fimmtudagur, mars 09, 2006

Sægreifinn...

Í hádeginu í dag fór ég á Sægreifann ásamt Hörpu, Gullu systur og vinnufélaga hennar (Steini og Helga komu aðeins seinna, en lögðu ekki í þetta).

Ég fékk mér humarsúpu, ásamt brauði og vatni. Ábót á súpuna var innifalin. Verð = 650 kr.
Súpan var ágæt, nokkuð bragðmikil, sérstaklega heit, en samt nokkuð þunn; vantaði rjómabragðið. Einn humarhali fylgdi með hvorri umferð. Brauðið var örugglega 1 dags gamalt snittubraut (hefði mátt vera nýtt). Vatnið var gott. Gulla, sem er reynslubolti á þessum stað, sagði að þetta væri lakasta súpan sem hún hefur smakkað þarna.

Þetta var annars mjög sérstakur staður. Þetta er í rauninni bara eins og að borða inní fiskibúð; mjög furðulegt og erfitt að útskýra, en gaman að upplifa. Rás 1 í gangi í útvarpinu, myndir á veggjum af stórum fiskum, gamall maður (afi Gunnars Jarls?) færði okkur okkur súpuna klæddur í bláa gúmmíhanska, en samt í skyrtu og með bindi undir eldhús-svuntu.

Að loknum mat vorum við beðin um að skrifa í gestabók, sem við og gerðum.
"Það komu 18 manns hérna í hádeginu í gær, en ég gleymdi að láta þau skrifa í gestabókina," sagði gamli maðurinn við þetta tækifæri.

Auk súpunnar er boðið uppá skötusel og/eða hrefnukjöt á spjóti. Það leit fáránlega vel út hjá mönnunum á næsta borði. Gamli kallinn grillar þetta víst á gasgrilli, og færir manni ásamt kartöflusalati. Verð = 790 kr.
Ég ætla að prófa skötuselinn næst!

Ég mæli með Sægreifanum á Geirsgötu fyrir þá sem vilja prófa eitthvað nýtt og öðruvísi. Öðrum bendi ég á American Style og Nings.

Góðar stundir,
Hagnaðurinn