laugardagur, júní 03, 2006

Hjólreiðar í Kópavogi...

“Það er gott að búa í Kópavogi” sagði Gunnar Jabba Birgisson fyrir sveitastjórnarkostningarnar á dögunum. Það má vel vera, enda er bænum stjórnað af Sjálfstæðismönnum og Framsóknarmönnum. Reyndar komst Smúll Ö. Erlingsson ekki til valda, en hans tími mun koma.

Ég þekki samt aðallega nýju hverfi Kópavogs, svona í 1 km radíus frá Smáralind, ef það er einhver mælikvarði. Auk þess þekkir maður aðeins austasta hluta bæjarins. En gamla Kópavog þekki ég lítið og fór því á stúfana með hjólið og Ipod Mini að vopni.

Leiðin lá frá Seljahverfinu yfir í Kópavog, upp Hlíðarhjallann, að Digranesskóla, vestur eftir Digranesvegi/Borgarholtsbraut og inná Kópavogsbraut. Þarna er ég ca staddur hjá sundlaug Kópavogs og klárlega kominn í gamla bæinn. Ég held svo áfram eftir Kópavogsbrautinni þangað til hún verður Kársnesbraut. Þar staldraði ég aðeins við.

Frá Kársnesbrautinni sér maður vel yfir Fossvoginn, og Nauthólsvíkin, flugvöllurinn og kirkjugarðurinn blasa við manni. Auk þess sá ég í fyrsta sinn (að ég held) hin margumtöluðu Löngusker. Veit ég ekki hvort það var flóð eða fjara, en skerin sáust vel. Ég veit það ekki, er þetta málið? Ég held að málið sé allavega klárlega að færa flugvöllinn , og það sem fyrst. Ég er núna að skoða þetta á korti í nýju símaskránni og myndir ljúga sjaldnast...

Flugvöllurinn tekur ca jafn mikið pláss og landsvæðið innan Snorrabrautar – Hringbrautar – Tjarnargötu – Sæbrautar. Niðurstaða: burt með flugvöllinn.