laugardagur, mars 20, 2004

Tónleikaumfjöllun – Damien Rice

... varla hefur það farið framhjá lesendum Hagnaðarins að hann var að fara á tónleika í gær með Damien Rice. Hérna er mín upplifun:

Húsið átti að opna klukkan 22:00, og eins og sannur Íslendingur var maður tískulega seinn, þ.e. góðum fimmtán mínútum. Reyndist vera gríðarlega löng röð fyrir utan Nasa sem náði örugglega góða 100 metra. Má geta sér þess til að allir 600 tónleikagestirnir hafi verið í þessari röð. Meðal annars var franskt par fyrir framan okkur. Þau virtust halda að þau væru að fara á ball eða eitthvað álíka. Kom svo í ljós að þau voru ekki með miða. Samt örugglega hressandi að bíða í 20 mínútur í röð á Austurvelli.

Harpa var að vona að þetta yrðu sitji-tónleikar. Svo var ekki. Þurftum við því að finna okkur góðan stað. Okkar tókst það við hliðina á sviðinu. Eiginlega bara nokkuð góður staður. Svo leið og beið.

Upphitunarband kvöldsins var ‘Lucky Four’. Þetta eru tveir náungar með kassagítar, einn Íslendingur og einn Breti. Íslendingurinn var með bein í nefinu, í orðsins fyllstu merkingu. Það var ekkert sérstaklega fallegt. Kannski að hann hafi talið sig vera indíána. Þeir spiluðu einhver 5-6 lög. Þau virtust nokkuð hressandi en Hagnaðurinn var ekki með fulla einbeitingu af tveimur ástæðan og önnur þeirra var kliðurinn í húsinu.

Hin var Damien Rice.
Mjög fljótlega eftir að ‘Lucky Four’ byrjuðu að spila kom Damien á staðinn sem við vorum og stóð við hliðina á mér. Ég held ég hafi verið eini maðurinn á svæðinu sem hafi fattað það. Gæinn er mjög lítill; minni en ég, með úfið hár, órakaður, og rónalegur til fara. Allavega...

... þá hef ég pælt í því hvað ég myndi gera ef ég kæmist í návist við einhvern frægan. Það er til fólk sem myndi stökkva til, taka myndir og fá eiginhandaráritanir. Ég var ekki með myndavél, né blað og penna svo það var úr sögunni. Það hefði verið kjánalegt að byrja bara með eitthvað spjall eins ‘I´m a big fan of yours’ eða eitthvað álíka. Af þeim ástæðum sleppti ég því. Nokkru seinna var greinilegt að drukkið fólk á svæðinu fattaði þetta og fór að angra hann (tala við hann). Ég var ekki sá gæi.

Eftir smá tíma kom kappinn svo einn á sviðið vopnaður gítar. Ég var orðinn hrikalega spenntur. Hrikalega.

Damien spilaði að ég held öll lögin á disknum sínum, O. Auk þess spilaði hann lögin ‘Woman like a man’, ‘All dressed up’, ‘Baby Sister’ og fleiri. Þá var sérstaklega skemmtilegt að sjá hann blanda lögum eftir aðra inní programið sitt. Damien tókst á mjög skemmtilegan og elegant hátt að tengja lögin sín við ‘Creep’ með Radiohead og ‘Hallelujah’ með Jeff heitnum Buckley. Bæði þessi lög eru í miklu uppáhaldi hjá Hagnaðinum.

Athygli vakti að tónleikagestir sungu nær eingöngu með þessum tveimur lögum og var hvorugt eftir hann. Hallærislegt? Já, það fannst mér. Á svona tónleikum á fólk að halda kjafti og klappa. Þetta er eins og að ætla að fara að syngja með Sigurrós. Ekki að gera sig.

Annað sem var ekki að gera sig... GSM-símar. Fólk var vinsamlegast beðið um að slökkva á símunum sínum (ekki bara silent) til að ekki kæmi svona hljóð í hátalarana sem allir þekkja. Sumir þarna voru greinilega of mikilvægir til að verða við þeirri ósk. Helvítis pakk.

Aftur að tónleikunum.
Hvað getur maður sagt? Þetta var magnað helvíti. Að reyna að lýsa er svona svipað og segja ‘you-had-to-be-there’ brandara við sofandi mann. Það var reyndar eitt ansi sérstakt: gæinn var með einn kassagítar en tókst á einhvern hátt að búa til þvílíka veislu fyrir eyrað með einhvers konar tækni þar sem hann tók upp ákveðin hljóð og spilaði þau aftur og aftur. Þetta er of flókið fyrir mig að skilja, en það fyrir gítargæja er þetta kannski daglegt brauð. En þetta hafði Hagnaðurinn aldrei séð áður og varð dolfallinn. Eins og ég sagði... had to be there.

Damien talaði um það að koma hérna aftur, og þá með fullt band og kellinguna sem syngur með honum. Hvet ég landsmenn til að láta það ekki framhjá sér fara.

Hagnaðurinn þakkar lesturinn