miðvikudagur, apríl 05, 2006

???

Hægt er að nálgast Hér & Nú á vefnum visir.is. Í nýjasta tölublaðinu á vefnum er eftirfarandi viðtal við Ásdísi Rán (feitletrun og skáletrun mín):

Ásdís Rán Gunnarsdóttir hjá Model.is og Garðar Gunnlaugsson knattspyrnukappi kynntust fyrir rúmum þremur árum og hefur varla slitnað slefan á milli þeirra síðan, slík er ástin. Þau eiga saman soninn Hektor Bergmann og Ásdís átti fyrir soninn Róbert. Fjölskyldan býr sundur og saman en það ríkir mikil hamingja hjá litlu fjölskyldunni. „Ég sá alveg ógeðslega sætan strák sem var að vinna í Retro í Kringlunni, ég var búin að sjá hann þarna ásýndar áður. Ég ákvað að misnota aðstöðu mína og strunsa inn í búðina og veiðahann sem módel,“ segir Ásdís Rán og hlær. Hún segist strax hafa orðið sjóðheit fyrir folanum unga og hann hafi tekið vel í að vera módel hjá henni. „Ég vissi ekkert hver hann var þá, hann var bara nítján ára, lítill kettlingur, en alveg ofboðslega fallegur. Svo komst ég að því síðar að hann var fótboltastrákur og bróðir Arnars og Bjarka.“

Ungur fylgdarsveinn

Ég gat varla hætt að hugsa um hann eftir þetta svo ég hringdi í hann og bað hann um að koma upp á módelskrifstofu til mín í smá viðtal. Hann kom svo upp á skrifstofuna og þar kviknaði strax neisti. Ég pældi voða mikið í hvað ég ætti að gera til hala honum inn og ákvað að lokum að bjóða honum með mér á áramótaball sem ég sá um fyrir OZ. Á ballinu urðum við svo endanlega ástfangin og slefan hefur eiginlega ekki slitnað á milli okkar síðan.“ Ásdís segir að þau hafi bæði verið skotin hvort í öðru áður en þau hittust en hann þó ívið lengur. „Hann var búinn að láta sig dreyma um mig út af myndum úr blöðum síðan hann var lítill strákur,“ segir Ásdís glettin, en hún er fjórum árum eldri en hann.

Bjó til yndislegan mann

Ásdís segist hafa reynt að fara hægt í sakirnar fyrst um sinn. „Ég tók hann nú ekki með heim það kvöld. Ég leyfði honum að þjást í smá tíma. Hann var nú bara nítján og ég hafði aldrei verið með svona ungum áður.“ Það leið þó ekki á löngu þar til fór að hitna í kolunum og innan skamms voru þau orðin eitt heitasta par landsins. „Ég bara tók hann í mínar hendur. Það var ekkert annað að gera í stöðunni, og bjó til þennan yndislega karlmann sem ég á í dag. Hann elskar mig svo mikið að hann er að springa eins og hann segir alltaf,“ segir Ásdís en bætir við að ástin sé endurgoldin og gott betur.

Trúlofun og pása

Garðar hefur beðið Ásdísar tvisvar og í bæði skiptin hefur hún sagt já. „Við trúlofuðum okkur svo á afmælisdaginn minn 12. ágúst eftir að hafa verið saman í sjö mánuði. Svo tók bara við ást og meiri ást. Við tókum reyndar smá pásu í tvo mánuði til að átta okkur aðeins. En við vorum ekki lengi að sjá að við gætum ekki hvort án annars verið og vildum deila ævinni saman.“

Bað hennar með SMS

Garðar tók ansi frumlegan vinkil á bónorðið í seinna skiptið. „Hann sendi mér SMS með ljóði sem hann var búinn að vera að vinna að lengi. Rosalega fallegt ljóð. Ég fékk bara tár í augun, mér fannst þetta svo fallegt og svaraði: Já.“

Ásdís og Garðar ætla að gifta sig í Dómkirkjunni í sumar og verður það eflaust glæsilegtbrúðkaup. „Hann er svo hlýr ogmetró. Hann hringdi í mig frá Skotlandi í síðustu viku bara til þess að segja mér hvað hann hlakkaði til að sjá mig upp að altarinu. Hann er einn þarna í fótbolta bara og þegar ég er hérna heima og þarf að vinna söknum við hvort annars rosalega.“

Hús og jeppi í Skotlandi

Fjölskyldan býr sundur og saman vegna þess að hjónaleysin vinna hvort sínum megin við hafið. „Við búum fjögur saman, en það er flakk á okkur. En við erum með fínt hús og jeppa til afnota í Edinborg þar sem Garðar spilar þannig að það væsir ekki um okkur þar úti.“ Ásdís segir ástina aukast hjá þeim með hverjum deginum sem líður. „Ég fer bráðum út til hans í einhvern tíma. En ég þarf að vera hérna heima með annan fótinn út af vinnunni. Það getur verið að Garðar spili hérna heima í sumar en það er óráðið enn. Hann er í láni hjá Dunfermline og það er ekki komið á hreint með framhaldið. En það er æðislegt í Skotlandi og æðislegt á Íslandi. Vonandi getum við bara verið eins mikið saman og hægt er með hækkandi sól,“ segir Ásdís að lokum með ástarglampa í augunum.

Það er nefnilega það.
Hvað ætli stór hluti af þessu sé tilbúningur "blaðamannsins"?