laugardagur, janúar 05, 2008

Þúsund Bjartar Sólir

Ég var að ljúka við að lesa aðra skáldsögu Khaled Hosseini, Þúsund Bjartar Sólir. Áður hafði hann skrifað Flugdrekahlauparann, en hana las ég síðasta sumar og gaf henni 99 stjörnur af 100 mögulegum.

Auglýsingarnar fyrir jólin sögðu að þessi bók væri betri. Gat það verið?

Bækurnar eru líkar að ýmsu leiti. Þær gerast báðar í Afganistan og spanna frá ca 1970-2000+. Flugdrekahlauparinn fjallar um stráka/menn en Þúsund Bjartar er aðallega um konur í Afganistan. Og ég get sagt ykkur það að konur í Afganistan hafa það ekki gott, ef marka má þessa skáldsögu, þó ég hafi lifað mig það mikið inní bókina að ég hafði á tilfinningunni að þetta væri sönn saga. En svo er víst ekki.

Þetta er yfirgengilega sorgleg bók. Svo sorgleg að ég spurði sjálfan mig reglulega hvers vegna í ósköpunum ég væri eiginlega að lesa þetta. Það er einfalt svar við því. Stundum þarf maður að sjá e-ð vont til að meta það sem er gott. Maður þarf að sjá og lesa um mannvonsku til að átta sig á því hvað maður hefur það gott (þrátt fyrir 6 djúpar lægðir í desember). Maður þarf að horfa á vondar bíómyndir til að læra að meta þær góðu.

Ég mæli með þessari bók. Hún er ekki betri en Flugdrekahlauparinn, heldur er hún jafngóð. Bíómynd væntanleg fyrir þá sem nenna ekki að lesa.

99/100*

Efnisorð: