fimmtudagur, september 11, 2003

Það var fyrir tveimur árum...

... að ég var í góðum fíling. Nýbúinn að skreppa heim til Íslands frá USA til að spila mikilvægan fótboltaleik á móti FH. Mánudaginn 10. september flaug ég aftur út. Lenti á Baltimore flugvelli um klukkan 19:00 og var svo heppinn að fá far með pabba hans Jóa (sem var að vinna með mér einu sinni) suður til Washington, þar sem ég átti flug frá Dulles flugvelli daginn eftir.

... mér til mikillar gremju reyndist ekki vera eitt laust hótelherbergi í 30 mílna fjarlægð frá vellinum, svo ég neyddist til að hanga þarna. Ég veit ekki hvort þið hafið einhvern tímann verið á flugvelli yfir heila nótt; ca. 12 tíma. Það er ekki skemmtileg lífsreynsla. Þessa nóttina var eiginlega enginn á vellinum, nema starfsmenn og ég. Það var allt lokað. Ekkert hægt að kaupa. Ó hvað ég var svangur. Garnirnar byrja að gaula við tilhugsunina.

... áður en nóttin var liðin var ég búinn að lesa alla auglýsingabæklinga sem til voru á vellinum. Ég var kominn með öll öryggisatriði á hreint. Ég kunni utan að símanúmer hjá bílaleigum. Já, ég ætlaði svo sannarlega ekki að sofna... en það gerðist nú samt. Það er óþægilegt að sofna í flugvallarstól með lappirnar uppá töskum. Engin sérstök nautn í því. Maður sofnar heldur ekkert fast; alltaf svo hræddur um að einhver ætli að fara að stela töskunum. En einhvern veginn komst ég í gegnum nóttina.

... og átti flug um klukkan 7 um morguninn til Atlanta. Held það hafi verið með Delta. Fínt flug og svaf ég eins og steinn alla leiðina. Eftir smá bið þar var svo síðasta flugið til Myrtle Beach.

Ég vaknaði við það að flugstjórinn var að tilkynna að það hafi verið sett hraðamet á leiðinni frá Atlanta til Myrtle Beach. "Athyglisvert", hugsaði ég. Þegar á flugvöllinn var komið var sjónvarpsfólk og löggur mættar. "Tala við mig", hugsaði ég. Svæðið var lokað. Enginn sagði neinum neitt. Og ég bara beið og beið. Það átti að koma maður að pikka mig upp.

Loksins birtist Simmi og sagði: "Það er búið að sprengja New York".