þriðjudagur, mars 03, 2009

Ganga - Reynisvatn

Klukkan 14:00 lagði ég af stað í gönguferð. Það var flott veður, nánast logn, smá frost og það snjóaði. Hugmyndin var að ganga að Reynisvatni og til baka. Ég var samt ekki alveg viss hvernig ég ætlaði að komast þangað.

Ég fór yfir Suðurlandsveginn og í austur meðfram Rauðavatni. Þar rakst ég fljótlega á dagsgömul (gisk) spor upp hlíðina. Ég fylgdi sporunum en þeim fækkaði alltaf eftir því sem ég fór lengra. Sé ég svo ekki kennileiti fyrr en ég er skammt frá Leirdalnum og stefni niður brekku í átt að Grafarholti (Golfskála GR). Þarna áttaði ég mig á því að ég hafði ekki alveg farið rétta leið.

Ég hitti mann á þessum slóðum sem þekkti vel til. Hann benti mér á hvaða mistök ég hafði gert. Það var sem sagt annar stígur sem ég hefði átt að fara. Gott og vel.

Ég beygi þá inná Grafarholtsvöllinn, við 7. teig, geng framhjá 6. flöt, 8. braut og flöt, sker svo 9. brautina til austurs, og geng svo meðfram hlíðinni í átt að Moggahöllinni í Hádegismóum. Á þessum slóðum fékk ég hugmynd. Hugsanlega meira um hana síðar. Þaðan fór ég hefðbundna leið heim.

Vegalengd: 7,3 km.
Tími: 75 mínútur.
Tónlist: U2.
Dýralíf: Fjórir krummar, brúnn hestur, smáfuglar.
Mannlíf: Maður sem ég talaði við. Maður á hesti.

Ég mun gera aðra tilraun til að heimsækja Reynisvatn síðar í þessari viku.

Efnisorð: , ,