þriðjudagur, maí 16, 2006

Veitingastaðaspjall...

Ég brá mér á veitingastaðinn Red Chili í hádeginu í dag ásamt vinnufélögum. Red Chili er einnig staðsettur í gamla sjónvarpshúsinu á Laugaveginum, og hét áður Old West.

Þetta var í fyrsta skiptið sem ég borðaði á staðnum undir nýju nafni. Áður var ég MJÖG hrifinn af Old West.

Í dag fékk ég mér gráðostaborgara. Viðbjóður segja sumir, nammi namm segi ég.

Borgarinn var góður, en ekki afbragð eins og hinn goðsagnakenndi 'Gleymérei' á Vitabar (það er sko alvöru borgari gott fólk). Franskarnar voru ekki alveg nógu góðar. Þær voru full steikarolíu-kenndar. Þessu skolaði ég niður með ísköldu coca cola, sem var svona kalt því glasið var gjörsamlega fyllt af klökum. Það er kostur þegar boðið er uppá fría áfyllingu, en er STÓR ókostur þegar svo er ekki. Rán um hábjartan dag myndi ég kalla það.

Fyrir þetta borgaði ég rúmar 1000 kr, og var þá búið að taka tillit til einhvers starfsmannaafsláttar sem ég hef þarna.

Niðurstaða:
Þangað til að búið verður að opna American Style á gamla Pizza 67 í Tryggvagötunni mun ekki verða alvöru samkeppni til staðar þegar kemur að hamborgurum í miðbæ Reykjavíkur. Þangað til verður meðalmennskan í fyrirrúmi.

Hamborgarabúllan æpa sumir. "Of naumt skammtað", æpi ég á móti.

Góðan daginn og góða nótt.
Kvöldvaktinni er lokið,
Hagnaðurinn