fimmtudagur, nóvember 06, 2008

Plan B

Horfur á Íslandi eru ekki góðar næstu svona 2 árin, ef marka má Peningamál Seðlabanka Íslands sem komu út í morgun.

Þeir eru að sjá fyrir sér 10% atvinnuleysi á næsta ári (17-18 þús manns), 23% ársverðbólgu í upphafi árs 2009, veikri krónu (Evran í kringum svona 130 skv grunnspá) og að húsnæðisverð lækki að meðaltali um 28% að nafnverði frá 2007-2011 (40% raunlækkun). Á sama tíma er gert ráð fyrir óverulegum launahækkunum.

Þetta er ljót spá.
Skv þessu mun meirihluti landsmanna sem á íbúðarhúsnæði skulda meira í íbúðinni en hún kostar. Það er ekki gott. Ég mun verða einn þessara manna, og er í rauninni þegar orðinn það. En hvað er til ráða?

**********************

Ég er enn með vinnu, konan líka, krakki í leikskóla og annar krakki á leiðinni, og við erum vel menntuð og allir með góða heilsu. Allt í góðu á pappírunum. En það getur breyst, og í rauninni heimskulegt að velta ekki fyrir sér plani B.

Ég hef áður búið í 3 ár erlendis á meðan ég var í námi og líkaði vel, og ég get vel hugsað mér að búa í öðru landi. En hvert væri best að fara? Fyrst koma upp í hugann Svíþjóð og Danmörk, og þar líst mér betur á Svíþjóð einhverra hluta vegna. Einnig hefur Holland alltaf heillað mig. Lengra í pælingunum er ég ekki kominn. En já, landflótti er ekki útilokaður í mínum huga, og ég myndi halda og svona 20þús manns plús væru einnig að pæla í þessum málum.

Hvað segið þið, er e-ð plan B?

Efnisorð: