fimmtudagur, september 28, 2006

Aðgerðin...

Ég fór í aðgerð á hné núna í morgun, og að sögn læknisins gekk hún vel. Það er gott.

Hins vegar leit þetta víst ekkert svakalega vel innan í hnénu; liðþófar voru illa farnir, krossband teigt og liðband alveg í sundur. Á mannamáli þýðir þetta víst: Ég mun aldrei spila fótbolta, körfubolta né tennis framar!!! Svo sagði læknirinn allavega.

Aftur á móti mun ég geta spilað golf áfram.

Það er því kominn sá tíma að smíða góða, fallega, trausta hillu, og fylla hana af skóm. Því miður.

þriðjudagur, september 26, 2006

Aðgerð og afþreying...

Ég fer í aðgerð á hné eftir 2 daga. Þá eru liðnir sléttir 3 mánuðir frá því að ég meiddist. Það verður e-ð krukkað í liðbandinu og liðþófunum í hægra hnénu. Ég kvíði nú lítið fyrir þessu, en hlakka minna til þess að fara í sjúkraþjálfun í nokkrar vikur á eftir. Það finnst mér leiðinlegt.

*************

Horfði á myndina Chaos í gær. Hún var ekkert spes. Mæli ekki með henni.

*************

Í dag horfði ég svo á fyrstu 2 þættina af Sleeper Cell. Þetta eru þættir sem voru að klárast á Skjá Einum, og ég verð að segja að þetta lofar góðu. Klára seríuna um helgina. Þetta eru ekki nema 10 þættir.

*************

Annars er Prison Break , Season 2, að gera góða hluti. Ég held ég fari bara að renna í 6. þáttinn.

mánudagur, september 25, 2006

Áttavilltur...

Nú er svo komið að það er bannað að keyra í vesturátt á hluta af Vesturgötunni.

Akstur í austur er með öllu bannaður í Austurstræti.

Hins vegar er í góðu lagi að aka suður Suðurgötuna.

Maður spyr sig:
Hvar er stöðugleikinn?

laugardagur, september 23, 2006

Fjármálaráðgjöf:

Meðalíslendingurinn á aldrinum 18 til 67 ára skuldar nú 315.000 kr. í yfirdráttarlán. Í hálf fimm fréttum KB banka í gær kemur fram að yfirdráttarlán innlánsstofnana námu alls 191 miljarði króna í lok ágúst og höfðu vaxið um 40 miljarða á einu ári. Heimilin skulda um þriðjung þessara lána.

Morgunblaðið reiknar út að þetta þýði að íslensk kjarnafjölskylda skuldi nú um 850.000 kr. í yfirdráttarlán. Vextir á þessum lánum eru nú rúm 23% sem þýðir að kjarnafjölskyldan greiðir rúmar 16.000 krónur í vexti af láninu á mánuði. (Heimild)

Ráðgjöf:
Borgið niður yfirdráttinn ykkar. Fólk fær hvergi betri ávöxtun á peninginn sinn, áhættulaust.

miðvikudagur, september 20, 2006

Einvígi: Haukington vs. Biggington

Staðsetning: Oddfellow.
Tími: 19.9.2006, kl. 14:30.
Leikfyrirkomulag: Höggleikur, 18 holur.
Aðrir þátttakendur: Hauger Woods og Bijay Swing.

Leikurinn fór rólega af stað, og greinilegur skjálfti í mönnum. Biggington hafði forskotið framan af, 1-3 högg, en sögulegur fugl hjá Haukington á 9. holu minnkaði muninn í aðeins 1 högg. Spennan var því mikil á 10.teig og yfirlýsingar byrjuðu að streyma, eins og gengur og gerist.

Úrslitin réðust svo á 14. holu, par 5 meðfram veginum. Þar lenti Haukington í óvenjumiklum vandræðum á meðan Biggington fékk þægilegt par. Forskotið var komið uppí 7 högg, og 4 holur eftir.

Haukington: "Ég mun saxa á þetta".
Biggington: "Ég ætla að bæta í".

Haukington paraði næstu 2 holur á meðan Biggington lenti í smá vandræðum. Forskotið var komið í 3 högg, og 2 holur eftir. En Biggington var einfaldlega of sterkur á síðustu holunum, og greinilegt að 8 tíma æfingar á dag síðastliðin 5 ár hafa skilað einhverju.

Niðurstaða:
Biggington: 91 (47,44)
Haukington: 97 (48,49)

sunnudagur, september 17, 2006

Samsæri...

