föstudagur, febrúar 20, 2004

Burger King...

... Hagnaðurinn brá sér á Burger King fyrr í dag ásamt ástkonu sinni. Spenningurinn fyrir þessari ferð var þónokkur.

Burger King er nýjasti staðurinn í hinnu miklu innrás bandarískra veitingakeðja inná íslenskan markað. Hard Rock reið væntanlega á vaðið, og á eftir fylgdu McDonald´s, Subway, Ruby Tuesday, TGI Friday´s og KFC svo nokkrir séu nefndir. Þessi þróun hefur leitt til þess að gamlir og góðir staðir eins og Tomma-borgari heyra sögunni til. Sitt sýnist hverjum um þessa þróun.

Áður en Hagnaðurinn fór í Smáralindina fyrr í dag kíkti hann í reynslubankann. Þar má finna bæði plús og mínus:
A) Mínus: Hagnaðurinn hefur þónokkra reynslu af Burger King eftir 3 ára dvöl sína í suðurríkjum Bandaríkjanna í kringum síðustu aldamót. Sú reynsla samanstendur af feitum sveittum borgurum, skítugu hörundsdökku starfsfólki og subbulegum veitingastöðum þar sem rauðhálsar slöfruðu í sig kræsingunum.

B) Plús: Hagnaðurinn á ágætis minningar frá Burger King staðnum við ráðhústorgið í Kaupmannahöfn. Hann er staddur við upphafið (eða endann) á Strikinu, og ágætt er að byrja langan innkaupadag á þessum stað.

... Snúum okkur þá að Íslandi. Þar sem ég keyrði framhjá McDonald´s á leiðinni uppí Smáralind leit ég til norðurs og hugsaði: "þið hefðuð ekki átt að rukka fyrir tómatsósuna". Burger King staðurinn er ágætlega hannaður; opinn og skemmtilegur og greinilegt að þarna er 'really-fast-food´staður á ferðinni. Þó var fyrirkomulagið á röðunum heldur óljóst. Einnig þarf maður að hella sjálfur í glösin sín, og var þar þröngt á þingi.

Ég ákvað að panta mér Whopper máltíð, rétt eins og áðurnefnd ástkona mín. Whopper er svona Big Mac Burger King. Verðið var 799 krónur. Svo spurði afgreiðslumaðurinn mig á enskri tungu hvort ég vildi ost. "Sure" svaraði ég að bragði. Svo kom reikningurinn og hann hljóðaði upp 1698 krónur. Glöggir lesendur ættu að vera búnir að átta sig á því að það er rukkað 50 krónur fyrir ostinn, þ.e. hvora sneið. Mér blöskraði.

Máltíðin var alls ekki góð. Borgarinn var full djúsí fyrir minn smekk og grænmetið skorið of þykkt. Hann hékk illa saman og var þetta ekki góð upplifun að borða þetta. Svo er þetta Burger-King-bragð sem verður ekki útskýrt í orðum. Kalt mat: Ekki góður hamborgari. Franskarnar voru ekkert skárri. Ég kann að meta stökkar franskar sem jafnframt eru frekar þurrar (þ.e. ekki löðrandi í olíu). Burger King franskarnar uppfylltu hvorugt.

Niðurstaða:
Þokkalegur staður með slæmum mat. Ég hef ákveðið að setja viðskiptabann á Burger King frá og með deginum í dag. Hver sá sem sér mig borða mat frá þessum stað hér á landi hefur rétt til þess að rukka mig um 1.000 krónur í beinhörðum peningum.

Mæli ég heldur með Old West.

Virðingarfyllst,
Hagnaðurinn