fimmtudagur, september 04, 2008

Þríþraut...

Ég hjóla, syndi og hleyp flesta daga. Þríþraut gengur einmitt út á þessar íþróttir.

Ég fór aðeins að skoða ýmsar þríþrautarkeppnir og þar er náttúrulega Iron Man þríþrautin lang merkilegust.
Í henni byrja menn á að synda 3,8 km, hjóla svo 180 km og enda á að hlaupa maraþonhlaup (42 km). Þetta er náttúrulega geðveiki.

Mesta geðveikin er hins vegar tíminn sem þetta tekur.
Luc Van Lierde, Belginn snjalli, á besta tíma sögunnar: 7:50:27
Sund: 44 mín
Hjól: 4:28
Hlaup: 2:36

Þetta er með ólíkindum hratt og gjörsamlega fáránlegt að menn geti verið í svona góðu formi. Setjum þetta í smá samhengi.

Heimsmetið í 1500 skriðsundi karla er 14:36, eða 103 metrar á mínútu. Luc fór hins vegar 86 metra á mínútu að meðaltali. En hann synti náttúrulega lengra og í sjó.

180 km er svipað og frá Reykjavík að Vík í Mýrdal. Meðalhraðinn á Luc var rétt um 40 km/klst. Sjálfur hjólaði ég Hvalfjörðinn í sumar, 104 km og tók það 4:20. Meðal annars var farið niður brekkur og var þá hraðinn í kringum 40 km/klst. Það er hratt á hjóli.

Heimsmetið í maraþonhlaupi er 2:04. Það að vera hálftíma lengur en það, eftir að hafa synt 3,8 km OG hjólað 180 km, það er helvíti gott. Fyrir okkur sem hlaupum stundum á hlaupabretti (og aðra) þá þýðir það meðalhraða uppá 16,15. Þegar ég er á brettinu, þá er hraðinn 16 eiginlega sprettur.

Þvílíkir íþróttamenn.

Efnisorð: , ,