miðvikudagur, febrúar 11, 2009

Ganga...

Á föstudaginn í síðustu viku fékk ég þá hugmynd að ganga í kringum Elliðavatn. Það var fallegt veður, lyngt, sól og 3 stiga frost.

Þetta var mjög skemmtileg ganga. Gönguleiðir eru afskaplega vel merktar og svo eru fróðleiksmolar hér og þar um dýra- og plöntulíf. Á leið minni rakst ég kanínur, hesta og hund. Hundurinn gelti á mig eins og allir hundar gera.

Fljótlega breyttist áætlunin því ég mundi að það var ekki svo mikill detour að fara í gamlan yfirgefinn sumarbústað sem við félagarnir heimsóttum reglulega svona ca. árið 1990 - og höfðum áform um að gera upp bústaðinn og fleira. Ég tók því skarpa vinstri beygju, upp hlíðina.

Sú leið var ótroðin og nokkuð erfið yfirferðar, sem fékk mig einhverra hluta vegna til að hugsa um ljóðið The Road Not Taken. Það var á þessum slóðum, í þessari hlíð, sem við vorum eitt sinn eltir af lögreglunni, en það er önnur saga.

Ég fann bústaðinn strax og það var hörmung að sjá hann. Metnaðarfull vinna okkar á sínum tíma hafði ekki skilað miklu virtist vera. Ég tók myndir. Í kringum bústaðinn voru fótspor eftir dýr; hugsanlega ref.

Þegar þarna var komið sögu var ég að renna út á tíma, klukkan var 15:20 og ég var að fara í bíó í Smáralind klukkan 15:45 með Monsunum mínum. Ég tók því á 50/50 sprett/göngu að Salalaug þar sem ég hitti mæðgurnar.

Open Season 2 var ágæt, en gangan var betri.
Hátt í 10 km ganga.


Á mánudaginn fór ég svo í aðra göngu. Ég þurfti að komast útá pósthús í Hraunbænum og ákvað að labba, en tók smá twist.

Fyrst fór ég 70% umhverfis Rauðavatn, hið minna af The Great Lakes. Ég var með Ipod og var að hlusta á Fleet Foxes. Frábær plata. En þetta flækti málið aðeins, því eins og við vitum þá þarf fólk alltaf að heilsast um leið og það er komið út fyrir borgarmörkin (í þessu tilfelli norðan við Suðurlandsveginn, hinu megin við veginn hefði fólk ekki heilsast). Við Esju-göngumenn þekkjum þetta vel.

En ég er semt sagt að labba, með tónlist, og heyri ekkert nema tónlistina. Svo mæti ég manneskju sem mun líklega bjóða mér góðan dag. Ég þarf því að horfa í augun á manneskjunni og á varirnar til að meta hvort þetta sé "góðan daginn moment". Svo þarf ég einnig að passa mig að segja ekki "góðan daginn" of hátt. Þetta er tricky.

Þetta fékk mig einnig til að hugsa um atvik sem átti sér stað fyrir nokkrum vikum. Ég var í Kringlunni með Hörpu og KMH og ég mætti manni sem ég þekki svona aðeins, en samt ekki mikið, en ég fattaði ekki að hann væri þarna. Og við förum í rúllustigann rétt á undan honum án þess að ég taki eftir neinu óvenjulegu. Svo segir Harpa mér að hann hafi heilsað mér en ég ekki á móti, og þetta hafi litið út eins og ég væri að dissa gaurinn, sem var alls ekki meiningin. Ég tók mig því til og sendi þessu manni email og baðst afsökunar. Þetta var að naga mig.

Gangan var góð - það var enn betra veður en á föstudaginn og Fleet Foxes/Slumdog soundtrackið héldu mér í góðu stuði.

Ég dreif niður að stíflu, svo til baka og fór efri leiðina meðfram Fellahverfinu. Allt í allt rúmir 10 km.



Næsta ganga verður væntanlega að Reynisvatni og til baka.

Efnisorð: ,