sunnudagur, febrúar 23, 2003

Sitt lítið af hverju...

Á föstudaginn fór ég á uppistand í Háskólabíói. Daníel Traustason bauð mér og Atla. Þetta var ágætlega hressandi kvöldstund. Skemmtarar voru Sigurjón Kjartansson, Þorsteinn Guðmundsson, Pétur Jóhann Sigfússon og Robert Townsend. Það var ágætis stígandi í þessu gamanmáli. Sigurjón var sístur, svo Þorsteinn, Pétur var ágætur og Robert var bara nokkuð fínn... samt ekkert stórkostlegur. Ég hefði allavega ekki borgað 2500 kall til að sjá þetta. Það var mikið um ‘celeb’ á svæðinu, væntanlega öll með boðsmiða. Eitt slíkt sat fyrir aftan okkur. Það var Auddi á Popp Tíví. Hann hló hátt og snjallt. Aðallega hátt samt.

Í gær komu Krissi og Atli í heimsókn. Það var spilakvöld. Gripið var í hið ágæta og sígilda Trivjal Pörsjút; nýjustu útgáfuna held ég. Þetta varð sannkallað maraþonspil og entist alls í 3 tíma. Að lokum stóð Hagnaðurinn uppi sem sigurvegari og fær hann flugferð að eigin vali með Icelandair... innanlands!

Í dag er víst konudagur. Það er frábært. Konur fara að versla og ég get verið heima og horft á sjónvarpið. Eða virkar það kannski ekki þannig? Kannski maður eldi bara einhvern andskotann í kvöld. Rauð steik, rauðvín og rómantík. Afskaplega skemmtilegt allt saman.

Ég var að stofna aðdáendaklúbb Los Angeles Lakers. Hann er gríðarfjölmennur og farið er að skipa í stjórnartöður. Það styttist í að þeir verði sýndir á Sýn. Spennan er mikil. Hversu lengi heldur Kobe að skora 40+ stig? Andskotinn hafi þennan snilling. Hann er betri en Jordan var nokkru sinni. Stór orð en sönn orð.

Maður neyðist víst til að fara í vinnuna á morgun. Ég er engan veginn að nenna því að fara í þetta helvíti. Bara ef ég fengi borgað fyrir þetta.

John Lennon lengi lifi.
Húrra Húrra Húrra.

Hagnaðurinn