Ég var að klára að horfa á 9/11 samsæris-heimildarmyndina Loose Change, en orðið á götunni mælti með henni á dögunum.

Hagnaðurinn mælir einnig með henni.

Þetta eru einhverjar 80 mínútur, og stórgóð skemmtun. Fólk verður bara að trúa því sem það vill trúa, en þetta er nú býsna sannfærandi röksemdafærsla.

laugardagur, september 16, 2006

Spádómur og frí...

Það er stór dagur í boltanum á morgun. Hér er spá fyrir helstu leiki:

Chelsea - Liverpool: 2-2
manutd - Arsenal: 2-1
Racing - Barcelona: 1-5

*****************

Fyrr í kvöld voru lögð drög að sumarfríi næsta árs. Við sögu koma tréklossar og túlípanar. Meira um þetta síðar.

föstudagur, september 15, 2006

Sufjan og Airwaves...

Ég er að fara á tónleikana með Sufjan Stevens föstudaginn 17. nóv næstkomandi. Ágætis líkur eru á því að ég geti reddað aukamiða á þá tónleika á kostnaðarverði. Áhugasamir vinsamlegast hafið samband. Courtesy of Úlli Kínafari, tilvonandi Danmerkurfari.

Svo er það Airwaves.
Ég var að skoða listann yfir flytjendur þessa árs, og það er ótrúlega mikið af spennandi flytjendum, bæði innlendum og erlendum. Armbandið kostar 6900 kr. fyrir alla hátíðina.

Er einhver áhugasamur um þetta?

Pabbakvöld...

Konan að fara á Sálina og Gospel Hallelújah í kvöld, og við Kristín María ein heima í kotinu. Það ætti að vera fjör, sérstaklega ef hún verður jafn mikil rúsínubolla og á myndinni hér að neðan.

Mini-me.

fimmtudagur, september 14, 2006

Boltastrákur skorar...

Fotbolti.net

Ég mæli með þessari frétt, og sérstaklega myndbandinu.

Gooooooaaaaaaaaallllllllllllllllllllllllllll

þriðjudagur, september 12, 2006

Jömmí...

Sögur herma að Taco Bell sé að fara að opna í Hafnarfirðinum.

Taco Bell er einn af þeim veitingastöðum sem eru í viðskiptabanni hjá Hagnaðinum. Ástæðan fyrir þessu viðskiptabanni er viðbjóðslegur matur og skelfileg þjónusta. Fellur Taco Bell því í flokk með Pizza Hut, KFC og fleiri stöðum.

En þessir staðir eiga annað sameiginlegt, því þeir tilheyra allir Yum! Brands, Inc.

Ekki jömmí í mínum munni.
Meira svona Yakk.

mánudagur, september 11, 2006

Guðmundur Torfason...

Ég þoli ekki Guðmund Torfason (GT).

'Þoli' er ekki nógu sterkt orð, því ég gjörsamlega hata manninn. 'Hata' er kannski í það allra sterkasta, en hann fer óendanlega mikið í taugarnar á mér.

Af hverju er ekki bara farið uppá elliheimili og pikkað út einhvern vistmann til að lýsa enska boltanum? Það yrði meira spennandi. Svo rak hann mig náttúrulega úr Fram á sínum tíma, sem er önnur saga.

Af sem áður var...

Um helgina datt ég í það í fyrsta sinn í langan tíma, fyrir utan steggjun og brúðkaup. Það var gaman meðan á því stóð, en daginn eftir var ekkert sérlega gaman.

Fyrir nokkrum árum gat ég spilað heilan fótboltaleik daginn eftir fyllerí. En í dag get ég varla horft á fótboltaleik.

Hvaða lærdóm get ég dregið af þessu?
- drekka minna!

fimmtudagur, september 07, 2006

Tenglar...

Ég gerði smá breytingu í tenglalistanum.

Rauða Ljónið fékk að víkja, enda hættur að blogga síðan hann flutti heim frá Portland. Engu að síður frábært blogg meðan á því stóð.

Í stað hans kemur Sigurjón nokkur. Hann er félagi Biggington, nemi í NY og núverandi Clint Invitational meistari. Ekki amalegt það. Skemmtilegt blogg, og mikið af flottum myndum á myndasíðunni hans.

Þannig er nú það...

þriðjudagur, september 05, 2006

Magnarugl, Poseidon og Entourage...

Þetta er fyrir þá sem vilja kjósa Magna...

Hér er ástæða af hverju við eigum að kjósa Magna... (hljóð nauðsynlegt)

************************

Ég er annars hress og kátur.

Í gær horfði ég á ömurlega kvikmynd er heitir Poseidon. Ég man að ég las bókina í menntaskóla fyrir einhverja enskuritgerð, og í minningunni var þetta ágæt spennusaga. Wolfgang tókst hins vegar að búa til spennumynd sem varð aldrei spennandi og aldrei skemmtileg. Hún fær að vísu 5,6 í einkunn á IMDB. Ástæðan hlýtur að vera Lucky Larry...

... en hann er einmitt leikinn af Kevin Dillon (Johnny Drama) og er í rauninni sami karakterinn, bara með annað nafn.

************************

Talandi um Johnny Drama!
Nýlega fór ég að horfa á Entourage þættina. Nú er svo komið að ég hef séð alla þættina sem framleiddir hafa verið, og þarf að bíða fram í mars eftir nýju efni. Johnny Drama var fyndnastur fyrst, en núna finnst mér Ari Gold langfyndnastur.

Ari Gold: Got Milf?

laugardagur, september 02, 2006

Barcelona-feðginin...

Við feðginin eyddum laugardagskvöldinu í léttum Barcelona fíling. Ég í mínum glæsilega A. Iniesta búningi, og Kristín María í fallega gulum Barcelona náttgalla sem Stiftamtmaðurinn og Arna gáfu henni.

Ef menn rýna í náttgallann þá má þar sjá Deco litla, Eto'o, Puyol og Ronaldinho. Á þessum tímamótum sagði Kristín María skýrt og greinilega: "Pabbi, Barcelona er besta fótboltalið í heimi."

Kiddi Yo... Arsenal náttgallinn er enn hjá klæðskera...



 Posted by Picasa

föstudagur, september 01, 2006

Wilt the Stilt...

Wilt Chambarlain var Lakers maður og sönn hetja, eins og allir Lakers menn eru.

En Wilt var líka elskuhugi.

Wilt hélt því fram í sjálfsævisögu árið 1991 að hann hefði sofið hjá næstum 20.000 konum. Þetta er tuttugu þúsund. Reiknum nú aðeins:

-- Tökum 20.000 og deilum með 365. Þá fáum við ca. 55. Hann hefur því sofið nýrri konu á hverjum degi í 55 ár. Nú eða farið í trekant á hverjum degi í 27,5 ár. Eða blöndu af sitthvoru.

-- Árið 1991 var Wilt einmitt 55 ára gamall (fæddur 1936) og kannski aðeins farið að hægja á kallinum. Því má kannski draga þá ályktun að á yngri árum hans hafi hann verið gríðarlega öflugur og sængað hjá allt að 1000 konum árlega.

-- Tímabilið 1960-1 skoraði Wilt yfir 50 stig að meðaltali í leik. Hann var þá 25 ára gamall. Hvað ætli hann hafi sængað hjá mörgum konum það ár?

Eða er kannski möguleiki að þessi sanna hetja, þessi glæsilegi fulltrúa Lakers, hafi verið að ljúga þessu?

Barcelona...

Börsungar unnu fyrsta leikinn sinn í deildinni eins og allir Íslendingar ættu að vita. Þetta var kannski ekkert sérstaklega sannfærandi sigur, en sigur engu að síður.

Bestu leikmenn: Iniesta litli og Deco litli. Messi litli var einnig öflugur framan af.

Þáttur Eiðs Smára: Klúðraði fyrst dauðafæri, en skorar svo ágætt mark. Fjölmiðlar hérna heima misstu sig aðeins og margir virðast hafa lokað augunum þegar hann skoraði markið. Miðað við lýsingar var þetta eitt flottasta mark sem skorað hefur verið, en í sannleika sagt var þetta blanda af heppni og clean-hit þrumu.

Mörkin: Sjá link hér til vinstri. Á þessari síðu má sjá öll mörk Barcelona á þessari leiktíð. Ég mun einnig skutla inn link hérna hægra megin.

11. mars 2007:
Barcelona - Real Madrid, Nou Camp.

Hópferð?

Aðgerð...

Hagnaðurinn er á leið í aðgerð, eða nánar tiltekið svokallaða speglun.

Þetta hljómar kannski ekkert hræðilegt, en þetta er víst svæfing, hnéð opnað, og e-ð skrapað út. Svo mun einhver sjúkraþjálfun fylgja í kjölfarið. Ég ætti því að vera komninn á fullt fyrir áramót vonandi; hjólandi, hlaupandi, shooting a fadeaway, o.s.frv. Fótboltaskórnir eru hins vegar komnir á hilluna.