laugardagur, desember 14, 2002

Magnaður helvítis andskoti...

... já, þessir seinni útgáfutónleikar Sigurrós í gær voru af hinu góða. En byrjum á byrjuninni...

... Ég og Harpa hófum kvöldið með því að fara á Austur-Indíafélagið. Við erum svo mikið fyrir AT, humm. Þetta er staður niðrá Hverfisgötu fyrir þá sem ekki vita. Ágætlega kósý staður... svona indversk músík, starfsfólk í einhvers konar kuflum og bara allt í hinum besta fíling. Svo var komið að því að panta. Þá talaði þjónninn bara ensku, sem er í fínu lagi, en við héldum að hann væri frá Frakklandi... þannig að þetta var nú orðinn meiri alþjóðlegi hrærigrauturinn. Maturinn reyndist hiða mesta lostæti eins og við var að búast og fórum við saddari út. Við fengum okkur einhvern kjúkling, jógúrtsósu, og naan brauð... allt í stakasta lagi.

... Frá glæpamönnunum á Hverfisgötunni lá leiðin í smá rúnt til ríka fólksins á Seltjarnarnes áður en við námum staðar í Háskólabíói. Spenningurinn var að ná hámarki. Allavega hjá mér, ég veit ekki alveg með Hörpu... hún var meira bara að horfa á allar “týpurnar”.... jú, og alla útlendingana sem voru ansi margir, og sérstaka athygli vakti hversu margirAsíubúar voru á svæðinu.

... Áður en tónleikarnir hófust keypti ég mér bol... svona eins og allir túristarnir. En ég endaði reyndar uppi með tvo boli því Harpa stal óvart einum bol. Ég á því tvo eins boli, annan í small og hinn í medium. Þetta er af hinu góða. Nú á ég nýjan uppáhaldsbol... eða boli... einn til að vera hnakki í small og einn til að vera rokkari í medium. Möguleikarnir eru endalausir.. en þá að blessuðum tónleikunum.

... Siggi nokkur Ármann hitaði upp. Hann var í rólegum fíling með kassagítar í hönd en hafði með sér Kjartan hljómborðsleikara í Sigurrós á hljómborð og Orra í Sigurrós á trommur. Hann spilaði einhver 8 lög sem öll voru ansi svipuð... soldið Belle & Sebastian-leg mörg hver, sem er af hinu góða. En enginn var þarna mættur til að sjá Sigga Ármann.

... Núna gat kvöldið farið að byrja. Ég var orðinn ansi spenntur því ég átti von á einhverju svakalegu. Hressu strákarnir mættu svo um tíu-leytið ásamt stelpunum í strengjasveitinni sem eru þeim til halds og trausts. Athygli vakti að þeir heilsuðu ekki. En hverjum var ekki sama. Enginn var þarna mættur til að hlusta á eineygðu grænmetisætuna tala.

... Sigurrós spiluði í alls tvo tíma sem var bara af hinu góða. Þeir hefðu mátt spila lengur mín vegna. Strax í fyrsta lagi var maður kominn með netta gæsahúð og það hélt áfram út alla tónleikana, allt fram í Pop Song sem var síðasta lagið og það var alveg brjálæðislega skrjáflæðislbrega gríðarlega smíðatrega geggjað og sá til þess að gæsahúðin mun ekkert fara fyrr en einhvern tímann á næsta ári. Svo eru menn að segja að Sigurrós sé eitthvað rólegheita-band. Þvílíkt bull og vitleysa.
Svo ritar Jarlaskáldið um þetta lokalag:
Þá var bara eitt lag eftir, og allir í salnum vissu að þetta væri lokalagið þegar fyrstu tónarnir heyrðust. Popplagið er einfaldlega langbesta tónleikalag allra tíma (segir maður sem farið hefur á ca. tíu tónleika, but waysany), og sveik það ekki í kvöld frekar en fyrri daginn. Ætlar Jarlaskáldið ekkert að reyna að lýsa því, það verður aðeins upplifað. Trylltust enda áhorfendur þegar Sigur Rós henti frá sér hljóðfærunum og stormaði út, en kom svo tvisvar aftur til að hneigja sig eins og hennar er siður.

... á milli þessara laga spiluði þeir bland af lögum af Ágætis Byrjun, allavega eitt lag af Von, nokkur lög af ( ), og að ég held tvö ný lög; þar af eitt sem var soldið Godspeed You Black Emperor-legt. Ansi gott stöff.

... Í heildina stóðu þeir sig allir afar vel. Samt fannst mér eiginlega trommarinn standa uppúr. Hann fær alveg geðveikisleg köst drengurinn sá. Eins og hann er nú furðulegur. Æ, þeir eru allir furðulegir held ég. Ég læt þetta gott heita.

Einkunn: 99/100 ... það má alltaf gera betur einhvers staðar.

Hagnaðurinn