifin, en þau eru hvorki meira né minna en 3340 kaloríur! En þau eru helvíti góð.

Spurning með að taka bara hálfan rack næst.
En ég velti fyrir mér - í hverju liggja allar þessar kaloríur? Innihalda bein t.d. kaloríur?

Efnisorð: ,

Sannleikurinn

Ég fór í leikhús í kvöld á Sannleikinn (-ann).

Ég varð fyrir gífurlegum vonbrigðum.
Ég bjóst við einhverju fyndnu og fersku, þó án þess að hafa neinar gífurlegar væntingar (væntingarstuðullinn var ekki nema 7,75 um fimm mínútum fyrir sýningu).

En þetta var rusl - skrifað af Sigurjóni Kjartanssyni og Pétri Jóhanni - tveimur mönnum sem ég hef mikið álit á. Pétur Jóhann reyndi sitt besta; söng meðal annars nokkra lagstúfa, tók köttinn (þreyttur), smá Ólaf Ragnar, en þetta var bara ekki að virka, því miður.

Hálf stjarna.

Efnisorð:

þriðjudagur, febrúar 03, 2009

Davíð...

Ég lagði mig aðeins áðan.
Í draumi hitti ég Davíð Oddsson og við ræddum málin. Ég spurði hann meðal annars hvort hann ætlaði að segja upp sem Seðlabankastjóri.

Davíð hugsaði sig um í andartak, setti upp strákslegt stríðnisglott og sagði "Nei."

Efnisorð:

Lakers...

Ég er búinn að sjá flesta leiki Lakers á þessu tímabili og ég hlakkaði mikið til að sjá þá mæta Knickerboxers strákunum frá New York, en leikið var í Madison Square Garden í nótt. Þetta eru oftast skemmtilegir leikir, og Kobe hefur alltaf fundið sig vel í þessari höll.


Það var því með nokkurri eftirvæntingu sem ég settist niður klukkan 00:30 í nótt með kók með miklum klökum í glasi og saltstangir í skál.

Kobe, Gasol og Lakers voru heitir framan af og það stefndi augljóslega í eitthvað sérstakt. En nei nei nei, nettengingin mín dó um miðjan fyrri hálfleik, og það í fyrsta skipti, og ég gaf mér ca. klukkutíma í að reyna að laga málið, en ekkert gekk. Ég missti því af þessu - sem er leiðinlegt - og svo þegar ég vakna í morgun er tengingin komin í lag!

Til að gera langa sögu stutta þá unnu Lakers örugglega - Kobe skoraði 61 stig á 37 mín og setti met í höllinni. Við sjáum myndband:

Efnisorð:

sunnudagur, febrúar 01, 2009

Ólífur....

Ég henti í eina pítsu í kvöld; fjórða tilraunin á steininum góða. Í þetta skiptið gerði ég grænmetispítsu.
Þetta var skyndiákvörðun og því henti ég bara á hana því sem var til í ísskápnum.

Minn helmingur var með tómötum, ananas, lauk og svörtum ólífum. Ég byrjaði að borða svartar ólífur fyrir svona ca. 1 ári síðan - fram að því þótti mér þær vera viðbjóður - en tímarnir breytast.

Fyrsta pítsan mín með ólífum var góð, en ólífurnar stálu eiginlega bragðinu af öllu hinu. Þjófóttar þessar ólífur.Ég var með hattinn góða við eldamennskuna, enda fagmaður.



Heilræði að lokum:
Ef sett er sítrónusneið neðst í krukku með ólífum, eftir að búið er að opna krukkuna haldast ólífurnar lengur ferskar og fínar.
Posted by Picasa