þriðjudagur, nóvember 25, 2008

Who moved my cheese?

Síðastliðinn föstudag hætti ég störfum hjá Byr Sparisjóð. Ráðningasamningi mínum var að ljúka og hann var ekki endurnýjaður. Þessi niðurstaða kom lítið á óvart í ljósi aðstæðna á mörkuðum og ég skil sáttur við Byr. Ég er alls ekki fúll og í rauninni bara spenntur fyrir því að prófa eitthvað algjörlega nýtt...

Það er nefnilega þannig að breytingar eru oftast góðar. Ég var búinn að starfa við það sama í 4 1/2 ár, var búinn að mennta mig mikið í þeim fræðum, en var samt ekkert endilega á því að þetta yrði málið endalaust. Núna hefst nýr kafli í mínu lífi og vonandi verður hann jafn skemmtilegur og síðasti kafli.

*****************************************

Á föstudag mun ég hefja störf sem þjónn hjá Grand Hótel Reykjavík.

Ég leitaði sjálfur eftir því að starfa hjá hóteli og mér bauðst þetta starf. Ég mun vinna þrjár næstu helgar, föstudag og laugardag frá 16:00-02:00. Allir að mæta á jólahlaðborð!

Framhaldið verður svo að koma í ljós. Ég held að þjónusta við ferðamenn eigi eftir að koma vel útúr þessum þrengingum hérna heima og hver veit nema maður fái að taka þátt í því á einn eða annan hátt. Ég hef allavega engu að tapa og hlakka bara til að prófa þetta.

Efnisorð:

Jack Bauer er mættur aftur...

Og það í sjónvarpsmynd (í rauninni bara tvöfaldur þáttur) sem heitir 24: Redemption.

Myndin gerist í Afríku. Jack er búinn að vera á ferðalagi síðan síðustu seríu lauk og þetta á að vera einhvers konar tenging milli síðustu seríu og þeirrar næstu, sem hefst í janúar.

Ég ætla að spara stóru orðin, en ég vona innilega að serían verði betri en myndin... segi ekki meir.

Lengi lifi Tony Almeida.

Efnisorð:

mánudagur, nóvember 24, 2008

Sigurrós

Ég fór á tónleikana í gær í höllinni.
Fjórir vel æfðir Sigurrósar drengir, sýning fyrir auga og eyra.

Algjörlega frábærir tónleikar, að venju. Þetta var best-of dæmi, fyrir utan Viðrar vel til loftárása. Það vantaði.
Setlistinn:

01 Svefn G Englar
02 Glossoli
03 Ný batterí
04 Fljótavik
05 Við spilum endalaust
06 Hoppípolla
07 Með blóðnasir
08 Inní mér syngur vitleysingur
09 E-bow
10 Sæglópur
11 Festival
12 Hafsól
13 Gobbledigook
---
14 All alright
15 Popplagið

Hápunktar:
Ný Batterí.
E-bow.
Sæglópur.
Hafsól.
Popplagið.

Það var eitt sérstakt.
Í Svefn-G-Englar söng Jónsi að venju "Aaa tjúúú úúú" og svo sagði hann e-ð á eftir. Þetta voru einhver skilaboð/áróður sem ég hef aldrei heyrt áður. Veit einhver hvað hann sagði?

Efnisorð:

þriðjudagur, nóvember 18, 2008

Staukur...

Hvað með staukur?

Nína...

Ég fór í stúdíó á föstudaginn.
Tónlistarstúdíó Magga Kjartans, hvorki meira né minna.

Ég var með hópi úr vinnunni. Óvissuferð, strákar á móti stelpum, 5 on 5 einvígi í söngi og Maggi dæmir. Hljómar ágætlega á pappír.

Nema hvað, við mætum klukkutíma of seint og Maggi hefur eiginlega engan tíma. En það er samt slegið til, klárað málið.

Strákar fyrst, Draumur um Nínu, ooooooggg byrja.

Nú hef ég oft sungið Nínu, en líklega aldrei fyrr en eftir min(4 bjóra). Oft hefur mér jafnvel fundist að ég hafi sungið lagið vel, náð tóntegundinni og verið bara spot on bæði í söng og túlkun. En þá að stund sannleikans....

Við vorum ömurlegir á heildina litið. Málið var að við vorum nokkuð æstir og byrjuðum lagið í alltof hárri tóntegund og þegar leið á réðum við lítið við þetta. En þetta var gaman og vonandi þarf ég aldrei aftur að hlusta á upptöku af laginu.

Maggi Kjartans kom með ráðgjöf (eftir að við sungum). Hann sagði að þetta hafi verið alltof erfitt lag og í rauninni ekki margir sem geta sungið það vel, og hann gekk svo langt að kalla Stebba Hilmars eina af söngkonunum sínum.

Efnisorð:

föstudagur, nóvember 14, 2008

Íslenskur Bond...

Fyrirsögn

fimmtudagur, nóvember 06, 2008

Plan B

Horfur á Íslandi eru ekki góðar næstu svona 2 árin, ef marka má Peningamál Seðlabanka Íslands sem komu út í morgun.

Þeir eru að sjá fyrir sér 10% atvinnuleysi á næsta ári (17-18 þús manns), 23% ársverðbólgu í upphafi árs 2009, veikri krónu (Evran í kringum svona 130 skv grunnspá) og að húsnæðisverð lækki að meðaltali um 28% að nafnverði frá 2007-2011 (40% raunlækkun). Á sama tíma er gert ráð fyrir óverulegum launahækkunum.

Þetta er ljót spá.
Skv þessu mun meirihluti landsmanna sem á íbúðarhúsnæði skulda meira í íbúðinni en hún kostar. Það er ekki gott. Ég mun verða einn þessara manna, og er í rauninni þegar orðinn það. En hvað er til ráða?

**********************

Ég er enn með vinnu, konan líka, krakki í leikskóla og annar krakki á leiðinni, og við erum vel menntuð og allir með góða heilsu. Allt í góðu á pappírunum. En það getur breyst, og í rauninni heimskulegt að velta ekki fyrir sér plani B.

Ég hef áður búið í 3 ár erlendis á meðan ég var í námi og líkaði vel, og ég get vel hugsað mér að búa í öðru landi. En hvert væri best að fara? Fyrst koma upp í hugann Svíþjóð og Danmörk, og þar líst mér betur á Svíþjóð einhverra hluta vegna. Einnig hefur Holland alltaf heillað mig. Lengra í pælingunum er ég ekki kominn. En já, landflótti er ekki útilokaður í mínum huga, og ég myndi halda og svona 20þús manns plús væru einnig að pæla í þessum málum.

Hvað segið þið, er e-ð plan B?

Efnisorð: