fimmtudagur, mars 06, 2003

Kaupmannahöfn

Hagnaðurinn og frú skruppu til Kaupmannahafnar síðastliðna helgi. Var margt gert sér til dundurs og gaman gaman. Hér er ferðasagan.

Laugardagur 1. mars.
Það var vaknað ansi snemma þennan morguninn, eða um sexleytið. Við áttum flug klukkan 8:30 með Iceland Express. Höfðum gert svaka díl á netinu. Flugið var ágætt fram að lendingu. Lágmarksþjónusta um borð, en þó boðið uppá drykki og mat gegn vægu gjaldi. Maður byrjaði daginn að fá sér einn kaldan, eða tvo. Alltaf gaman að fara til útlanda. Svo kom lendingin, og ég verð að segja að þetta var sú versta lending sem ég hef lent í, og farþegar bókstaflega öskruðu þegar við lentum; eða réttara sagt skullum niður. Þetta var högg og maður skoppaði í sætinu. Á flugvellinum hittum við Íslendinga sem voru svipað ‘lost’ og við hvernig best væri að koma sér í bæinn, svo við deildum leigubíl... þetta var enginn annars en Hemmi ‘Feiti’ og frú. Hemmi er ekkert feitur. Bara svona venjulegur.

Við höfðum pantað hótel á netinu, og reyndist það vera á Helgolandsgade, rétt við Istegade. Þetta var víst vafasamt hverfi, en samt nálægt miðbænum. Það var ágætt. ‘Double room’ reyndist vera tvö lítil rúm. Skrítið. Annars alltílæ herbergi. Betra en New Orleans forðum daga.

Þá var tími til kominn að tjekka á borginni. Klukkan var þegar orðin 14:30 svo það var um að gera að drífa sig á strikið. Stefnan var tekin beint á H&M... svo aðra H&M... svo þá þriðju, og sú var alveg viðbjóðslega stór. Það var töluvert verslað í þessum búðum, m.a. náði ég að versla mér jakkaföt og er ég ákaflega ánægður með þau. Harpa keyti ýmislegt að hætti hússins.

Eftir lokun búða kl. 17:00 var rölt niðrí Nyhavn (is. Nýhöfn). Það átti að vera frábær staður. Ekki var hann fallegur þetta laugardagssíðdegi. Höfnin var frosin og enginn á ferli. Kannski ekki furðu því það var alveg skuggalega kalt í Köben þennan dag. Úff, ég fæ hroll við tilhugsunina. Því var brunað á Kaffi Norden til að hita sig. Hvað er þá betra en kaldur Carlsberg?

Um kvöldið fórum við út að borða með Hildi, vinkonu Hörpu, sem stundar nám þarna og Troels, kærasta hennar, en hann er Dani og hjólabrettahetja. Var ákveðið að fara á ástralskan stað sem heitir svo mikið sem ‘Reef N´Beef’. Lítill og notalegur staður skammt frá ráðhústorginu. Skemmdi helst fyrir að helmingur gesta þetta kvöldið voru Íslendingar og létu þeir flestir dólgslega. Hefðu þeir fremur átt að hegða sér eins og heimsborgarar eins og við hin. Allavega, þá ákvað ég að fara á framandi brautir þetta kvöldið eins og sönnum heimsborgara sæmir. Því fékk ég mér krókódíl í matinn. Afar ljúffengur verð ég að segja. Og ekki skemmdi fyrir að skola honum niður með ísköldum Fosters. Harpa var ekki síðri og snæddi kengúru og drakk rauðvín með. Nammi namm.

Kvöldið var enn ungt. Við tók ganga þvert og endilangt yfir miðbæinn að einhverjum stað sem átti að vera frábær. Hann reyndist vera troðfullur og ógeðslegur. Sannkallað skítabæli eiginlega, en viti menn... fullur af fullum Íslendingum. Ég þekkti engan þeirra. Næsta stopp var einhver smá búlla. Við stoppuðum þar því við fengum sæti. Fyrir fróðleiksþyrsta þá man ég ekki nöfnin á þessum stöðum. Leiðinlegt. Að lokum fórum við á dansklúbb sem var einhvers staðar. Ég var orðinn töluvert ölvaður eins og við var að búast og veit hreinlega ekkert hvert við fórum. En staðurinn reyndist vera ágætur. Heim í háttinn um 04:00. Ekki seinna vænna, enda planað að vakna snemma daginn eftir og gera eitthvað svakalegt.

Sunnudagur 2. mars
Það er ekki hressandi að vakna fyrir klukkan 10 eftir fyllerí. Ég gerði það nú samt. Skóflaði í mig einhverjum morgunmat á Hótel Selandia. Sérstaka athygli mína vakti nýstárlegur ostaskeri. Gaman.

Tempó tempó. Grrrrr, það var enn kalt. Ég er ekki að tala um venjulegan kulda, heldur eitthvað miklu meira. Aldrei hefur Hagnaðurinn upplifað annan eins kulda. Því var tilvalið að fyrsti viðkomustaður yrði innandyra. Fórum við á vaxmyndasafn bæjarins. Ég hafði komið þangað áður og var fátt nýtt. Samt ágætis labb.

Við skoðuðum konungshöllina... að utan og var það tóm steypa. Svo var bara labbað víða og farið inní allar opnar búðir til að hlýja sér. Voru það aðallega minjagripaverslanir. Afar skemmtilegt. Fórum einnig upp turn sem heitir ‘Round Tower’. Þaðan var útsýni ágætt og kuldi mikill.

Eftir einn Tuborg var farið í Kristjaníu. Harpa hélt við myndum verða drepin.... áður en við fórum. Reyndist svo ekki vera. Þetta er heillandi svæði. Kannabisefni flæðandi útum allt og fólk að fá sé. Hápunktur ferðarinnar var þó þegar við fórum inná bar þarna og ég sá Steven Gerrard skora fyrra markið í úrslitaleik deildarbikarsins. Skemmtilegt. Ég reyndist samt vera sá eini þarna inni sem virtist taka eftir þessu. Veit ekki af hverju. Svo var horft á seinni hálfleikinn á ‘The Old English Pub’. Var gaman að sjá sína menn vinna.

Um kvöldið var okkur boðið í mat hjá Hildi og Troels. Hann er grænmetisæta og var þetta því ansi spennandi. Búa þau á Lyovej í Frederiksberg. Voru þau nýflutt inn og var íbúðin öll hin fínasta. Samt vakti það athygli mína hversu lítið klósettið var. Það var u.þ.b. einn fermetri, þ.e. bæði klósett og sturta !!! Við fengum voða góðan mat. Þetta var svona píta með einhverjum bollum og spínatdóti og allskonar grænmeti að sjálfsögðu. Ískaldur bjór drukkinn með. Fínasta kvöldstund. Sáum líka video um Ísland sem Troels hafði gert um jólin. Hann er svona grafískur hönnuður.

Að matnum kíktum við á Copenhagen Business School og annan skóla sem Harpa er að spá í. Mér leist voða vel á CBS. Annars var kvöldið voða rólegt eftir þessa skemmtilegu en köldu kvöldgöngu. Kveðjustundin var svo erfið.

Mánudagur 3. mars
Vaknað klukkan 9 sem var ágætt. Drifum okkur í morgunmat og svo var bara leigubíll í University of Copenhagen. Harpa er að spá í að reyna að komast þangað í uppeldisfræði. Skoðuðum ‘Humanities’ bygginguna. Þetta var bara svona skóli. Ekkert mikið um það að segja. Tókum svo strætó til baka. Það var afar spennandi. Tókum lokarölt um strikið. Harpa verslaði smá í H&M. Jájá.

Svo var bara farið uppá hótel og tjekkað sig út og leigubíll uppá Kastrup. Flugið fór um 13:30. Þetta var Kaupamannahafnarferðin. Hún var bara fín.

Sorry Funi og Hjalti að ég hafði ekki samband. Ég var bara of vitlaus til að skrifa niður símanúmerið þitt áður en ég fór. Kemur bara næst.


Hagnaðurinn