þriðjudagur, apríl 14, 2009

Trúarjátning

Dóttirin var skírð um helgina. Fyrir valinu varð nafnið Sunna Karen.

En af hverju var ég að skíra, trúleysinginn ég. Ég veit það ekki alveg. Hefði ég fengið að ráða hefði hún verið nefnd strax við fæðingi og engin skírn verið haldin. En svona eru málamyndanir í samböndum fólks – þetta skipti Hörpu miklu máli.

Ég er mikið spurður hvers vegna ég sé ekki í þjóðkirkjunni, eins og það sé e-ð náttúrulögmál. Stutta svarið er að ég á bara enga samleið með þessu rugli. Ég er trúlaus og það er bara þannig. Fólk er aldrei spurt hvers vegna það sé í þjóðkirkjunni – ég hugsa að fæstir viti það. Ég fermdist vegna gjafanna og sagði mig úr þjóðkirkjunni fyrir nokkrum árum.

Eftir athöfnina á laugardaginn var ég spurður hvers vegna ég fór ekki með trúarjátninguna. Fyrir það fyrsta fer ég ekki með játningu á einhverju sem ég trúi ekki. Í öðru lagi kann ég ekki þennan texta. Svo ég fletti honum upp. Hann hljómar svona:

Ég trúi á Guð, föður almáttugan, skapara himins og jarðar.
Ég trúi á Jesú Krist, hans einkason, Drottinn vorn, sem getinn er af heilögum anda, fæddur af Maríu mey, píndur á dögum Pontíusar Pílatusar, krossfestur, dáinn og grafinn, steig niður til heljar, reis á þriðja degi aftur upp frá dauðum, steig upp til himna, situr við hægri hönd Guðs föður almáttugs og mun þaðan koma að dæma lifendur og dauða.
Ég trúi á heilagan anda, heilaga almenna kirkju, samfélag heilagra, fyrirgefningu syndanna, upprisu mannsins og eilíft líf.


Nú ætla ég ekki að setjast í e-ð dómarasæti, mér er nett sama þó aðrir hafi sína trú, þó fæstir iðki hana. En þessi texti. Trúir fólk þessu í alvörunni? Eða fer það bara með textann af gömlum vana?

Ég setti saman trúarjátninu sem mér finnst álíka trúverðug.

Ég trúi á jólasveininn, grýlu og leppalúða.
Ég trúi á spákonur, miðla, spámiðla og tarrotspil. Ég trúi á álfa og huldufólk, drauga og kraftaverk.
Ég trúi á Indiana Jones, Jason Bourne, James Bond og Jack Bauer að eilífu amen.