miðvikudagur, apríl 01, 2009

Lífið þessa dagana...

* Það er frábært að vera með nýja monsu á heimilinu, þó daglegt líf hefur ekki breyst svo mikið. Hún gerir lítið annað en að drekka og sofa. Hún er að braggast mjög vel og þetta er allt samkvæmt bókinni. Það bæði gleður og hressir. Hún er talin vera mini-me. Ég sé það samt ekki sjálfur.

* Í dag hefst mánuður 2 í fæðingarorlofi. Þeir verða alls 6 eins og staðan er núna, eða út ágúst. Hvað tekur við þá er stórt spurningamerki. Ég er í það minnsta ekkert sérstaklega bjartsýnn á að vinnumarkaðurinn verði búinn að taka við sér. Kemur í ljós - ég ætla allavega ekki að eyða tímanum mínum í áhyggjur.

* Það er samt ýmislegt í gangi sem heldur manni við efnið. Ég var ásamt félaga mínum að vinna í viðskiptaáætlun fyrir vöru sem kemur líklega á markað fyrr en seinna. Við tókum þátt í keppni á vegum Innovit sem var ofsalega skemmtilegt og lærdómsríkt. Meira um það síðar.

* Þá er möguleiki á að ég sé að fara að vinna í annarri viðskiptaáætlun, en það er á frumstigi. Hugmyndin er góð og spurning með útfærslu/fjármagn.

* Ég er svo að fara í smá verkefni á morgun sem ég held að verði mjög skemmtilegt.

* Ég er líka loksins búinn að finna flott og gott götuhjól á ásættanlegu verði. Ég mun fjárfesta í því fljótlega og þar koma afmælisgjafapeningar að góðum notum. Svo verður bara brunað útum allan bæ og næstu bæjarfélög, og að sjálfsögðu skrifað um það. Hjólablogg - næstbestu bloggin.

Efnisorð: ,