föstudagur, ágúst 08, 2008

Hjólað í vinnuna - leiðbeiningar

Ég er byrjaður að hjóla aftur í vinnuna, og það á nýja vinnustaðinn. Það er hins vegar einn stór ókostur; það er ekki sturta í húsinu, þrátt fyrir að það sé splunkunýtt.

Þetta leysti ég með því að kaupa mér kort í sundlaug Kópavogs. Þetta kallar hins vegar á gífurlegt skipulag.

Dagur 1:
a) Ég hjóla úr Norðlingaholtinu í sundlaugina. Það tekur á bilinu 17-21 mínútu, eftir vindátt.
b) Jakkafötin, skyrta, skór, nærföt og sokkar eru í stórum bakpoka. Gott og vel. Ég sturta mig, fer í fötin og rölti uppí vinnu (4 mín labb).
c) Eftir vinnu skipti ég aftur um föt - uppí vinnu - fer í semi-illa-lyktandi íþróttafötin, skil jakkafötin eftir og skóna, tek með mér skyrtuna heim. Labba niðrí sundlaug og hjóla heim.

Dagur 2:
a) Núna er ég með jakkaföt og skó niðrí vinnu. Ég þarf því ekki að taka það með mér.
b) Hérna flækist hins vegar málið eilítið. Þar sem ég svitna á leiðinni, þá þarf ég föt til að fara í þegar ég labba úr sundlauginni og uppí vinnu. Það kallar líka á skópar, því ekki vil ég fara í illa lyktandi íþróttaskó í hreinum sokkunum. Það eru því þrjú skópör í gangi: íþróttaskór, ganga-á-milli-skór og vinnuskór. Einnig þarf ég hreina skyrta þar sem ég tók skyrtuna með mér heim á degi eitt. Þið haldið þræðinum.
c) Vinnudegi lýkur, skellt sér í semi-illa-lyktandi íþróttafötin, föt+skór eftir (nei, skór teknir með heim, brúðkaup á morgun), skyrtan og ganga-á-milli fötin tekin með heim.

Dagur 3 (mánudagur):
a) Dagur 2 myndi auðvitað ganga upp endalaust ef ég gæti alltaf verið í sömu fötunum. En það er viðbjóður.
b) Á mánudaginn þarf ég því að taka með mér ný jakkaföt (og auðvitað skóna sem ég tók með mér heim), fara í þeim á milli sundlaugar og vinnu, og taka svo "gömlu fötin" heim.
c) Þá er ég í rauninni aftur kominn á skipulag dags tvö.


Ég setti hraðamet á þessari leið í dag. Hjólaði þetta á rétt rúmum 17 mínútum, eða fjögur fyrstu lögin á með suð í eyrum plús rétt byrjunin á lagi fimm. Ég hugsa að þessi fjögur lög séu með því allra hressasta sem heyrist í tónlist í dag. Er til e-ð meira hressandi en Sigurrós?


**************

Golfblogg, bestu bloggin:

Ég spilaði Bakkakotið fyrir nokkrum dögum, í fyrsta sinn í mörg mörg ár. Kúkavöllur. Ég spilaði 9 holur, var ömurlegur, paraði samt þrjár og fékk einn fugl. Með í för var Ommidonna. Hann fór með sigur af hólmi, sanngjarnt. Ég náði hins vegar næstum því að gera þetta spennandi. Með þrjár holur eftir leiddi hann með þremur holum. Ég kláraði með par-fugl-par. Það dugði samt bara í eina holu til baka.

Á sunnudagsmorgun fór ég svo á Korpuna. Mót.
Ég/Óli vs. Ommidonna/Reynir handboltamarkmaður.
Það er skemmst frá því að segja að ég átti ekki eitt gott golfhögg á þessum 18 holum. Ekki eitt. Núll green í regulation. Núll pör. Óli var ekki mikið betri, en þó skömminni skárri.

Ommidonna og Reynir spiluðu hins vegar glimrandi vel og röðuðu inn punktunum. Öruggur sigur hjá þeim.

Efnisorð: ,