sunnudagur, apríl 29, 2007

Fyrsta golfblogg ársins...

Þá er komið að því sem allir lesendur mínir hafa beðið eftir: Fyrsta golfblogg ársins.

Snemma í morgun var haldið lítið mót á Þorlákshafnarvelli, erfiðasta golfvelli alheimsins. Hauger Woods og Haukur Duval léku gegn Jesper Olevik og Bijay Swing. Punktur fyrir besta skor, punktur fyrir samanlagt og punktur fyrir fugl (reyndi ekki mikið á þessa síðustu reglu, en hún átti eftir að koma mikið við sögu).

Það var ekki boðið uppá hágæðsgolf í hávaðaroki, en við vorum allir að reyna. Olevik og Swing byrjuðu betur og áttu 3 punkta eftir 8 holur, og fóru að rífa kjaft. Eftir 9 holuna var allt jafnt, þrátt fyrir mótmæli Swing um hvort hann hafi verið out-of-bounds. Áfrýjun hans var hafnað af hinum skelegga lögfræðingi Duval.

Woods/Duval byrjuðu svo betur á seinni 9, en Olevik/Swing komu sterkir til baka, og höfðu náð öruggu forskoti eftir Snákinn, 13. holu vallarins og klárlega erfiðustu holu í heimi. Snákurinn glefsaði tvisvar sinnum í mig með eitri, en sem betur fer átti ég til móteitur.

Móteitrið kom á 16. braut, stuttri par 3. Olevik sló fyrstur, fallegt högg með 8 járni og Swing var langur. Duval sló næstur og var mjög stuttur. "Pressuhögg, úúúúú" heyrði ég óljóst frá áhorfendum. Ég steig upp og sló unaðslegt högg með 8 járni, 5 metra frá holu. Púttið setti ég svo ofaní, enda "var ekki mikið í því". Fugl. 3 punktar í heildina og forysta.

Olevik/Swing jöfnuðu á 17. holu og spennan í hámarki. Þegar hér er komið sögu vorum við búnir að leika í 5 klst og 15 mín.

18. holan var æsispennandi og réðist ekki fyrr en á síðasta pútti, sem Duval setti niður af um hálfs meters færi, fyrir pari. Öruggur sigur og áhorfendur trylltust.

Golfblogg, bestu bloggin.

Efnisorð: