Takk - Sömuleiðis ... dómur Morgunblaðsins (tekið af www.mbl.is)
Takk...er fjórða eiginlega hljóðversplata Sigur Rósar. Sveitina skipa Jón Þór Birgisson, Kjartan Sveinsson, Georg Hólm og Orri Páll Dýrason. Lög og textar eru eftir Sigur Rós. Strengjasveitin Amina á hluta í lögunum Gong og Mílanó og útsetur strengi. Aðrar útsetningar eru Sigur Rósar. Upptökustjórn Ken Thomas. Útgefandi Smekkleysa og EMI.
EFTIRVÆNTINGIN er ennþá jafnmikil. Óbærileg. Ný plata frá Sigur Rós er enda ekkert minna en stórtíðindi í íslensku tónlistarlífi, og reyndar ekki aðeins íslensku heldur hefur plötunnar verið beðið með óþreyju um heim allan. 250 þúsund fyrirfram pantanir á hjá netsölunni Amazon.com tala þar sínu máli. Við erum að tala um ein stærstu tíðindi ársins í framsækinni rokktónlist, og það með réttu og án allrar þjóðernisrembu. Svo stór er sveitin orðin. Svo mikilvæg. Og eftir vandlega íhugun og ítrekaða hlustun þá segir manni svo hugur að Takk...eigi aðeins eftir að gera Sigur Rós að ennþá stærra nafni, ennþá mikilvægari hljómsveit, því hún uppfyllir allar þær væntingar sem aðdáendur sveitarinnar gera til hennar og jafnvel gott betur. Um leið verður reyndar að segjast sem er að hún er ögn fyrirsjáanlegri en maður hafði búist við af öðrum eins ólíkindartólum, af eins leitandi tónlistarmönnum og Sigur Rósar-menn eru óumdeilanlega. Platan er sú aðgengilegasta og mest grípandi af þeim fjórum sem þeir hafa sent frá sér - að undanskildum hliðarverkefnum á borð við balletverk og kvikmyndatónlist - og hefur hún m.a. að geyma lög - einkum "Gong" og "Hoppípolla" - sem komast næst því, af allri tónlist sem Sigur Rós hefur samið til þessa, að geta talst hefðbundin rokklög að byggingu og áferð. Það eru líka frábær rokklög og gott ef ekki er bara hægt að flytja þau ósködduð hjá Letterman!
Þessi og önnur lög á plötunni sverja sig ýmist í ætt við Ágætis byrjun - smáskífan "Glósóli", "Hoppípolla" og hið ægifagra "Svo hljótt" - eða ( ) - "Sæglópur", "Mílanó" og "Andvari". Það má jafnvel greina nokkra hljóma, t.d. í "Sæglópur", sem minna á hina rafskotnari og tilraunakenndari frumraun sveitarinnar Von. Það mætti því líta á Takk... sem einhvers konar samantekt á fyrri verkum, farsælar niðurstöður 12 ára langra músíkrannsókna. Og þvílíkar niðurstöður. Þvílík arfleifð. Án allra tvímæla áhugaverðasta og fegursta tónlist sem íslenskir listamenn hafa skapað á sviði framsækinnar rokktónlistar.
En um leið og lögin ellefu bera hvert á sinn hátt í sér vísanir í fyrri verk, eru þeim náskyld, þá fela þau í sér greinilegar vísbendingar um að sveitin er í stöðugri framþróun og verður sífellt sterkari.
Styrkur þessi felst ekki hvað síst í því hversu heilsteypt tónlistin er orðin, skotheld og útpæld í allri sinni "slysalist" - eins og þeir féllust á að kalla tilviljanakenndu og tilraunaglöðu listsköpun sína í Morgunblaðsviðtali við Árna Matthíasson á dögunum. Um leið og þeir hafa náð fullkomnum tökum á listformi sínu er það einmitt þessi slysalist sem ríður baggamuninn, gerir annars útpælt tónlistarkonseptið spennandi og grasserandi í framandi ævintýrum. Og það er samruni þessa útpælda og "slysalega" sem gerir líka að verkum að jafnvel þegar eitthvað á skortir, er alltaf eitthvað annað áhugavert í gerjun, eitthvað svo æsilegt að það skyggir gjörsamlega á annmarkana. Þegar andagiftina skortir t.a.m. í lagasmíðunum koma þeim til bjargar aðrir og jafnvel ennþá dýrmætari hæfileikar; djúpt og mikið "músíkalítet", eins og þeir myndu kalla það gömlu skríbentarnir: einstakur hæfileiki til að útsetja og byggja upp lögin, þar sem helstu kostir eru takmarkalaus hugmyndaauðgi og fádæma næmni fyrir átakanlega grípandi stíganda. Þessa hæfileika verður að telja bland beggja, tónlistarleg náðagift og gagnkvæmur skilningur, ávöxtur þess hversu lengi og náið fjórmenningarnir hafa unnið og skapað tónlist saman. Skýrasta dæmið um þetta er lagið "Sé lest", lag sem væri lítið meira en tilþrifasnautt Tubular Bells-stef ef ekki hefði verið fyrir snilldarlega útsetningu og einkar vel til fundna lausn í bláenda þessa tæplega átta mínútna lags þegar marserandi lúðrasveit hleypir því upp og gæðir nauðsynlegum blæbrigðum og stóraukinni vigt. Og annars hefðbundið gítardrifið rokklag eins og "Gong" er drifið upp á æðra plan með geggjuðum trommuleik Orra, kraftmiklum, frumlegum og karakterríkum; minnir mann á Sigtrygg Baldursson í sínu besta formi eða jafnvel Steve Jansen úr Japan, bróður Davids Sylvians. Þetta eru kristaltær dæmi um snilligáfu fjórmenninganna. Öll tónlist sem þeir skapa og senda frá sig hefur eitthvað við sig, eitthvað alveg sérstakt sem sker hana frá og hefur yfir nær alla aðra.
Þá er enn ógetið hugsanlega mestu snilldarinnar á plötunni, lokalagsins "Heysátan"; lítill og ljúfur lagstúfur sem lætur kannski lítið yfir sér en er hreint ótrúlega áhrifamikill, fallegur og haganlega saminn. Og þar kemur kannski skýrast í ljós hversu miklu máli textinn getur skipt, jafnvel þótt hann sé aðeins nokkur orð en þar syngur Jónsi af fádæma tilfinningaþrunga um gamlan bónda sem verður undir heysátu og kveður þennan heim, mettur; "...og sáttur halla nú höfði hér." "Tvímælalaust fallegasta lag sem samið hefur verið um vinnuslys," er lýsing Árna Matthíassonar á laginu og verður ekki orðuð betur. Þetta lag sker sig um margt frá öðrum á plötunni, hefur aðra byggingu, er lágstemmdara og að manni virðist í öðrum takti. Greinilegt skref í aðra átt, hugsanlega næsta skref hjá Sigur Rós, vísbending um það sem koma skal. Frumdrög að nýrri og einkar lofandi músíkrannsókn? Vonandi.
Það verður ekki hjá komist hjá að velta titli plötunnar fyrir sér, því hann felur í sér eðli Sigur Rósar-manna sem listamenn. Hæverska og auðmýkt er nefnilega þeirra höfuðdyggð, lotning fyrir þeirri gift sem þeim var gefin. Djúp og hrein virðing fyrir þeim sem nenna að hlusta og gefa þeim gaum. En örlæti þeirra sjálfra og framlag til íslenskrar tónlistar verður seint nægilega metið. Við erum nefnilega að tala um hljómsveit sem ber höfuð og herðar yfir allar aðrar sem fram á sjónarsviðið hafa komið í sögu íslenskrar tónlistar. Hljómsveit sem nú hefur sent frá sér þrjár af fimm bestu plötum íslenskrar rokksögu, algjör yfirburðaverk. Fyrir slíka gjöf er því lítið annað hægt að segja en takk sömuleiðis.
Skarphéðinn Guðmundsson
<< Home