fimmtudagur, apríl 16, 2009

Hjólageðveiki, semi

Ég keypti mér svona hjól í síðustu viku. Bætti við standara, ljósum að framan og aftan, brettum og hraðamæli. Það er alger snilld að vera með svona mæli. Ég er búinn að hjóla slatta á þessum 8 dögum sem ég er búinn að eiga hjólið.

1. Fyrsta ferðin var 38,6 km. Meðalhraði 21,6 km/klst. Ég tók Grafarvoginn, meðfram Sæbrautinni, cut í gegnum bæinn, Skerjarfjörður, Fossvogur, heim.

Athuganir:
  • Mér finnst hrikalega gaman að hjóla í kringum Grafarvoginn, skemmtilegir stígar, fólk í golfi á sumrin, fallegt útsýni.
  • Maður lendir í veseni á hjóli við tónlistarhúsið.

2. Hér er loftmynd. Ferð 2 var svipuð, sleppti að vísu Grafarvoginum en bætti inn Nesinu. Miklabraut heim með viðkomu í bænum. Mér finnst alltaf gott að kíkja aðeins í bæinn og tjekka á stemningunni og jafnvel stoppa og hlusta á trúbadorinn taka eitt tvö lög. Vegalengd 38,15 km. Meðalhraði 22,7 km/klst.

Athuganir:
  • Neshringurinn er frábær.
  • Ég fór Rafstöðvarveginn, þ.e. norðan við Elliðaárnar. Það er vegur í slæmu ástandi og ekki fyrir götuhjól.
  • Það var gott veður, en bærinn var nánast dauður.


3. Í gær fór ég glænýja leið. Ég fór í gegnum nýja Kópavoginn, framhjá Vífilsstaðavatni, uppí Heiðmörk, framhjá Oddi, og endaði í Hafnarfirði. Ég fór í gegnum Hafnarfjörðinn, svo framfram sjónum pretty much alla leið á T9. Þar hitti ég nýjasta tengasoninn, Lilla Snilla Andrésson. Eftir stopp, vatn og hafraköku húsmóðurinnar lá leiðin heim. Vegalengd 40,9 km, meðalhraði 21,5 km/klst.

Athuganir:
  • Ég mun pottþétt taka þennan Hafnarfjarðarrúnt aftur, og það fljótlega.
  • Leiðin í gegnum Kópavoginn er leiðinleg, þ.e. Hvörfin og öll þessi hringtorg.
  • Bryggjuhverfið í Hafnarfirði er bæði tómt og sorglegt.
  • Ég náði mínum hæsta hraða í brekkunni við Vífilsstaðavatn, 55,9 km/klst. Ég mun aldrei aftur fara svo hratt, af öryggisástæðum.


4. Í kvöld fór ég á viðgerðanámskeið hjá Fjallahjólaklúbbnum. Eðli málsins samkvæmt mætti ég á hjóli, og ekki gat ég mætt á nýju hjóli, svo ég fór með hjólið hennar mömmu.

Ég fór því fyrst í Kleifarselið, en fór svo hefðbundna leið fram og tilbaka. Vegalengd 28,4 km.


Athuganir:
  • Ég lærði fullt á þessu frábæra og ókeypis námskeiði.
  • Ég hef meiri áhuga á að hjóla en hjólum.
  • Ráðleggingar leiðbeinanda: smyrjið keðjuna vikulega, skiptið um keðju árlega sem og alla barka, þrífið hjólið mjög regulega hátt og lágt, skoðið bremsur og gíra minnst mánaðarlega.

Efnisorð:

þriðjudagur, apríl 14, 2009

Trúarjátning

Dóttirin var skírð um helgina. Fyrir valinu varð nafnið Sunna Karen.

En af hverju var ég að skíra, trúleysinginn ég. Ég veit það ekki alveg. Hefði ég fengið að ráða hefði hún verið nefnd strax við fæðingi og engin skírn verið haldin. En svona eru málamyndanir í samböndum fólks – þetta skipti Hörpu miklu máli.

Ég er mikið spurður hvers vegna ég sé ekki í þjóðkirkjunni, eins og það sé e-ð náttúrulögmál. Stutta svarið er að ég á bara enga samleið með þessu rugli. Ég er trúlaus og það er bara þannig. Fólk er aldrei spurt hvers vegna það sé í þjóðkirkjunni – ég hugsa að fæstir viti það. Ég fermdist vegna gjafanna og sagði mig úr þjóðkirkjunni fyrir nokkrum árum.

Eftir athöfnina á laugardaginn var ég spurður hvers vegna ég fór ekki með trúarjátninguna. Fyrir það fyrsta fer ég ekki með játningu á einhverju sem ég trúi ekki. Í öðru lagi kann ég ekki þennan texta. Svo ég fletti honum upp. Hann hljómar svona:

Ég trúi á Guð, föður almáttugan, skapara himins og jarðar.
Ég trúi á Jesú Krist, hans einkason, Drottinn vorn, sem getinn er af heilögum anda, fæddur af Maríu mey, píndur á dögum Pontíusar Pílatusar, krossfestur, dáinn og grafinn, steig niður til heljar, reis á þriðja degi aftur upp frá dauðum, steig upp til himna, situr við hægri hönd Guðs föður almáttugs og mun þaðan koma að dæma lifendur og dauða.
Ég trúi á heilagan anda, heilaga almenna kirkju, samfélag heilagra, fyrirgefningu syndanna, upprisu mannsins og eilíft líf.


Nú ætla ég ekki að setjast í e-ð dómarasæti, mér er nett sama þó aðrir hafi sína trú, þó fæstir iðki hana. En þessi texti. Trúir fólk þessu í alvörunni? Eða fer það bara með textann af gömlum vana?

Ég setti saman trúarjátninu sem mér finnst álíka trúverðug.

Ég trúi á jólasveininn, grýlu og leppalúða.
Ég trúi á spákonur, miðla, spámiðla og tarrotspil. Ég trúi á álfa og huldufólk, drauga og kraftaverk.
Ég trúi á Indiana Jones, Jason Bourne, James Bond og Jack Bauer að eilífu amen.

miðvikudagur, apríl 01, 2009

Lífið þessa dagana...

* Það er frábært að vera með nýja monsu á heimilinu, þó daglegt líf hefur ekki breyst svo mikið. Hún gerir lítið annað en að drekka og sofa. Hún er að braggast mjög vel og þetta er allt samkvæmt bókinni. Það bæði gleður og hressir. Hún er talin vera mini-me. Ég sé það samt ekki sjálfur.

* Í dag hefst mánuður 2 í fæðingarorlofi. Þeir verða alls 6 eins og staðan er núna, eða út ágúst. Hvað tekur við þá er stórt spurningamerki. Ég er í það minnsta ekkert sérstaklega bjartsýnn á að vinnumarkaðurinn verði búinn að taka við sér. Kemur í ljós - ég ætla allavega ekki að eyða tímanum mínum í áhyggjur.

* Það er samt ýmislegt í gangi sem heldur manni við efnið. Ég var ásamt félaga mínum að vinna í viðskiptaáætlun fyrir vöru sem kemur líklega á markað fyrr en seinna. Við tókum þátt í keppni á vegum Innovit sem var ofsalega skemmtilegt og lærdómsríkt. Meira um það síðar.

* Þá er möguleiki á að ég sé að fara að vinna í annarri viðskiptaáætlun, en það er á frumstigi. Hugmyndin er góð og spurning með útfærslu/fjármagn.

* Ég er svo að fara í smá verkefni á morgun sem ég held að verði mjög skemmtilegt.

* Ég er líka loksins búinn að finna flott og gott götuhjól á ásættanlegu verði. Ég mun fjárfesta í því fljótlega og þar koma afmælisgjafapeningar að góðum notum. Svo verður bara brunað útum allan bæ og næstu bæjarfélög, og að sjálfsögðu skrifað um það. Hjólablogg - næstbestu bloggin.

Efnisorð: ,