miðvikudagur, júlí 22, 2009

Sundlaugar, úttekt.

Við Kristín María erum búin að fara í slatta af sundferðum að undanförnu, reyndar svo mikið að stefnir í met. Hér segir af helstu laugum, kostum þeirra og göllum, út frá barnvæni (líklega ekki orð) þeirra.

a) Árbæjarlaugin.
  • Þetta er okkar "heimalaug".
  • Sturturnar eru lélegar, ca. 70/30 blanda sjálfur vs. forblandað (ýtt á takka og vatn kemur í 30 sek = vesen). Skápar eru of litlir. Það er stöðugt hálka á flísunum.
  • Innilaugin er ágæt en það getur myndast mikill hávaði. Heitir pottar eru mjög góðir en jafnan ansi þétt skipaðir. Úti-barnalaugin er býsna góð, temmilega heit og nógu grunn fyrir litla krakka.
  • Það eru tvær rennibrautar á staðnum. Sú stærri býður uppá góðan hraða og mjúkt rennsli með góðri niðurkomu, en stiginn upp getur verið háll sem áll. Minni rennibrautin er svokölluð fíla-rennibraut.
  • Heildareinkunn: 78/100.

b) Álftaneslaugin:

  • Nýjasta laugin á höfuðborgarsvæðinu.
  • Mjög góðir klefar, stórir skápar, upphitað gólf, engin hálka og rúmgóðar sturtur.
  • Innilaugin er stór, en reyndist aðeins of djúp fyrir KMH því hún náði hvergi til botns.
  • Heitir pottar voru góðir. M.a. er þarna stór mjög grunnur barnapottur með mini-rennibraut, ormi sem úr kemur vatn, og svo eru fötur í ca. 2 metra hæð sem smám saman fyllast af vatni og hella yfir nærstadda.
  • Þarna er líka stærsta rennibraut landsins. Brautin sjálf er frábær, mikið af beygjum, fínt tempó, lokuð alla leið, bjart og dimmt. Gallarnir eru að þetta er náttúrulega löng ganga upp. Þar geta myndast raðir (rautt og grænt ljós kerfi) og manni verður ansi kalt svona hátt upp. Þá er niðurkoman ekki alveg nógu góð því laugin er nokkuð djúp í niðurkomunni.
  • Í lauginni er líka svokölluð öldulaug. Hún er smá en skemmtileg. Gæti verið vafasöm fyrir allra minnstu börnin en KMH skemmti sér nokkuð vel.
  • Einkunn: 85/100.

c) Lágafellslaug (Mosó):

  • Góðir klefar, stórir skápar, klefar tip top.
  • Innilaugin var stór og í dýpra lagi fyrir minnstu börnin.
  • Úti er ansi skemmtileg krakkalaug með lítilli rennibraut. Laugin var heit og passlega djúp til að liggja og horfa á krakkana renna sér.
  • En í þessari sundlaug eru rennibrautirnar aðalmálið. Þarna eru 3 rennibrautir; 2 langar og lokaðar en ein stutt og opin. Sama lokaða stigahúsið er fyrir allar rennibrautirnar -- risastór kostur. Stóru rennibrautirnar eru sæmilegar, hóflega langar með möguleika á góðum hraða með sundföt í rassa-skoru. Hins vegar eru "flekamótin" ekki nógu bein og þétt saman sem kallar á óþægindi í snertifleti. Mjög stór ókostur. Niðurkoman er góð. Opna rennibrautin er snilld, hún er mjög breið, margir geta rennt sér í einu og hún er mjög aflíðandi svo niðurkoman verður hæg og mjúk. Frábært fyrir yngstu börnin.
  • Annar kostur við þessa laug er að þarna eru bara gúmmíflísar sem er mjög gott.
  • Einkunn: 88/100.

Aðrar laugar:

  • d) Salalaug: Ágætis laug inni og úti, fínir klefar, góður pottur. 79/100.
  • e) Kópavogslaug: Mjög skemmtileg og fjölbreytt laug. 80/100.
  • f) Laugardalslaug: Var einu sinni fín, en í dag er þetta bara Chicago Bulls sundlauganna. 50/100.
  • g) Sundhöll Reykjavíkur: L.A. Clippers sundlauganna. 5/100.

Niðurstaðan er því sú að Lágafellslaugin er best, og þangað verður stefnt eftir vinnu í dag.

Efnisorð:

miðvikudagur, júlí 08, 2009

Golfblogg - bestu bloggin, tvöfalt golfblogg

Góðan dag hér og þar og alls staðar.

Ég er búinn að fara fimm sinnum í golf í sumar.
1) 9 holur á Urriðavelli.
2) 9 holur á Setbergsvelli.
3) 18 holur á Urriðavelli.
4) 18 holur á Urriðavelli.
5) 18 holur á Korpu.
Segir hér frá þeim tveimur síðastnefndu.

Það var fallegt veður, hlýtt og logn þann 26. júní síðastliðinn þegar ég, Viðar Guðjónsson og Ólafur Þórisson mættum á teig á Urriðavelli. Ráðgjafagengið svokallaða.

Ég var að spila hörkuvel - 90 högg alls (46/44). Það var helst að það vantaði smá meiri gæði í kringum flatirnar og á flötunum. Tölfræði:
  • Pútt: 2 einpútt, 15 tvípútt, 1 þrípútt.
  • Hittar brautir: 9/14 (64%).
  • Hittar flatir: 4/18 (22%).
  • Víti: 2.
Viðar og Ólafur léku ágætlega á fyrri 9 holunum, en það fjaraði aðeins undir þeirra leik þegar leið á nóttuna (01:00 am plús) og tók að rökkva.

*******************************

Í gær var svo haldið á völl þeirra GR-inga að Korpúlfsstöðum.
Upphaflega átti þetta að vera einvígi Liverpool-manna gegn manutd-mönnum, en það vantaði einn úr hvoru liði. Liðsskipan var því eftirfarandi: Hauger Woods, Ommidonna, Gunni Magg celeb, Júllí GR-ingur. Leikur hófst klukkan 21:30 í blíðskaparveðri.

Aðeins eitt skipti máli: Hauger Woods gegn Ommadonna; holukeppni. Þetta var mikilvæg keppni sem kannski sést best á því að Ommidonna fór sérstaklega að slá í hádeginu, til að vera klár í leikinn. En dugði það?

Fyrri 9 holurnar voru æsispennandi. Ég tók fyrstu 3 holurnar, fjórða féll, en Ommidonna tók 3 næstu. Það var því jafnt á 8. teig. Þar fékk ég minn fyrsta fugl í sumar og tók holuna. Níunda féll svo. Ég var því einn upp eftir 9 holur, og ákveðið að halda áfram, þrátt fyrir að klukkan væri að detta í miðnætti.

Ommidonna tók tíundu og jafnaði. Ég kom hins vegar sterkur til baka og tók elleftu og tólftu (2up). Þrettánda féll og ég tók fjórtándu (3up). Ommidonna tók svo fimmtándu eftir að ég vítaði, en ég kom enn og aftur sterkur til baka og tók sextándu og sautjándu, 4up og game over. Átjánda og síðasta féll svo.

Ég var að slá ágætlega í heildina, nokkuð stöðugur í teighöggunum, fínn í púttunum, en var ekki að hitta flatirnar. Tölfræði.
  • Pútt: 5 einpútt, 13 tvípútt.
  • Hittar brautir: 6/13 (46%).
  • Hittar flatir: 3/18 (17%).
  • Víti: 2.
  • Högg: 94 (44/50). Sprengja á tíundu og átjándu.

Golfblogg, bestu bloggin.

Efnisorð: