föstudagur, desember 24, 2004

Orlando - Miami: 1. - 9. nóv 2004

Mánudagur 1. nóv. 2004

Hagnaðurinn mætti eldhress til vinnu á þessum blauta mánudagsmorgni, enda beið hans sérlega spennandi utanlandsferð síðar þennan dag. Því var einungis unnið til hádegis.

Róbert Traustason (e. Chase Edmunds) kom á einhverjum tæknilegum jeppa að sækja okkur um klukkan 14:00. Þaðan lá leiðin uppí Þórðarsveig þar sem Daníel (e. President) og Kristjana biðu spennt. Við vorum einnig spennt.

Farangur var í lágmarki og einungis allra helstu nauðsynjar teknar með, og varla það. Hins vegar voru tæplega 3 tómar töskur með í för. Það átti að versla. Það var ljóst og þar af leiðandi útlitið dökkt. Þið skiljið.

Við töldum okkur vera mætt tímanlega í Leifsstöð. Núna er búið að stækka brottfarar-svæðið og er það orðið mun flottara og rúmbetra. En þar voru engin leðurrúm (kem að því síðar). Allir voru í góðum gír og planið að tjekka sig inn saman, þar sem framundan var ca. 8 tíma flug. Nei nei, kom þá í ljós að ekkert okkar gat setið saman.

Málið bjargaðist hins vegar skömmu síðar þegar smjörgreiddur-síðhærður-skipt-í-miðju-Opaltyggjandi gæi kom og reddaði málunum; þrátt fyrir að ofdekruð suðurnesja-brussa hafi gert allt sem í hennar valdi stóð til að eyðileggja þetta allsherjar plot sem var í gangi. Niðurstaða: Við vorum öll sett í Saga-Class.

Það er þægileg tilfinning að koma uppí Flughöfn. Rölta um, kíkja á einhver tímarit, fá sér einn kaldan o.s.frv. Best er þó að borða vondan mat sem seldur er á háu verði. Það kallast tvöfalt tap, svo úr verður hagnaður.

Brottför frá Keflavík var um klukkan 18:00 að staðartíma. Við vorum komin í Saga-Class sæti með svona travel-kit og teppi og eitthvað. Nei nei. Þá kemur bara einhver dude og færir tjaldið svo við erum bara í Saga-Class sætum á venjulegu farrými. Við fengum því betri sæti, en ekkert video á leiðinni, heldur bara svona blátt tjald. Hagnaðurinn telur samt að hér hafi verið um hagkvæm skipti að ræða.

Flugið var sérlega þægilegt. Lítið um hristing, og engin svarthol að reyna að soga okkur til sín. Það var því mikil ánægja að lesa ársskýrslu Flugleiða frá því í fyrra, sem og kennslubók í Þáttum í Tölfræði. Þess á milli var sofið. Lent var í Orlando um klukkan 20:10 að staðartíma.

Margan manninn kvíðir fyrir því að koma til Bandaríkjanna. Fólk óttast jafnvel að vera sent beinustu leið heim ef það svarar einhverjum spurningum ekki rétt hjá útlendingaeftirlitinu. Ég veit það ekki. Við vorum á ferðinni daginn fyrir forsetakostningar Bandaríkjanna og því ágætur viðbúnaður. Fyrst var farið í gegnum Útlendingaeftirlitið. Það er sko mesta spennan. Þar eru spurningar, fingraför tekin, og svona crap. Því næst er náð í töskur. Svo er farið í gengum tollinn og allar töskur gegnumlýstar. Þriðja stopp er svo að láta einhvern fá töskurnar “og maður nær svo í þær annars staðar”. (Þetta stopp er nýtt held ég). Númer fjögur var svo málmleitartæki og gegnumlýsing á handfarangri. Þetta gekk þó allt vel og við runnum í gegn eins og bráðið smjör.

Þegar við höfðum náð í þessar fáu töskur var farið í að græja bílaleigubílinn. Við vorum búin að leigja Minivan, og fengum Ford Freestar. Gæðabíll. Hvítur á lit. Rúmgóður. Sjálfskiptur. Fín loftræsting. Þetta eru atriði sem skipta máli. Samt enginn DVD-spilari. Það voru smá vonbrigði, en ég missti engan svefn útaf því.

Hótelið okkar í Orlando var staðsett á International Drive. Það er gata með mörgum hótelum og enn fleiri veitingastöðum. Okkar hótel hét/heitir Best Western Plaza. Ég hélt alltaf að Plaza þýddi að eitthvað með því nafni væri voða flott. Það er misskilningur. Best Western Plaza hótelið var ekkert sérstakt. Það var samt ekkert slæmt. Hef séð verri hótelherbergi í gegnum árin. Til dæmis gisti ég einu sinni á Knights Inn í skuggalegu hverfi í New Orleans. Svo var líka þythokkíborð þarna og svona gift shop. Hreint ekki slæmt.

Þegar búið var að koma sér fyrir á hótelinu var ákveðið að kíkja aðeins út. Fá sér eitthvað. Éta. Drekka. Klukkan var svona 22:00 (það er 03:00 ísl tíma). Fyrir valinu varð einhver Sportsbar. Þar var engin önnur en Mindy að afgreiða okkur. “Oh Mindy, you came and you saw and you served us”. Hún stóð sig með prýði. Fyrsta djúpsteikta máltíð ferðarinnar var borin á borð og ískaldur bjór með. Monday Night Football var í á risaskjá.

Komið sér í bælið um klukkan 00:00.
Mikil þreyta.
Fyrsta degi lokið og mikið framundan.


Þriðjudagur 2. nóv. 2004

Það var vaknað snemma þennan morguninn. Rétt um klukkan 09:00. Maður er enn að jafna sig á tímamismuninum. Hann er sem sagt 5 tímar fyrir þá sem voru ekki búnir að fatta það.

Við fórum á hinn skemmtilega stað Denny´s til að borða morgunmat. Það er einmitt svona morgunverðarstaður / eftir-fyllerí-staður. Sá einmitt Latrell Sprewell þar einu sinni, ef mig minnir rétt. Getur verið að ég hafi bara verið fullur.

Ég fékk mér eitthvað gómsætt. Beikon, egg, steiktar pulsur og fleira með. Nokkuð hressandi svona í morgunsárið. Hreint ekki slæmt. Og gott ef ég slapp ekki alveg við alla djúpsteikingu, en fékk í staðinn nóg af steikingu.

Í dag átti að versla. Versla mikið. Stefnan var tekin á Orlando Premium Outlets. Við verslum bara í premium búðum, gistum á plaza hótelum og fljúgum á Saga-Class... það sem nemar geta ekki leyft sér í dag!!!

Byrjuðum á að villast í Belz outlettið. Ekkert Premium eða Plaza-ískt við það. Þurftum því að taka á okkur smá krók og þrumuðum okkur útá I-4; en það er þjóðvegurinn sem liggur í gegnum alla borgina. Vegurinn sá tók okkur alla leið að OPO.

Orlando Premium Outlet er ágætis verslunarstaður. Sérstaklega þegar gengi dollarans er um 68 ISK/$. Outlettið er hannað á einfaldan hátt. Þetta er svona hringur eiginlega, með veitingastöðum í miðjunni. Þarna eru öll helstu merkin, hvað þau nú öll heita. Stelpur, þið þekkir þetta betur en við strákarnir.

Til að gera langa sögu stutta þá var verslað mikið þarna. Byrjað ferðina sterkt. Ef mig minnir rétt þá fór ég 4 ferðir útí bíl til að tæma; þ.e. pokarnir voru orðnir og of margir til að bera. Það á til að gerast þegar maður fer að versla með Hörpunni á erlendri grundu. Sumt breytist einfaldlega ekki, sama hvað maður tuðar.

Sjálfur keypti ég mér þarna golfskó, golfjakka og golfbuxur, bindi, sokka. Það voru allt saman frábær kaup. Eins og öll önnur kaup í ferðinni, því ég var ánægður með allt sem ég keypti. Allavega svona in the short run.

Veitingasvæðið var ákveðin vonbrigði. Það voru reyndar ótrúlega margir staðir þarna, en enginn sem seldi ískaldan bjór. Hvað þá heitan. Maður lét því nægja að fá sér “New York Style” pizzusneið með pepperoní. Slík sneið er á stærð við tólf tommu pítsu. Þetta var fyrsta pítsusneið ferðarinnar, en alls ekki sú síðasta.

Um klukkan 18:30 var bíllinn orðinn fullur og fólk orðið nokkuð svangt. Því var spurt til vegar á næsta Outback Steakhouse. Það er ástralskur veitingastaður sem er í miklu uppáhaldi hjá Hagnaðinum og frú. Okkur til mikillar ánægju reyndist einn slíkur vera í einungis 2 mínútna fjarlægð. Chrissy afgreiddi okkur. Við Harpa fengum okkur djúpsteiktar rækjur í forrétt. Mjög gott. Í aðalrétt fékk ég mér Drover´s Platter, en hann samanstendur af svínarifjum og kjúklingabringum. Vel útilátið og einstaklega bragðgott. Þessu var að sjálfsögðu skolað niður með ísköldum risastórum Fosters. Hvað annað? Aðrir við borðið fengu sér Alice Springs Chicken. Það er einnig einstakur réttur.

Harpa fékk sér svo einhvern ís í eftirrétt. Hún taldi það vera hápunkt ferðarinnar fram að þessu.

Að loknu áti var svo brugðið sér heim á leið á hótelið. Allir voru vel mettir. Nálægt ælu af seddu, slíkt var átið. En það var ástæðulaust að láta hér staðar numið. Því var brugðið sér á barinn hinum megin við götuna.

Sá staður heitir Bahama Breeze. Þar var lifandi músík þar sem einhver blökkumaður spilaði þekkt lög á eitthvað framandi hljóðfæri og söng með. Þetta var mjög sérstakt, og allt að því leiðinlegt. Allavega var tónlistin full há.Við fengum okkur þarna bjór fram Bahama sem heitir Aruba. Þið vitið, eins og segir í laginu. (Aruba Jamaica ooo I wanna take you, Bermuda Bahama come on pretty mama). Bjórinn var góður en það var erfitt að koma honum niður, því plássið var lítið í mallakút. Það var því rúllað heim á leið eftir einn drykk. Slíkt var úthaldið.

En þá kom smá surprice. Því ekki að kíkja aðeins í Wal-Mart. Klukkan 23:00 að kvöldi. Það þótti ekki svo galin hugmynd. Kannski ekki góð. En ekki galin.

Wal-Mart var í 10 mínútna fjarlægð. Þetta er stór búð sem selur eiginlega allt. Dót sem þig vantar ekki, en værir alveg til í að eiga. En fyrst og fremst er þetta matvöruverslun. Okkur vantaði ekki matvöru. Þess í stað var skoðað í smá tíma þar til allir voru orðnir agalega þreyttir.

Já, í dag voru líka forsetakosningar í USA. Það fór ósköp lítið fyrir þeim þarna úti. Ekki nema ein geðsjúk kona sem var með áróðurspjald skammt frá Wet n´ Wild.

Í heildina nokkuð góður dagur.
Mikið borðað, mikið verslað, en lítið drukkið.





Miðvikudagur 3. nóv. 2004

Í dag var komið að því að fara í fyrsta skemmtigarðinn (e. Theme Park). Einnig var NBA leikur á dagskrá.

En fyrst var borðað.
Að þessu sinni var farið á annan morgunverðarstað; International House of Pancakes (IHOP). Allir nema ég fengu sér ommelettu og gos. Ég fékk mér hins vegar egg með einhverju og appelsínusafa. Ég var sá eini sem kláraði matinn minn. Ég var líka sá eini sem kvartaði ekki hversu vont þetta hafði verið. Reyndar er þetta svona eins og að borða á Nonnabita: Gott á meðan því stendur, en manni líður ekkert sérstaklega vel eftir á. Það sama á raunar við um margan mat.

Eftir mat var svo brunað í Universal garðana. Við fórum í Universal Studios. Einnig er hægt að fara í Island of Adventures. Sá síðarnefndi er meira svona action-garður með rússíbönum og slíku. Rússíbani er skrítið orð.

Við fórum í öll helstu tækin: Terminator 3-D, Back to the Future, Men in Black, Jaws, Mummy, Shrek 4-D, auk ótal verslana. Þetta var mikil skemmtun og jafnvel hræðsla hjá sumum. Nefni engin nöfn. B.T.T.F. og Mummy stóðu uppúr.

Þessir garðar þarna í Orlando eru alger snilld en erfitt er að útskýra hvað það er sem er svona frábært. Universal er meira svona fullorðins, allavega samanborið við Disney. Þó hafði ég áður komið í Studios garðinn vorið 2000. En það var vel þess virði að koma þarna aftur. Hins vegar næst þegar ég fer, þá mun ég pottþétt fara í Island of Adventures garðinn. Hann er svona fullorðins fyrir lengra komna.

Um klukkan 18:00 var garðurinn yfirgefinn og stefnan tekin og T.D. Waterhouse Center, en þar spilar NBA-liðið Orlando Magic. Fyrst þurftum við að fá leiðbeiningar hvernig við ættum að komast á staðinn. Það reyndist býsna erfitt, því enginn virtist vita hvar þessi gríðarstóra íþróttahöll var staðsett. Það tókst hins vegar þegar að lokum, þegar búið var að spyrja svona 15 manns. Eru Bandaríkjamenn illa upplýstir?

Reyndar fengum við slæmar fréttir. Áætlaður ferðatími reyndist vera um 45 mínútur, sem var um hálftíma lengur en við höfðum gert ráð fyrir (byggt á tilfinningu undirritaðs) þar sem það var rush-hour. Ferðin gekk sæmilega allt þar til við virtumst alltíeinu vera villt í einhverju slæmu hverfi niðrí-bæ (e. Downtown). Kom þá upp í hugann myndin Judgement Night. En allt fór nú vel eftir leiðbeiningar vegfaranda og Hagnaðurinn braut nokkrar umferðarreglur til að komast á áfangastað.

Þetta var fyrsti leikur vetrarins og gestirnir voru Milvaukee Bucks með Tony Kukoc fremstan í flokki. Í liði heimamanna eru þekktastir Grant Hill og Steve Francis. Það var nánast húsfyllir. Við vorum í fínum sætum, á neðra svæði, á ská fyrir aftan körfuna.

Áður hef ég farið á 2 NBA leiki. Fyrst sá ég Charlotte Hornets mæta Utah Jazz. Utah vann örugglega í sæmilegum leik. Því næst sá ég Charlotte mæta mínum mönnum í Los Angels Lakers. Það var frábær leikur þar sem Kobe Bryant skoraði sigurkörfuna um leið og tíminn rann út.

Þetta kvöld fengum við einnig flottan leik. Mikið um troðslur og læti og stemningin nokkuð góð. Meðan á þessu stóð var troðið í sig óhollum mat og bjór. American Style. Merkilegt með Kanann að hann virðist bara taka fyrri hálfleikinn í það að éta, og svo byrjar fjörið í seinni hálfleik. Fór svo að lokum að Orlando unnu með sigurkörfu Steve Francis. Þetta var gríðarlega spennandi og frábær endir á flottum leik.

Að leik loknum tók við önnur eins spenna, en hún fólst í því að koma okkur inná I-4; veginn sem myndi taka okkur niðrá International Drive. Við byrjuðum á að fara inní hverfið (e. Hood). Það voru strákar í hverfinu. Veit ekki hvort þeir hafi verið reiðir, en það vill oft vera þannig með þessa kappa í hverfinu. Þarna sáum við heillandi veitingastað sem ber nafnið “Mom´s kitchen” eða eldhúsið hennar mömmu. Þar myndi ég aldrei borða. Eftir svolítinn tíma og nokkrar rangar beygjur komumst við loksins inná I-4. Það var léttir.

Þegar inná International Drive var komið var hugmyndin að heilsa aftur uppá hana Mindy á kjúklinga-vængja-sportsbarnum. Því miður var þessi elska ekki við. En við fengum bjór og einhverja óhollustu. Lakers var í imbanum gegn Utah Jazz. Tilviljun? Verst að mínir menn gátu ekki blautan skít og biðu afhroð.

Dagur að nóttu kominn.
Þreytan yfirþyrmandi.
Meira framundan.


Fimmtudagur 4. nóv. 2004

Í dag var sofið aðeins fram eftir og lagt af stað í leiðangur frekar seint. Framundan var matur, Disney, matur og DVD. Já, og matur.

Við vildum fá eitthvað fljótlegt að borða. Ekkert sit-down, servað til borðs. Því var farið á Wendy´s. Wendy´s??? Það er hamborgarastaður sem ekki er enn kominn til Íslands, en hann mun koma, rétt eins og flestar aðrar frægar bandarískar veitingastaðakeðjur. Þessi staður er skírður í höfuðið á dóttur stofnanda staðarins. Hin elskulega Wendy. Hún er engin Mindy.

Þetta var sæmileg máltíð, en kannski full snemmt fyrir borgara. Harpan fékk einhvern viðbjóð og fékk nýjan borgara í kaupbæti. Alveg sæmilegt. Wendy´s er líklegast minn uppáhalds skyndibitastaður í USA af þeim stöðum sem eru útum allt. Hrifnari er ég þó af Fazolis og Firehouse Subs. Þeir eru hins vegar ekki jafn víða.

Við hliðina á Wendy´s var Gift Shop. Það er búð sem selur gjafir! Gjafir sem enginn vill fá.

Svo var brunað í Disney.
Disney World samanstendur af nokkrum görðum, þar sem þekktastur er líklegast Magic Kingdom. Við fórum þangað. Disney-heimurinn er staðsettur rétt sunnan við Orlando, skammt frá hverfi sem heitir Kissemmee. Þetta er um 20 mínútna akstur frá International Drive.

Magic Kingdom er fjölskyldugarður þar sem hægt er að sjá og hitta allar helstu fígúrur Disney-sögunnar. Einnig eru þar nokkur spennandi “rides”, svo sem Space Mountain og Splash Mountain. Við Harpa höfðum áður komið í þennan garð, vorið 2000, en þá fórum við einnig í Universal Studios garðinn (eins og fram hefur komið) og Wet n´ Wild.

Þetta var þrælgóð skemmtun. Veðrið var gott, og ekkert alltof mikið af fólki. Við náðum að covera allan garðinn og sjá það sem var þessi virði að sjá. Reyndar var 45 mínútna bið í að hitta Mikka Mús sjálfan, þannig að við slepptum því.

Um klukkan 19:00 hófst svo heljarinnar skrúðganga þar sem allar helstu Disney-stjörnurnar fóru um garðinn í miklu ljósa-showi. Það var ansi tilkomumikið. Reyndar svolítið langdregið, enda margar persónur. Að því loknu var svo flugeldasýning. Hana hafði ég ekki séð áður. Hún var nokkuð flott, sérstaklega þar sem inní hana var fléttað frægum Disney lögum. Oftast þegar maður sér flugelda heyrir maður ekki söng, meira bara “gleðilegt ár” og svoleiðis.

Bílastæðaskipulag skemmtigarðanna þarna er fróðlegt og til fyrirmyndar. Þarna er fólk sem vinnur við það að segja þér hvar þú eigir að leggja. Við vorum á Guffa-svæðinu. Það er fínt svæði. Svo var bara lest tilbúin til að fara með okkur á áfangastað. Ég er hrifinn af þessu. Mjög hrifinn. Svona myndu Íslendingar aldrei geta gert hér á landi. Hér keppast alltaf allir við það að komast sem næst innganginum. Labba sem minnst. Alltaf að græða. Ég líka.

Eftir Magic Kingdom var svo farið í það sem heitir Downtown Disney. Það er svona “entertainment area” með veitingastöðum og búðum. Þar fórum við á Planet Hollywood. Fínn staður. Flottur staður. Hagnaðurinn fékk sér svínarif. Það er subbulegur matur en góður matur. En bakaða kartaflan var ekki bökuð. Smá mínus þar.

Svo var farið í Virgin Megastore. Það var orðið áliðið. Klukkan kannski svona 23:00. Gott að búðirnar séu opnar lengi þegar kaupsjúkir einstaklingar eru á ferðinni. Ég hafði á tilfinningunni að ég ætti eftir að gera góð kaup þarna inni. Þarf hafði ég á réttu að standa. Klukkustund síðar gekk ég út með rúmlega 30 DVD diska. “Buy 10, get one free”. Rosalega ánægður með allt sem ég keypti.

Wendy.
Mikki.
Hey Bruno.


Föstudagur 5. nóv. 2004

Eftir “verslunarlausa” tvo daga var kominn tími til að bregða sér aftur í búðirnar. Hvert annað? Jólagjafakaup og fleira á dagskránni. Áfangastaðurinn að þessu sinni var Millenia Mall, sem er ný verslunarmiðstöð þarna í Orlando. En hverju er ég að gleyma?

Að sjálfsögðu er byrjað á því að éta. Að þessu sinni var farið á nokkuð heilbrigðan stað sem staðsettur var í verslunarmiðstöðinni. Heitt kakó og beygla var það sem ég fékk mér. Líkaminn var ekki vanur þessu. Stóðst þó þessa árás heilbrigðis.

Svo var skipt lið. Tveir og tvo. Eins og í körfunni í gamla daga. Innan míns liðs var lélegt jafnvægi þar sem Harpa var mun sterkari spilari þegar kom að því að fara í búðir. Ég hélt þó aðeins í við hana. Samt eiginlega bara kjánalegur í samanburði.

Klukkan 14:00 var aftur komið að því að borða. Nema hvað.
Núna var það California Pizza Kitchen. Þetta er svona öðruvísi staður með mjög frumlegum pizzum. Ég fékk mér til dæmis böku með BBQ sósu og kjúklingi. Harpan fékk sér með kartöflum. Samt var þetta afar ljúffengt. Jafnvel að þetta slagi uppí gæði Hagnaðar-pítsanna. Jafnvel.

Seinni hálfleikur í verslun var öllu fjörugri. Núna skiptum við Harpa upp okkar liði, og var nú bara spilað einn á einn. Það var að ósk Hörpunnar. Hún taldi víst að ég hægði á henni. Fór hún víst eins og hvirfilbylur um gangana, að sögn þeirra sem til sáu. En hún var að gera rosalega góð kaup.

Rúmlega 17:00 var komið nóg af þessari verslun allri og kominn tími til að gera eitthvað af viti. Þetta mikla vit fólst í því að fara í bíó. Fyrst var þó tæmt bílinn sem var orðinn vel mettur.

Bíóið sem við fórum í var og er staðsett á Universal Citywalk, sem er svona veitingastaða/skemmtistaðasvæði og er á milli Universal Studios og Island of Adventures garðanna. Sannkölluð skemmtana-paradís. Við fórum á nýjustu myndina frá Pixar/Disney sem heitir The Incredibles. Miðaverðið var að mig minnir $8. Það hafa því ansi margir borgað sig inn þessa opnunarhelgi myndarinnar, því alls halaði hún inn rúmar $70 milljónir. Myndin var góð. Nei, reyndar var hún frábær. Mæli eindregið og margdregið með henni.

Að lokinni mynd þurfti að éta. Í fyrsta skipti fórum við á stað sem einnig er á Íslandi, þ.e. Hard Rock Cafe. Þessi var þó öllu stærri en sá í Kringlunni. Núna var fengið sér djúpsteiktan mat og bjór. Það var kominn tími á eitthvað djúpsteikt.

Við fórum svo frekar snemma heim, enda ferðalag framundan daginn eftir til South Beach Miami. Yeah baby, Yeah.

Fínn dagur.
Kostnaðarsamur dagur.
Skemmtilegur dagur.





Laugardagur 6. nóv 2004

Í dag var komið að því að yfirgefa hið heillandi Best Western Plaza hótel og halda áleiðis til Miami þar sem áframhaldandi skemmtun var á dagskránni. En fyrst þurfti að borða... og versla. Borða og versla. Þema.

Núna var farið í hið dreifða Belz-outlet, sem staðsett er alveg nyrst á International Drive. Þar þurfti að versla ýmislegt sem hvergi fæst annars staðar í heiminum. Einnig voru gerð mörg góð kaup í Nike-búðinni, en þessi Nike-búð stóð þeirri í hinu outlettinu mun framar. Í morgunmat var fengið sér pítsusneið og kók. Svona til að líkaminn fengi ekki of mikið sjokk.

Um hádegi var svo lagt af stað til Miami. Erfiðlega gekk að koma sér af stað. Einhverra hluta vegna var okkur ekki hleypt inná hraðbrautina (Florida Turnpike) sem myndi taka okkur langleiðina á áfangastað, og var okkur bent á að keyra í einhvern hring og koma svo aftur. Það þótti óviturleg hugmynd og eftir að hafa ráðfært mig við aðstoðarmann minn, Rúnar Þór, var ákveðið að ég, Jón Ragnarsson, myndi koma upp með nýja leið, sem ég og gerði. Það gerði ég af fagmennsku, og innan stundarkorns vorum við kominn inná hinn rétta veg. Bein leið, gatan liggur greið.

Áætlaður ökutími til Miami var um 3 klst. og 45 mínútur. Sú áætlun stóðst nokkuð vel, og vorum við kannski aðeins yfir þeim tíma.

Að keyra á hraðbrautum (e. Interstate) í Bandaríkjunum er ekki beint góð skemmtun. Landslagið var einhæft, með tré á báðar hendur nánast alla leið. Einstaka sinnum sást í beljur. Ég flautaði aldrei á þær. Auglýsingaskilti voru víða. Voru víða. Fellistormar haustsins hafa feykt þeim flestum niður, og tré voru víða illa farin. Kaninn kann þó þá list að keyra á hraðbrautum þar sem reglan “slower traffic keep right” er virt af nánast öllum. Þetta mættum við Íslendingar taka til fyrirmyndar.

Þegar við komum til Miami var rigning. Ekki beint það sem við bjuggumst við. Það er eins og að koma til Íslands og búast við hitabylgju. Hótelið sem við vorum búin að panta heitir Beach Plaza Hotel og er staðsett á Collins Avenue. Plaza er mikilvægt. Þetta er hótel á besta stað. Nánast á ströndinni, hliðina á öllum flottustu stöðunum.

Þegar þarna var komið sögu vorum við með óhemjumikinn farangur. Svo mikið að bjöllustráknum (e. Bell boy) leist ekki á blikuna. Ég sagði bara við hann: “Women”. Hann hló.

Hótelið var mjög fínt. Gæti alveg hugsað mér að gista þarna aftur. Ef maður getur ekki hugsað sér að gera eitthvað aftur, þá getur það ekki verið gott. Til dæmis Knights Inn hótelið í New Orleands. Þangað fer ég aldrei aftur. Aldrei. En það er önnur saga sem var aldrei skrifuð.

Eftir stutt stopp uppá hótelherbergi og ráðgjöf á barnum var farið á Lincoln Road, en þar eru ansi margir veitingastaðir og búðir. Það trekkir af kaupsjúka Íslendinga sem eru alltaf svangir. Eða allavega til í að éta. Við fundum á endanum einhvern veitingastað, sem ég reyndar man ekki nafnið á.

Þar var fengið sér fyrstu alvöru steik ferðarinnar og rauðvín með. Athugið að þetta er á sjötta degi ferðarinnar. Reyndar var þetta ekki nógu góð steik, því steik er ekki fullkomin nema að með henni sé bökuð kartafla. Þessi staður bauð því miður ekki uppá það, en ég fékk að velja á milli franskra kartaflna (e. Freedom fries) og kartöflumúsar (e. Potato-mouse). Kartöflumúsin varð fyrir valinu. Allt í allt hin sæmilegasta máltíð sem endaði með skemmtilegu símtali frá Ommadonna, alla leið frá Íslandi, á leiðinni á Sálina á Nasa. Harpa hafði reyndar þegar yfirgefið veitingastaðinn og farið að skoða sig um í Pottery Barn, sem var hinu megin við götuna. Við hin kláruðum rauðvínið.

Eftir óvenjulitla verslun var ákveðið að tylla sér inná einhvern bar og fá sér drykk. Fyrir valinu varð barinn The Score. Þar voru að vísu harla fáir á ferli. Konurnar fóru á klósettið og við Daníel ræddum heimsmálin okkar á milli. Tók þá Daníel eftir því að barþjónarnir voru eitthvað að káfa á hvorum öðrum. Stuttu síðar koma stelpurnar aftur. Nefndu þær að það væru klósettskálar á kvennaklósettinu. Því næst gekk hávaxin kona framhjá okkur. Við nánari skoðun reyndist þetta var karlmaður. Rak ég þá augun í auglýsingablað á borðinu beint fyrir framan mig. Þar mátti sjá hálfnakinn karlmann að hnykla vöðvana. Það fór ekki á milli mála. Við vorum á bar samkynhneigðra. Skömmu síðar héldum við ferð okkar áfram og Danni náði augnsambandi við eldri karlmann við útganginn á Score. Karlmaðurinn sleikti kynþokkafullt varir sínar. Sagði Danni.

Að lokinni sturtu var komið sér útá lífið. Ocean´s Drive var málið þegar kom að skemmtanalífi. Reyndar nefndu einnig margir Washington Avenue. Við hófum leikinn á fyrsta barnum sem við rákumst á. Sá var írskur. Við vorum þá þegar komin í ágætan gír. Kannski annan gír.

Harpa hikaði hvergi og þrumaði sér beint í Vodka og Red Bull. Ég var öllu dannaðari og fór í bjórinn. Eins og alltaf. Á þessum stað var poolborð. Poolborð eru á mjög mörgum stöðum sem ég hef farið á í USA. Mér finnst það alveg ágætt og vinalegt. Enda spila ég oft. Þetta kvöld var til dæmis spilað. Ég gegn Danna. Því miður var lítil spenna. Spennunnar vegna. Getumunurinn reyndist of mikill. Eða ástandsmunur.

Þegar klukkan var farin að nálgast miðnættið var talið skynsamlegt að halda áfram för. Voru þá flestir komnir í nokkuð góðan fíling. Stuttu áður höfðum við Danni talið alla bjórana sem við höfðum drukkið fram að þessu, allt frá brottför í Keflavík. Reyndist fjöldi bjóra vera 17 um klukkan 22:00 þetta kvöld. Nú styttist í að við myndum týna tölunni.

Næsti áfangastaður var óráðinn. Fljótlega gengum við þó framhjá bar sem heitir Mango´s. Það var greinilega aðal-staðurinn á svæðinu og var vafalaust klukkutímaröð til að komast inn. Það var ekki talið skynsamlegt, og þess í stað reyndum við að troða okkur fram fyrir röðina. Það var ákaflega heimskulegt og vorum við send aftast í röðina.

Þá var tekið á það ráð að þramma yfir á Washington Avenue eftir ráðgjöf hjá einni barþernu. Þegar þangað var komið var ekki mikið spennandi í spilunum og allir barirnir sem áttu að vera þarna voru hvergi sjáanlegir. Því var aftur þrammað niður á Ocean´s Drive.

Eftir því sem ég man best var næsta stopp Barinn/Hótelið Clevelander. Þar var greinilega mikið líf og slatti af fólki að skemmta sér. Þetta var svona úti/inni bar. Flestir voru þó úti enda ennþá ákaflega heitt í veðri, þrátt fyrir að langt væri liðið á nóttu. Öll vorum við beðin um skilríki, þrátt fyrir að vera öll langt yfir löglegum drykkjualdri í Bandaríkjunum, sem er 21 ár að mig minnir. Þetta var gert á öllum stöðum sem við sóttum. Paranoja í kananum stundum.

Það var farið að líða að seinni hluta kvöldsins og fólk orðið ansi þreytt eftir langan og viðburðaríkan dag. Samt vorum við alveg til í drykk eða tvo. Stelpurnar fengu sér einhver framandi hanastél á meðan við Daníel fengum okkur eitthvað annað. Að sjálfsögðu var pantaður matur; núna var það tortilla-flögur og spínat-dip. Mjög svo gott.

Kvöldið endaði svo á enn meiri mat. Það var eitthvað sem hafði verið ákveðið fyrr um kvöldið. Í heimsku okkar og ölæði þrömmuðum við á “World Famous Deli” en þar var opið allan sólarhringinn. Ég fékk mér ostborgara í paradís. Aðrir fengu sér pítsu. Mikil móða einkennir þessa máltíð.

Rúmið var gott.
Minnir mig.


Sunnudagur 7. nóv. 2004

Það var ekki mikill hressleiki á þessum sunnudagsmorgni. Ekkert vaknað klukkan 08:30 til að fara í tennis, eins og maður gerir núna helgi eftir helgi. Neinei, það var svolítil þynnka. Samt nokkuð vinaleg þynnka. Engin killer. Í dag átti að fara á ströndina.

En fyrst þurfti að borða. Nema hvað. Það var því rúllað á einhvern stað á Ocean´s Drive. Kannski ekki einhvern stað. Þetta var staður í eigu Gloriu Estefan. Það segir meira en mörg orð. Gloria er lifandi goðsögn sem hefur sungið mörg snilldarlög eins og Conga og fleiri.

Eftir ljúffenga beyglu með kalkún og smurðum osti ásamt íssköldum nýkreistum appelsínusafa var rölt niðrá strönd, sem var og er hinu megin við götuna. Fyrst var þó fjárfest í strandarhandklæðum og ég fékk mér svona stórt ferlíki með súperman-merki. Svolítið ferðamannalegt, en svo sem í lagi þar sem maður var jú ferðamaður.

Það var fjara þegar við komum niður að strönd og sólin skein. En eins og hendi væri veifað dró ský fyrir sólu. “Skýjað á South Beach”, hugsaði Hagnaðurinn. Nei, hver skrattakollurinn. Það var því ákveðið að staldra ekki lengur við í bili og fara þess í stað að gera eitthvað fjörugra og skemmtilegra. Hvað ætli það hafi verið?

Jú, við fórum í bíltúr. Fyrst þurfti reyndar að ná í bílinn í svokallað “vallet parking”, en ég mun koma betur að því síðar. Að keyra norður eftir ströndinni er dágóð skemmtun. Má ljóst vera að þeir sem búa þarna þjást ekki af peningaleysi. Allavega ekki margir hverjir. Á leiðinni mátti til dæmið sjá glæsilega eyju með risavöxnum húsum. Þarna eiga víst margar stórstjörnurnar hús. Það sem var þó skemmtilegra og fékk öfundina til að skjótast uppí kollinn var sú staðreynd að nánast allir voru með eigin bryggju og eina eða fleiri snekkjur. Sá ég þó ekki snekkju Jóns Geralds Sullenberger. Gaman hefði verið að sjá hana.

Fljótlega sá Hagnaðurinn fallegan golfvöll. Þetta var lítill völlur. Svona völlur sem kallast “par 3 völlur”. Svipað og litli völlurinn á Korpúlfsstöðum, nema bara miklu flottari. “Hvernig væri að taka einn hring” spurði ég. Jú, flestir voru til í það. Meira að segja Danni. En fyrst þurfti að ljúka nokkrum ókláruðum verkum. Eitt af því var að versla.

Fyrsta verslunin sem við stoppuðum í var The Sports Authority, eða ´Íþróttayfirvöldin.´ Það er risavaxin íþróttavöruverslun. Þar var stöðvað í dágóðan tíma og ýmislegt verslað. Ég var þó mest í því að slappa af fyrir utan í sólinni, sem hafði nú brotist fram úr skýjunum. Þetta var yndislegur tími. Þó var einn svartur blettur á þessari fögru stundu. Það var þegar bíll kom þarna á bílastæðið beint fyrir framan mig og bakkaði á annan bíl. Við tók gríðarleg spenna. Ökumaðurinn í bílnum kom ekki útúr bílnum, og ég sat sem fastast, starandi á bílinn og veltandi fyrir mér hvað hann ætlaði að gera. Á sama tíma hefur ökumaðurinn væntanlega velt fyrir sér hvenær ég ætlaði að drulla mér í burtu. Svona störðum við á hvorn annan í svona 10 mínútur, eða þangað til ferðafélagar mínir komu út og við keyrðum á brott. Þar sem ég var að labba að bílnum okkar keyrði “félaginn” hins vegar í burtu. Glæpamaður. Jájá.

Næsta stopp var svo einhver ofurvaxin verslunarmiðstöð. Er hún víst ein sú stærsta í Bandaríkjunum. Því miður vorum við ekki ein um það að vera í verslunarhugleiðingum. Það reyndist nefnilega erfiðasta mál að fá bílastæði þarna. En þetta var massív samkoma af búðum, og það þó bara á tveimur hæðum. Ég held að Hagnaðurinn hafi aldrei séð það svartara, og á sama tíma Harpan aldrei séð það bjartara. Opposites attract.

En áður en lengra var haldið varð að sjálfsögðu að hlaða batteríin. Mér hefði samt ekki veitt af nýjum batteríum. A tjúúú úú. Hamborgarstaður varð fyrir valinu. Sá nefnist Johnny Rockets. Þetta er svona staður eins og maður sér í svona 60s bíómyndum. Á hverju borði er lítill glymskratti og ef maður spilar eitthvað lag þar, þá taka allir þjónarnir sig til og dansa einhvern skemmtilegan dans. Þetta er skemmtilegur staður. Maturinn er líka góður. Kemst kannski næst hamborgarabúllunni hans Tomma. Eitt skaraði þó framúr. Það var þegar þjónustustúlkan tók sig til og hellti tómatsósu á lítinn bakka fyrir hvern og einn. Þar sýndi hún stórfenglega takta við að ná tómatsósu útúr nýrri flösku; vandamál sem margir kannast við, og tækni sem ég kem til með að nýta mér í framtíðinni.

Til að gera langa sögu stutta var keypt ofboðslega mikið af vörum á fáránlega hagstæðum kjörum.
(Meðal annars var fjárfest í gráum Ipod Mini. Það reyndust vera bestu kaup ferðarinnar.)

Við snérum aftur uppá hótel um kvöldmatarleitið. Fótaþreyta var töluverð. Burðarþol hafði minnkað verulega. Líkamslitur hafði ekki tekið stattaskiptum. Enginn hafði orðið fyrir áfengiseitrun eða matareitrun. Það var sem sagt allt í frekar góðum málum og til að gera málin enn betri var ákveðið að þruma sér á hótelbarinn og ræða þar við barþjóninn, sem var svona jolly good fella. Það átti að fá góð ráð fyrir kvöldið. Hvaða staðir eru heitir og þannig.

Ískaldur Budweiser í frosnu glasi er drykkur sem rennur ansi ljúflega niður. Glúgg glúgg glúgg. Við vorum í nokkuð góðu yfirlæti þarna á barnum, búnir að fá að vita hvert við áttum og fara og svoleiðis. Þá spyrja tveir strákar okkur hvaðan við erum: “Íslandi”, segjum við. Þá hafði annar þeirra giskað rétt. High-five, down-low, og allt það. Frekar sáttur með sitt. Þannig að við förum að spjalla. Kom þá í ljós að þetta voru Clemson strákar (Clemson er háskóli í Suður-Karólínu, sama ríki og ég var í háskóla). Höfðu þeir komið þangað til að horfa á football leik, sem Clemson unnu með naumindum eftir stórkostlegt come-from-behind. Þá sagði ég þeim að ég hafði komið til Clemson, m.a. á fótboltavöllinn. Þetta fannst þeim stórkostlegt. High-five, down-low. Eins og búast mátti við spurðu þeir mig hvað ég hefði verið að gera þarna. Jú, ég hafði verið í Coastal Carolina á Myrtle Beach, og hafði þurft að flýja einhvern hurricane haustið 1999. “Varst þú í Coastal”?, spurði einhvern þriðji gæi á barnum (sem var ekki með þessum tveimur), en hafði eiginlega verið að hlusta á þessar fróðlegu samræður. Ég kinkaði kolli. “Ég var í Coastal”, sagði hann svo og átti ekki orð. Já, þetta er lítill heimur sem við búum í (að sögn fræðimanna er hann líklegast endalaus, en það er gott að segja að hann sé lítill).

Um kvöldið var planið að sletta ærlega úr klaufunum. Fara á smá pöbbarölt og enda svo á aðal-sunnudags-staðnum, sem staðsettur er alveg syðst á South Beach. Hann heitir Nikki´s Bar. Við komumst á leiðarenda um síðir. Greinilegt var að þetta var Staðurinn. En fyrst þurfti að komast inn. Það var svolítið einkennilegt hvernig það allt virkaði. Samkvæmt verðskrá kostaði $20 per mann til að komast inn. Hins vegar var dyravörðurinn (kona) tilbúinn til að hleypa okkur fjórum inn ef við “myndum lauma að henni $50”. Það er sem sagt $30 hagnaður. Við gerðum það og rúlluðum inn. Allt saman hálf furðulegt.

Þetta var svona dans-staður. Staður sem myndi sóma sér vel í “Miami – Uncovered” á Popptíví á föstudögum. Helvíti flottur klúbbur. Barir útum allt og staðurinn lá alveg að ströndinni. Þar var líka fullt af leðurrúmum, þar sem fólk gat eðlað sig ef það hafði sérstaka sýniþörf.

Ég hafði ekkert reiðufé á mér, og enginn var hraðbankinn. Því þurfti ég að nota annars ólgandi heitt Visa kortið á barnum. Það var óheppilegt þar sem lágmarksgjald fyrir drykki var $80. Það er alveg fáránlega mikið. Ef manni langaði í bjór þurfti maður að kaupa kassa. Hvaða rugl er það? Þökk sé óralangri reynslu minni í að leika “heimska útlendinginn” tókst mér að svindla á kerfinu. Annars hefði ég rúllað útaf barnum gjaldþrota og ofurölvi.

Það var bara nokkuð gaman þarna þrátt fyrir að orka hafi verið af skornum skammti. Enginn lagði til dæmis í Hemma Gunn dansinn. Við yfirgáfum staðinn um klukkan 01:00 og tókum leigubíl í átt að hótelinu. Ætluðum að fá okkur einn tvo á barnum og halla okkur svo. Stelpurnar voru búnar á því og fóru uppá herbergi. Við Danni urðum hins vegar eftir. Við vorum einir á Oceans Drive. Það var eins og allir hefðu ákveðið að fara heim á sömu mínútunni. Skrítið maður.

Við fundum einn opinn bar. Írski pöbbinn sem var skammt frá hótelinu. Hann var við það að loka. En við ákváðum ómeðvitað að vera leiðinlegu gæjarnir. Fórum inn, fengum okkur drykk og hófum að spila einn skemmtilegast borðleik sem ég hef komist í. Svona hálfgert “hark meets curling”. Alger snilld. Við drusluðumst svo uppá hótel seint og um síðir.

Fínn dagur.
Tveir dagar eftir af ferðinni.


Mánudagur 8. nóv 2004

Þá er komið að seinasta heila deginum á Miami. Ýmislegt á döfinni.

Erfiðlega gekk að rífa sig á fætur þennan morguninn. Greinilegt að áfengisþamb síðustu tveggja kvölda sat sem fastast í mannskapnum. Okkur var hins vegar ekki til setunnar/legunnar boðið. Ekki var ég kominn alla þessa leið til þess að liggja uppí rúmi, svo mikið var víst.

Það var því gerð önnur tilraun á ströndina. Núna var sólin úti. Glampandi. Merkilegt hvað sólin getur verið heitari sums staðar á jörðinni en annars staðar. Sólin er jú í einhverri brjálaðri fjarlægð frá jörðinni. Vegalengdin milli Íslands og Miami er bara brotabrot af allri þeirri fjarlægð. Hvernig stendur á því að eitthvað prómill af prómilli af prómilli skuli hafa þessi gígantísku áhrif. Ég veit það ekki, enda enginn stjörnufræðingur.

Við komumst niðrá strönd rétt um 11:00. Það var heldur fámennt þarna. Í það minnsta ekkert pakkað. Þetta er reyndar alveg massív strönd. Mjög stórt kvikindi. Það var ekki talið viturlegt að liggja einungis á glænýjum handklæðunum. Því var fjárfest í rekstrarleigu á sólbekkjum. Tel ég það hafa verið skynsama og arðbæra fjárfestingu.

Eftir skamman tíma á ströndinni varð að éta eitthvað. Enginn var veitingastaðurinn á ströndinni og því tókum við Danni rölt niðrá Collins Avenue. Þar enduðum við á hinum skemmtilega heimsfræga Deli stað, þar sem við höfðum étið í ölæði á laugardagskvöldinu. Ég pantaði mér tvær beyglur með kalkún. Bara svona þægilegan morgunverð. Viti menn, gæinn rukkaði mig um $25. Hvorki meira né minna. Ég sagði nei takk og fór annað. Þetta er fáránleg upphæð fyrir tvær beyglur. Á Starbucks myndi maður borga svona $6 fyrir þetta. Það var því bara gripið einhverjar þreyttar bensínstöðvar-samlokur og þrumað sér niðrá strönd.

Ég er ekki mikill strandarmaður. Meira svona vera í sólinni og að gera eitthvað á sama tíma. Til dæmis spila tennis. Það er alger snilld. Eða spila golf. Það er jafnvel enn betra. Þennan daginn var slíkt ekki í boði. Þess í stað var lesið úrvalstímarit á borð við Maxim, Stuff og For Him Magazine (FHM). Allt saman eðal-efni. Núna virðist B&B vera að reyna að feta í þessi spor. Hef ég ekki lesið það tímarit.

Fljótlega varð ég þó óþolinmóður. Þá er tilvalið að taka rölt. Tveir möguleikar, fara norður eða suður. Ég fór suður. En aldrei fór ég vestur. Þetta var fróðlegt og skemmtilegt. Fljótlega kom ég að einhverju “designated homosexual area”. Þar var fáni og alles. Eins gott að merkja þetta. Þar voru margir kynlegir kvistir. Ekki oft að maður sjái fullorðinn karlmann í g-streng vegna þess að honum finnist það flott. Engin áskorun þar á ferð. Einnig var allt vaðandi í berbrjósta ofurskutlum sem höfðu farið í lýtaaðgerð; eða fegrunaraðgerð, hvort sem maður vill kalla þetta. Ferðin hafði sem sagt sínar góðu og slæmu hliðar.
Þegar til baka var komið var Hagnaðurinn farinn að finna fyrir eilitlum sviða á líkama. Greinilegt að ekki hafi verið makað nægum sólaráburði á sig. Stór mistök þar. Risastór. Því tók ég þá tímamóta-ákvörðun að segja þetta bara gott. Enda kemur bruninn oft ekki í ljós fyrr en eftir svolítinn tíma.

Fljótlega voru síðan allir komnir uppá hótelherbergi. Ljóst mátti vera að útlitið var ansi rautt. Alir voru meira og minna brunnir. Það átti að taka þetta sólbað með slíku trompi en við myndum breytast í blökkufólk og þurftum því aldrei aftur að fara í sólbað. Við gerðum okkur full miklar væntingar og því fór sem fór. En núna þurfti að kæla bölvaðan brunann.

Ég, Harpa og Kristjana fórum því í búðirnar. Danni varð eftir heima. Eldrauður. Allt að því rauðhærður. Það átti að kaupa eitt og annað. Loka-innkaupin. Yeah right. Vitaskuld var fjárfest í ýmsu, en það sem skipti þó mestu máli var Aloa Vera gel. Það er fallega grænn viðbjóður sem kælir niður rauða húð. Ahhh, þægilegt.

Um kvöldið var svo planið að fara á hinn skemmtilega bar/hótel Clevelander. Á dagskrá var Monday Night Football, eða mánudags-ameríski-fótboltinn. Það er stórskemmtilegt og mikil hefð fyrir þessu í Bandaríkjunum. Við Danni vorum lúmskir. Fórum aðeins á undan “til að ná sætum”. Á meðan voru stelpurnar uppá hóteli að klára að pakka, já og taka sig til og kæla sig niður.

Það var fata af ísköldum Coors Light sem tók á móti okkur á barnum. Færð ekki betra kælingu en það. “Five for $15”. Maður fellur alltaf fyrir þessu. Við tókum alls tvær fötur á þetta. Já, og fullt af alls konar mat. Leikur kvöldsins var Colts gegn Vikings. Payton Manning gegn Daunte Culpepper. Alvöru sóknarslagur. Fór að lokum að “mínir menn” í Colts “mennina hans Danna” í Vikings. Aldrei spurning. Enda er Manning að fara að slá met Dan Marino núna fljótlega.

Góður rólegur dagur.
Hitnaði eftir því sem leið á.
Brottför heim á morgun.


Þriðjudagur 9. nóv 2004

Þá er komið að síðasta degi þessarar löngu ferðar sem þó leið alveg fáránlega hratt. Það er rétt sem er oft sagt að tíminn líður hraðar þegar það er gaman. Reyndar ekki viss um að stjörnufræðingarnir séu sammála þessu.

Það var vaknað nokkuð snemma, og var planið að fara í golf á par-3 og svo bara keyra norður til Orlando. Eiginlega allt var tilbúið. Búið að pakka mestu niður og svona. Harpan og Danni ákváðu að “klára smávegis í búðunum”. Það tók skamman tíma.

Núna þurfti að hlaða bílinn. Fyrst þurfti þó að koma töskunum niður, sem reyndist hið erfiðasta mál, enda voru þær þungar þegar við komum, og það hafði bara bæst við. Það hafðist þó að lokum, þökk sé góðri hægfara lyftu. Einnig þurfti að ná í bílinn, sem hafði lent í miklum ævintýrum undanfarinn sólarhring. Málið var að hótelið er ekki með bílastæði. Því þarf að borga $16 per dag fyrir bílastæði, sem er í nokkur hundruð metra fjarlægð. Allt í góðu með það, og hafði Ford Freestarinn það bara nokkuð gott þarna. Á þriðja degi (mánudegi) ákváðu hins vegar eigendur bílastæðahússina að hætta í business. Því voru góð ráð dýr, þar sem það er ekki beint allt vaðandi í bílastæðum þarna á Miami. En með bakið upp við vegg tókst Rúnari Þór að greiða úr flækjunni og reddaði málunum. Sem betur fer.

Við vorum komin á ferðina rétt fyrir hádegi. Rúmir 8 tímar í flug. Bíllinn var gjörsamlega pakkaður. Búið að fylla kvikindið. Ég veit ekki hvað hefði gerst ef $ hefði staðið í 63 (hann var u.þ.b. 68 þegar við vorum þarna). Þá hefðum við væntanlega þurft á kerru að halda. Tilhlökkunin fyrir golfið var mikil. Fín veður og maður bara í góðum fíling. Stefnan fyrst tekin á Dunkin Donuts. Danni var hrikalega spenntur.

Við vorum föst í umferðarteppu og vorum farin að sjá í Dunkin skiltið þegar ég spurði Hörpu fyrir einskæra tilviljun hvort flugið frá Orlando væri klukkan 20:00 eða 20:30. Kemur þá í ljós að hvorugur sá tími var réttur, heldur var flugið klukkan 18:00. Það var sem sagt eftir tæpa 6 tíma. Það var sérstaklega slæmt þar sem búast mátti við ca. 4 tíma keyrslu til Orlando. Nú hófst smá örvænting. Þurfti að fylla kvikindið af bensíni, míga, kaupa mat og bara allt á fullu. Og við vorum stödd í umferðarteppu. Auk þess fór golf-ferðin fyrir lítið. Hressandi.

Þökk sé viðbragðsflýti Hagnaðarins tókst okkur fljótlega að komast útá hraðbraut. Nefnist sé braut I-95. Það kannast líklegast alllir sem búið hafa á austurströnd Bandaríkjanna við þann veg. Helvíti langur er hann. Fullur bíll af bensíni, slatti af óhollum mat, og hálftómar/hálffullar þvagblöðrur. It´s good to be back on the road.

Þessi ökuferð gekk nokkuð vel. Hraðinn var stöðugur og umferðin mikil. Lá þó einu sinni við því að Hagnaðurinn lenti í óhappi. Ástæðan var sú að slökkviliðsbíll þurfti allt í einu að keyra þvert yfir 5 akgreina hraðbrautina. Hvaða rugl er það? Sem betur fer var bíllinn með gott bremsukerfi. Svo var bara krúsað með cruise control-ið á.

“Hægðu aðeins á þér”, sagði Danni alltíeinu.
“Hvað er að gerast”, sagði þá Hagnaðurinn.
“Ég held að við höfum verið að keyra framhjá Shaq.”
“Nei, hver andskotinn. Þú ert að grínast.”
“Svartur bíll, súperman-merki og risavaxinn blökkumaður. Ég held þetta hafi verið hann”

Hófst svo svakalegur eltingaleikur á einni af skæðustu hraðbrautum Bandaríkjanna. Hagnaðurinn á Ford Freestar Minivan gegn “genatíska undrinu” á Bentley með 70 tommu dekkjum, beinni innspýtingu og túrbó púströrum. Ekki beint það sem maður kallar jafnan leik, félagi.

Fyrst tók Shaq gott forskot og hélt góðum 50 metrum á milli okkar. En þá gaf Hagnaðurinn aðeins í. Aðeins að sýna honum hvar Kobe keypti ölið. Fljótlega vorum við komnir upp að hliðina á bílnum. Það fór ekki á milli mála að það var Tröll að keyra þennan svarta bíl. Tröll sem sat í aftursætinu vegna langra lappa. Með honum var einhver buddy holly.

Danni tók myndir. Ég keyrði. Alltaf gaman að sjá celeb.

Millitíminn var góður. Þó átti enn eftir að ljúka einu verki. Það var að fara í Wal-Mart og kaupa alls konar dót handa fólki. Það varð að gerast, þrátt fyrir að tíminn væri af skornum skammti.

En sem betur fer komumst við í tæka tíð útá flugvöll. Allt klárt. Engin yfirvigt og bara allt í gúddí. Flugið heim gekk mjög vel og það voru blendnar tilfinningar þegar við lentum svo í Keflavík.

Í heildina var þetta alger snilldarferð. Ferðafélagarnir voru frábærir. Veðrið var mjög gott. Allt gekk vel og ekkert óþarfa vesen. Svo er bara að byrja að safna aftur.

San Francisco – Las Vegas – Los Angeles 2005???

Ég þakka lesturinn,
Hagnaðurinn


Gleðileg jól.